11.02.1930
Neðri deild: 21. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (543)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jón Ólafsson:

Nýlega er fallinn dómur í undirrétti, sem hljóðar á þá leið, að Reykjavíkurbær sé skyldur að láta af hendi vatn, sé hann aflögufær. (PO: Enn er eftir hæstaréttardómur í málinu). Alveg rétt. Þess vegna er óþarft að tala um samningsrof frá bæjarins hendi, meðan málið er óleyst.

Ekki er það rétt, að Seltirningar sæki verulegt bjargræði í sjóinn. Það eru nokkrir hrognkelsabátar og fimm til sex opnir bátar, eða svo. (PO: Miklu, miklu fleiri). En alla daglaunavinnu sækja þeir til okkar. (ÓTh: Það ganga þrír togarar frá Viðey). Ég held mig við nesið, og hv. 2. þm. G.-K. átti aðeins við nesið, þegar hann var að tala um, að þeir hefðu 300 þús. kr. atvinnutekjur við ýmsa vinnu. Ég veit ekki betur en hann leggi sjálfur þar til helminginn og ég hinn helminginn, eða kringum 160 þús. kr. atvinnu. Svo að það er alveg skakkt að tala um, að þeir hafi verulega bjargræðisvegi öðruvísi en sækja þá til okkar á einhvern hátt.

Hv. þm. Borgf. sagði, að allar ástæður væru aukaatriði. Nú skil ég ofurvel, að það er ekki til neins að færa fram ástæður við hv. þm. Þær verða allar að aukaatriðum fyrir honum. Þessi hv. þm. vill ekki opna nema annað augað, og ekki nema til hálfs.