03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (569)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Pétur Ottesen:

Þegar þetta mál kom fyrst fram fyrir þrem árum, þá var því jafnframt haldið fram, að ef til vill gæti slíkt frv. sem þetta orðið að svo miklu liði fyrir landhelgisgæzluna, að ekki þyrfti að leggja eins mikinn kostnað í strandvarnarskip og ella. En ég benti á, að þó að ég mundi styðja að framgangi málsins, bæri ég ekki svo mikið traust til ákvæða frv., að mér væri ekki ljóst, að auka þyrfti landhelgisgæzluna að öðru leyti. Mér var þá ekki eins ljóst og núna, að til væri í lögum heimild fyrir stj. til að skerast í leikinn, ef grunur lægi á, að loftskeyti væru misnotuð. En eftir því sem fram hefir komið núna, er ég sannfærður um, að til eru í lögum allar þær heimildir, sem hægt er að setja um afskipti ríkistj. af þessu máli, og þess vegna er ekki ástæða til að samþykkja frv., sem hér liggur fyrir.

Ég ætla því að nota tækifærið til þess að skora á — ekki einungis núverandi ríkisstj., heldur allar stjórnir, að nota þetta ákvæði heimildarlaganna út í yztu æsar og sjá um, að útgerðarmönnum gefist ekki kostur á að misnota loftskeytin. Það verður að gera eitthvað til þess að nota lögin, og ekkert þýðir að setja ný lög, sem alls ekki taka hinum gömlu fram. Ég skora á stj. að láta eitthvað til sín taka í þessu efni.

Hv. frsm. minni hl. var að tala um, að ekki mætti treysta drengskaparheitum landsmanna. Þessu mótmæli ég. Enda þótt einstök dæmi kunni að vera fyrir hendi, verðum við að byggja á, að drengskap þjóðarinnar megi treysta. Annars hefði hún enga framtíð fyrir höndum. Ég verð að segja, að það má minnast Hannesar Hafsteins á annan og betri hátt en þann, sem hv. þm. vitnaði í.