20.02.1930
Efri deild: 30. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (604)

131. mál, bæjarstjóri á Siglufirði

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Ég flyt þetta frv. eftir ósk bæjarstj. á Siglufirði. Í símskeyti frá henni, sem prentað er upp í grg. frv., er skorað á Alþingi að samþykkja breyt. á núgildandi lögum um stjórn bæjarmálanna á Siglufirði, sem mæla svo fyrir, að bæjarfógetinn þar skuli jafnframt vera oddviti bæjarstjórnar, og á þingmenn kjördæmisins að fylgja henni fast fram.

Það hefði nú kannske verið eðlilegra, að þm. kjördæmisins hefðu flutt þetta frv.; en það er langt síðan fulltrúar úr bæjarstj. fóru fram á það við mig, að ég flytti þetta mál, og tók ég því þá vel. Vona ég, að þm. kjördæmisins fylgi því vel fram engu að síður og að hv. þm. yfirleitt telji sjálfsagt að veita Siglfirðingum þessa réttarbót. Þetta er nú orðinn allstór kaupstaður og stjórn hans talsvert umfangsmikið starf, og því ekki nema eðlilegt, að hann geri kröfu til að fá sérstakan ráðsmann, sem ekki hafi öðrum störfum að gegna. Bæjarfógetinn hefir náttúrlega miklum störfum að gegna fyrir ríkið, eins og aðrir bæjarfógetar og sýslumenn, og verður því eðlilega fremur að láta bæjarmálin sitja á hakanum fyrir slíkum málum. Í núgildandi lögum er ákveðið, að Siglufjarðarkaupstaður greiði bæjarfógetanum 500 kr. fyrir stjórn bæjarmálanna, en nú greiðir hann honum 6000 kr. Er af þessu auðsætt, að aðstæður hafa mjög breytzt síðan árið 1919, að lögin um bæjarstjórn Siglufjarðar voru sett.

Eins og hv. þdm. vita, er langt síðan hinir kaupstaðir landsins fengu rétt til að kjósa sér bæjarstjóra. Hafnarfjörður fékk rétt til þess að kjósa bæjarstjóra árið 1907 og Seyðisfjörður 1919; var íbúatala Seyðisfjarðar þó ekki nema 868 þegar manntalið fór fram 1920, en nú munu Siglfirðingar vera orðnir hátt á 19. hundrað. Akureyri fékk bæjarstjóra 1917, og mun þá hafa haft eitthvað um 2000 íbúa.

Hafi verið rétt að láta Seyðisfjörð fá bæjarstjóra 1919, þá er auðsætt, hvílík nauðsyn er fyrir Siglufjörð að fá bæjarstjóra nú, þegar hann er orðinn meira en helmingi fjölmennari en Seyðisfjörður var 1919.

Þó ég hafi nú látið þessar ástæður fylgja frv., þá geri ég ráð fyrir, að hv. þdm. taki því svo vel, að ekki sé ástæða til að ræða meira um það að sinni.