03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (563)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Magnús Guðmundsson:

Ég held, að þetta sé þriðja þingið, sem þetta mál er hér á ferðinni. Ég held, að ég hafi aldrei látið álit mitt á því í ljós áður, og ætla því í þetta skipti að fara um það nokkrum orðum.

Ég verð fyrst að segja það, að mig undrar það, að hv. frsm. meiri hl. skuli telja, að hann kæmist af með það svar, sem hann gaf hv. frsm. minni hl. um lögin frá 1917 og reglugerðina frá 1918. Því það eru sannarlega veigamikil rök í þessu máli, þegar hægt er að lesa upp fyrir hv. frsm. meiri hl. ákvæði, sem blátt áfram sýna, að stj. hefir allt það vald í þessu efni, sem hún getur þurft á að halda. (SvÓ: Það er ekki heimilað í lögum). Jú, lögin frá 1917 heimiluðu að setja reglugerð, og sú reglugerð var sett 1918 og er í Stjtíð. þess árs. Það stendur svo í 19. gr. ef ég má lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta.

„Ráðuneytið getur hannað öll loftskeytaviðskipti innan íslenzkrar landhelgi“ — og íslenzk löggjöf getur ekki sett reglugerð um það, hvað fram fer utan íslenzkrar landhelgi, — “bæði frá íslenzkum og erlendum skipum, og gert þær ráðstafanir, er nauðsynlegar þykja til þess að banninu verði hlýtt“.

Í 2. málsgr. sömu gr. stendur ennfremur svo:

„Einnig getur ráðuneytið látið hafa eftirlit með öllum loftskeytum, látið stöðva þau skeyti, sem að þess áliti geta verið skaðleg velferð landsins“. (SvÓ: Fyrir landið; það geta verið landráð). Þ. e. a. s., stj. getur gert hvað sem hún vill til að hindra slík skeyti. Hv. frsm. viðurkennir hinsvegar, að ekkert hafi verið gert til þess að framfylgja þessu, en samt heldur hann því fram, að stórhættulegt sé að hafa ekkert eftirlit með þessum skeytum, og hvernig vill hann, sem einlægur stjórnarsinni, gera það forsvaranlegt, að stj. hefir ekkert gert og ætlar engar ráðstafanir að gera í þessu máli. (SvÓ: Það hefi ég aldrei sagt). Jú, hv. frsm. var að segja, að lagasetningu þyrfti til þess að hægt væri að hafa hendur í hári þessara togara, sem með dulmáli eru að svíkjast inn í landhelgina. Frv. þetta mun flutt í þeim tilgangi að fyrirbyggja slíkt. Annars er það tilgangslaust.

Það er bert, að eftir 19. gr. reglug. frá 1918 er heimilt að hafa eftirlit með dulmáli, því þar er ráðuneytinu gefið vald til að hafa eftirlit með skeytum. En þau verða vitanlega að hafa mál, sem skiljanlegt er, því annars er ekki hægt að hafa eftirlit með þeim.

Mér fannst af ræðu hv. frsm. meiri hl. þetta vera eina vígið, sem hann hefði. En það er þá ekki betra en ég nú hefi sýnt.