03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (567)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Ég hafði að vísu búizt við þessari dagskrá hv. 1. þm. Skagf., og jafnvel fyrr en þetta, en ég sé ekki ástæðu til að kljást við hana. Ef hv. þdm. eru trúaðir á það, að ákvæði laganna frá 1917 séu einhlít til eftirlits, þá samþykkja þeir hana, annars ekki. En misskilningur um þetta mun hefna sín.

Út af orðum hv. frsm. minni hl., þegar hann reyndi að gera lítið úr ákvæðum 4. gr. um drengskaparvottorðin um ófölsuð skeyti, leyfi ég mér að segja, að það er sannarlega siðferðisleg þrotabús yfirlýsing fyrir hönd þjóðarinnar að segja, að ekkert verði byggt á drengskaparvottorðum borgaranna. Slík drengskaparheit eru alls ekki einsdæmi fyrir þessa löggjöf. Hvarvetna í gildandi lögum úir og grúir af samskonar ákvæðum og drengskaparvottorð eru í mörgum efnum talin sterkustu sannanagögn. Það er hastarlegt að heyra það í sjálfum þingsalnum, að ekkert megi byggja á eiðum og drengskaparheitum borgaranna. Það er svæsnasta móðgun við þjóðina, og enginn maður leggur trúnað á slíka kenningu. Dýrasta hnoss hverrar þjóðar er drengskapur borgaranna, og það er ósæmilegt að hafa það hnoss að fíflskaparmálum.