17.01.1930
Sameinað þing: 1. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

Minning látinna sjómanna

Forsætisráðherra:

Í síðastliðnum mánuði átti Hennar Hátign drottningin hálfrar aldar afmæli. Af hálfu ríkisstjórnarinnar færði konungsritari henni að gjöf frá Íslandi málverk af Skjaldbreið eftir Jón Stefánsson málara. — Þessa tilefnis hefir mér borizt bréf frá Hennar Hátign, ritað á íslenzku, þar sem ég er beðinn að flytja Íslendingum kveðju og þökk — sem ég hér með geri.

— Ennfremur skal ég geta þess, að á nýársdag bárust mér kveðjuskeyti frá forsætisráðherra Danmerkur og forsætisráðherra Noregs. Þeir minnast sérstaklega þúsund ára hátíðar Alþingis og árna íslenzku þjóðinni allra heilla á hátíðarárinu. — Af Íslands hálfu svaraði ég um hæl þessum árnaðaróskum frá frændþjóðunum.

— Þar sem svo hefir farið enn, sem stundum fyrr, að skipi hefir seinkað, sem flytur alþingismenn til þings, þannig að enn eru ókomnir sex alþingismenn, verður, í samráði við aldursforseta, ekki frekar gert að þessu sinni. Fundinum er frestað til næstkomandi þriðjudags, stundu eftir hádegi.

Þriðjudaginn 21. janúar, kl. 1 miðdegis, var fundinum fram haldið. Voru þá til þings komnir þeir þingmenn, sem ókomnir voru við þingsetningu, aðrir en Þorleifur Jónsson, þm. A.-Sk. Auk hans var fjarstaddur Sigurður Eggerz, þm. Dal., sem boðað hafði veikindaforföll.