10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (549)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Magnús Torfason:

* Ég hefi skrifað undir nál. á þskj. 304 með fyrirvara. Ég skal lýsa því yfir, að það er alls ekkert stefnuatriði fyrir mér að vera á móti því að stækka Reykjavík, og þær glósur sem féllu við 1. umr. þessa máls, leiði ég hjá mér.

Ég hefi ekki getað verið með þessu frv. Ég lít svo á, að enn sé ekki kominn tími til þess. Ég get ekki séð, að það sé nein brýn þörf fyrir bæinn að gera þetta, og því síður nauðsyn. En undir eins og ég er sannfærður um, að það sé nauðsyn fyrir bæinn að fá þetta inn undir sitt lögsagnarumdæmi, þá mun ég verða með því. Ef hinsvegar íbúarnir á svæðinu eru með því, þá álít ég það líka sjálfsagt, en það liggur ekki neitt fyrir í þá átt, hvorki með eða móti, en í þessu efni vil ég fara mjög eftir því, hvað þeir vilja vera láta.

Hinsvegar geri ég ekki mikið úr því, þótt hreppsnefndin í Seltjarnarneshreppi vilji ekki láta þennan skika af hendi. Hún vill ekki láta hreppinn minnka. Hreppsnefndin hefir heldur ekkert um það sagt, með hvaða kjörum hún vilji láta þetta af hendi til bæjarins.

Það er víst, að ef nauðsyn Reykjavíkur og vilji íbúanna væri sameinaður, þá fyndist mér sjálfsagt að vera með þessu frv. á sínum tíma. Tel það ekkert stefnuatriði að vera á móti því nú.

Annars hélt ég, að ef þeir legðu saman, hv. 2. og hv. 3. þm. Reykv., mundu þeir geta fengið þetta samþ., ef þörf er á. (ÓTh: Heyr!).