03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (568)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Ég vil spyrja hv. frsm. meiri hl., hvernig hann lítur á þann orðróm, sem liggur á yfirlýsingum í tilefni af skattamálum. Hv. þm. veit, að álagningar eru byggðar á yfirlýsingum manna. En liggur ekki einmitt grunur á, að þær yfirlýsingar séu rangar? Það er því ekki út í bláinn, að við minnihlutamenn viljum ekki gera leik að því að setja óþarfa löggjöf, byggða á því einu, að menn gefi drengskaparheit. Við viljum ekki hafa drengskap að fíflskaparmálum, eins og hv. frsm. sagði. Við höfum einmitt ógeð á slíku, og þess vegna viljum við ekki samþykkja þetta frv. Ef um mjög nauðsynlega löggjöf væri að ræða, og engin önnur leið væri fær en þessi, mundum við ef til vill láta undan síga. En þegar um er að ræða lagasetningu, sem jafnvel að þeirra dómi, sem þykjast fylgja henni, er bara pappírsgagn, þá eru það þeir, en ekki við, sem hafa drengskap að fíflskaparmálum.

Ég get nú látið útrætt um þetta mál. Aðeins skal ég geta þess, að eftir því sem ég hefi kynnt mér þetta mál frá upphafi, og eftir því sem ég skil lagaheimildina frá 1917, hlýt ég að fallast á dagskrá hv. 1. þm. Skagf. Og ég skal taka það fram um leið, að ég álít, að stj. eigi að nota gildandi lög í þessu og setja skynsamlegar reglur til að hafa eftirlit með sendingu loftskeyta þeirra, er hér um ræðir.