27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (561)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Hv. frsm. meiri hl. tók það fram, að þetta frv. væri ekki neitt nýmæli hér á Alþ., og er það rétt. En ég vildi bæta við, að eftir þrálæti því, sem fram hefir komið í sókn þeirra manna, sem að þessu frv. standa, væri vel gert að láta þá ekki þurfa að velkjast með þetta afkvæmi sitt á fleiri þingum. Ég býst við, að það mundi ekki valda byltingum í lífi eða högum neins, þó frv. þetta yrði að lögum. En það yrði algerlega gagnslaust að því leyti, sem það á að styðja að landhelgisvörnum. Enda hefi ég heyrt einn vel metinn flokksbróður hv. frsm. meiri hl. segja, að þetta frv. gæti aldrei orðið annað en pappírsgagn, þó það yrði að lögum. En þegar þetta frv. var borið fyrst fram, fyrir 3 árum síðan, var það svo fáránlega úr garði gert, bæði ákvæði þess um framkvæmd á eftirlitinu með loftskeytanotkun, og ekki síður sektarákvæðin, að það náði ekki nokkurri átt. Eftir því gátu sektirnar fyrir að nota loftskeyti sér til hagnaðar við landhelgisveiðar jafnvel orðið hærri heldur en fyrir landhelgisbrotin sjálf. Nú hafa þó verstu gallarnar sniðizt af frv. í meðferðinni, vegna aths. okkar, sem höfum gagnrýnt það á undanförnum þingum.

Hv. frsm. vitnaði eins og fyrri daginn í almenningsálitið, sem skapazt hefði út af misnotkun loftskeytanna, og ennfremur vitnaði hann í einhvern sterkan grun, sem upp hefði komið í útlöndum. Þetta hvorttveggja taldi hann, að krefðist þess, að ný löggjöf væri sett um notkun loftskeyta. Um almenningsálitið, eða grun manna hér innanlands, skal ég játa, að hinar þrálátu staðhæfingar á þingi og í blöðum þeim, sem standa að meiri hl. sjútvn., munu hafa fengið einhvern hluta landsfólksins til þess að trúa á miklar misfellur í þessu efni. En þó að hægt sé að fá fólk til að trúa slíku, er það engin sönnun þess, að sú alda, sem hefir verið vakin, eigi sér raunverulegar orsakir. Það hefir verið raunalegt að hlusta ár eftir ár á þau ranglátu ámæli, sem ýmsir hv. þm., með hæstv. dómsmrh. í fararbroddi, hafa látið sér um munn fara í garð íslenzkra útgerðarmanna. Ennfremur hafa þessir sömu menn ár eftir ár verið að stagast á því, að á okkur lægi svo mikill grunur útlendinga um það, að við beinlínis leiddum okkar eigin togara inn í landhelgina. Og þó að þeir hafi viðurkennt við mig, að þessi lög mundu ekki hafa neina praktiska þýðingu, hafa þeir þó talið þau nauðsynleg vegna þessa ámælis, sem ég fullyrði, að á við engin rök að styðjast. Hvorki hv. frsm. né öðrum hefir tekizt að finna orðum sínum stað, nema að því leyti, sem þeir hafa vitnað í skrif eins danska varðskipsforingjans, sem allir vissu, að var ákaflega gramur út af aðfinnslum fyrir það, hve illa hann gætti landhelginnar. Í mínum augum er þetta ákaflega lítils virði. Ég verð að segja, að ég hefi mjög mikla reynslu af því, hvað útlendingar segja um okkur og okkar landhelgislöggjöf, og það á ekkert skylt við álit þessa danska varðskipsforingja.

Það hefir á undanförnum þingum orðið hlutskipti mitt og annara sjútvnm. að kynna okkur bréfaviðskipti útlendraríkja við hæstv. stj. um ýmsan árekstur, sem orðið hefir vegna landhelgislöggjafarinnar íslenzku og framkvæmda á henni. Þar er ýmsu haldið fram, sumu með fullum rökum, en öðru mjög óréttmætu. En ég hefi hvergi séð eitt orð um það, að við lokuðum augunum fyrir misnotkun loftskeyta í þágu íslenzkra landhelgisbrjóta.

Meiri hl. n. segir hér í nál. á þskj. 171, að hann telji nauðsyn til bera að skerpa eftirlit um loftskeytanotkun veiðiskipa. En ég vil spyrja hv. meiri hl.: Hvaða eftirlit ætlast hann til að sé skerpt? Það hefir ekkert eftirlit átt sér stað. Hér kem ég að atriði, sem minni hl. hefir oft bent á og hv. frsm. meiri hl. minnist á, sem sé þær heimildir í lögum, sem ríkisstj. hefir til þess að hafa eftirlit með loftskeytanotkun veiðiskipa, en sem hún hefir fullkomlega vanrækt að framkvæma. Ef hv. frsm. meiri hl. gæti bent á það, að stj. hefði reynt að framkvæma eftirlit samkv. lögum frá 1917 og reglugerð frá 1918, sem fjallar um eftirlit með loftskeytum, en að það hefði ekki komið að notum, þá fyrst gæti hv. meiri hl. talað um, að nauðsyn bæri til að skerpa eftirlitið. Það er einmitt mjög eftirtektarvert, að hæstv. stj., sem hefir látið flytja þetta mál á 3 þingum og mikið gert á yfirborðinu til þess að játa það ganga fram, hefir alveg lagzt undir höfuð að nota gildandi lagaheimild í þessu efni. En þessi sama stj. hikar ekki við að nota sér andstöðu okkar gagnvart þessu frv. til þess að útbásúna það í stjórnarblöðunum, að við séum á móti landhelgisvörnum. Hæstv. dómsmrh. sagði meira að segja, að þessi andstaða okkar væri prófsteinninn á það, hvort við vildum hafa góðar landhelgisvarnir eða ekki. Þegar verið er að klifa á þessari fáránlegu löggjöf, en vanrækt að nota heimildina, sem nú er í lögum, get ég ekki litið öðruvísi á en að verið sé að gera sér leik að því að halda uppi skrafi um málið, hégómlegu skrafi.

Hv. frsm. meiri hl. vildi bera á móti því, að ríkisstj. hefði nægilega stoð í hinum gildandi lögum, og benti á ákvæði reglugerðarinnar frá 1918 í sambandi við þá þýðingu, sem hann telur, að það muni hafa að koma þessu eftirliti af stað. Hann talaði eins og hér væri um svo mikilvægt atriði að ræða, að ekki mætti undir höfuð leggjast að setja lög um það sem fyrst. Einnig hefir hæstv. frsm. haldið því fram, að á okkur lægi mikill grunur útlendinga um ódrengilega framkomu í landhelgismálinu. Þegar tekið er tillit til þessara tveggja hluta, í fyrsta lagi velferðar fiskiveiða landsmanna og í öðru lagi mannorðs þjóðarinnar út á við, þá hefir ríkisstj. fulla stoð í 19. gr. reglugerðarinnar um notkun loftskeyta frá 1918, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðuneytið getur bannað öll loftskeytaviðskipti innan íslenzkrar landhelgi, bæði frá íslenzkum og erlendum skipum, og gert þær ráðstafanir, er nauðsynlegar þykja til þess að banninu verði hlýtt“.

Einnig getur ráðuneytið látið hafa eftirlit með öllum loftskeytum, og látið stöðva þau skeyti, sem að þess áliti geta verið skaðleg velferð landsins“.

Ég þykist ekki þurfa að vitna frekar í reglugerðina til þess að benda á, að það er einkennileg framkoma hjá stjórnarvöldunum, að gera ekki minnstu tilraun til að nota þessa löggjöf. Það hefði áreiðanlega legið langnæst fyrir hvaða stj. sem er, sem sjálf hefir trúað á þennan grun, að nota sér eins langt og hægt var þau ákvæði reglugerðarinnar, sem ég hefi lýst.

Ég minntist á það áðan, að hv. meiri hl. hefði smám saman látið undan síga í ýmsum ófærustu atriðum frv. Ég mun því geta greitt atkv. með breytingum hv. meiri hl.

Ennfremur vil ég vekja athygli hv. dm. á því, að þó að nú sé svo ástatt, að við þurfum loftskeyti til að hafa samband breyt. að verða í heiminum á þessu sviði sem öðrum, að eftir nokkur ár geta loftskeytin verið orðin úrelt. Útlendingar eru þegar farnir að taka upp talstöðvar. Og ég býst við, að ekki líði á löngu, áður en það sama verður uppi á teningnum hér. Nú fyrir skemmstu barst sjútvn. Ed. erindi frá landssímastjóranum þar sem hann hendir á, að 1. gr. frv. þessa sé ekki bráðnauðsynleg, því að samkv. alþjóðasamþykkt, sem gerð hafi verið, muni innan skamms verða lagt frv. fyrir Alþingi frá landssímastjóra um að skylda öll skip til að hafa loftskeytatæki. Hann hefir því lagt til við stj. að bíða með þetta mál.

Að endingu vil ég fyrir hönd minni hl. sjútvn. og margra annara taka það fram, að þeir, sem ekki fá sig til að fylgja þessari löggjöf hafa tvær ástæður til þess. Í fyrsta lagi þá, að löggjöfin yrði gagnslaus, og í öðru lagi þá, að löggjöfin yrði byggð á forsendum, sem er varhugavert að nota út í æsar. Í þessu sambandi leyfi ég mér að benda á orð hins ágæta manns Hannesar Hafsteins, á þinginu 1912, í sambandi við aðra löggjöf. Hann sagði: „Fátt er meira siðspillandi en löggjöf, sem ekki er unnt að framfylgja og leiðir menn til undanbragða og svika“. Og sé hægt að segja þetta um nokkra lagasetningu, á það við um þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Ég get bent á enn einn annmarka við frv., sem er mjög óviðkunnanlegur. Þar eru lagaákvæði um viðskipti íslenzkra útgerðarmanna við sín eigin skip, en enginn hemill er lagður á viðskipti manna í landi við útlend veiðiskip. Hin íslenzku skip ein eru þannig sett undir eftirlit, en þeir landsmenn, sem kynnu að vilja láta hafa sig til þess, geta óhindraðir sent skeyti til útlendra skipa, þó að „ömmufrv.“ verði samþ.