10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (553)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Ég býst ekki við, að ástæða sé til að halda uppi löngum umr. um þetta mál hér eftir.

Ég vil benda á, að það er rangt hjá hv. 2. þm. Reykv., að ekki sé nein kúgun við Skildinganesbúa að samþykkja þetta frv. (HV: Það má segja, að öll lög séu kúgun við einhverja). Nei, nei, mörg lög veita aðeins réttindi, og þingunarlög á ekki að setja nema brýn nauðsyn beri til, og sú nauðsyn er ekki í þessu máli.

Ég vildi spyrja hv. þm. hvers vegna skoðanabræður hans í Danmörku leggja ekki Friðriksberg undir Kaupmannahöfn. (HG: Til þess þarf lög, en jafnaðarmenn hafa ekki meiri hl. í danska þinginu). Jú, í fólksþinginu hefir stjórnin sterkan meiri hl., en þeir vilja meta svo mikils sjálfsákvörðunarrétt einstaklinganna, að þeir vilja ekki taka af íbúum Friðriksbergs réttinn til að vera út af fyrir sig.

Um útsvörin fannst mér hv. 2. þm. Reykv. fallast á mitt mál. En svo kom hæstv. dómsmrh. aðvífandi og fór að tala um þetta mál, án þess að vita nokkuð, hvað áður hafði fram komið í umr. Hann vissi ekki, að búið var að upplýsa það, að útsvörin eru ekkert lægri í Seltjarnarneshreppi en í Reykjavík, og að hv. 2. þm. Reykv. hefir ekki neitað því. (HV: Jú, ég neitaði því). Það heyrði ég ekki, en hreppsnefndin har þetta fram í allsherjarn., og þá mótmælti hv. þm. ekki.

Þá sagði hv. frsm. minni hl., að Skildinganes mundi bráðum vilja verða sérstakur hreppur. Nefndin spurði hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps, hvort nokkur hreyfing væri í þá átt, og neitaði hún því. Enda mundi ekki vera haldið svo mjög í þennan blett, ef svo væri.

Þá er slökkviliðið. Ég vissi ekki, að svo var, sem hv. 3. þm. Reykv. hefir nú skýrt frá, að slökkviliðsstjórinn tjáði sig fúsan að fara, þegar húsið brann í Skildinganesi. Ég spurði aðeins um þetta, og sagði, að ef slökkviliðið hefði neitað að fara, þegar bruna bar að höndum, þá væri það óvenjulegt.

Hvort borgarstjórinn hér hefir fengið boð um að koma á fund allshn. veit ég ekki, en hv. 2. þm. Reykv. lofaði að boða honum fundinn. En n. áleit, að honum hefði verið tilkynnt um fundinn.

Hv. 3. þm. Reykv. þarf ég litlu að svara. Hann var hógvær að vanda og sagði, að fullar bætur ættu að koma fyrir, ef Skildinganes væri lagt undir Reykjavík. En hvað eru fullar bætur? Um það getur enginn sagt. Allir sjá, að þetta er mjög arðvænn blettur fyrir hreppinn, en hvað mikils virði hann er, veit enginn.

Um skipulagið er það að segja, að meðan skipulag Reykjavíkur nær ekki lengra en út að Hringbraut, og þar fyrir utan er byggt eins og hverjum sýnist, get ég ekki séð, að það sé verra, þó skipulagslaust sé byggt í Skildinganesi. Auk þess ætti alveg eins að vera hægt að finna skipulag fyrir Skildinganes, þó það tilheyri ekki Reykjavík. Ég held menn séu ekki það vitrari hér í Reykjavík, og þó svo væri, ætti að mega fá leiðbeiningar héðan. Hæstv. dómsmrh. kom hér að og fór að tala um hluti, sem áður var búið að hrekja. Hefi ég því litla ástæðu til að svara honum. Hann hélt fram, að slökkviliðið hafi neitað að fara til Skildinganess, þegar brann þar, og fannst mér hann telja það rétt. Það er nú búið að segja, að það hafi ekki neitað að fara, enda hefði það verið rangt gert.

Hæstv. ráðh. kvað flm. frv. vera á réttri leið nú, þegar þeir færu ekki fram á að fá nema Skildinganes. Hv. 3. þm. Reykv. sagði í fyrra, að heppilegt mundi vera að taka hreppinn í smáhlutum; þetta er þá allt svo fyrsti hlutinn.

Að Skildinganes sé skattflóttahreiður, er áður búið að hrekja.