13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

1. mál, fjárlög 1931

Sveinn Ólafsson:

Ég þarf ekki að þakka hv. fjvn. fyrir undirtektir hennar undir mín erindi. Þau voru aldrei nema tvö, og annað þeirra, það sem meiru máli skiptir, brtt. XXXIX. á þskj. 260, hefi ég tekið aftur vegna undirtekta n. Hitt erindið, sem er brtt. XVIII. á sama þskj., fer fram á það, að veita 1.000 kr. til amtsbókasafnsins á Seyðisfirði. Þá brtt. virtist mér hv. frsm. fjvn. hafa misskilið nokkuð. Mér virtist hann ekki gefa því þann gaum, sem vert er, að þessi fjárveiting var tekin upp í fjárl. yfirstandandi árs, og hefir hann ekki athugað hvers vegna það var gert eða með hverjum formála.

Bókasafn þetta var upphaflega, eins og nafnið bendir á, eign Austuramtsins forna; var lagt til þess fé af öllum sýslum amtsins. Síðar, eftir að amtsráðin voru lögð niður, lenti safnið á Seyðisfirði til geymslu og varðveizlu.

Um eitt skeið var safninu skipt niður í deildir, og þær fluttar á milli héraðanna til notkunar; en á seinni árum hefir verið frá þessu horfið og sýslurnar hættu að leggja fé til safnsins.

Nú er það tilgangurinn með þessari fjárveitingu að knýja fram samkomulag um notkun bókasafnsins milli þeirra aðila, sem upphaflega áttu það, og eiga það í rauninni enn, að fá þá til að leggja fram fé til safnsins og gera það öllum hlutaðeigendum nothæft. Ef Seyðisfjarðarkaupstaður vill ekki ganga að settu skilyrði, að ná samkomulagi við S.-Múlasýslu og Neskaupstað, þá verður féð ekki greitt. Það er ekki enn sýnt, hvort bókasafnið missir styrkinn af þessari ástæðu, missir fjárhæð þá, sem því er ætluð í fjárl. yfirstandandi árs, en mér þykir sennilegt, að á móti henni verði tekið og hún notuð til þess að safnið geti komið að eðlilegum notum fyrir þau héruð, sem eiga að hafa þess not.

Ég vildi aðeins benda á þetta til skýringar, af því mér fannst hv. frsm. hlaupa yfir þessa skýrslu og ekkert líta á það, að þetta safn hefir um mörg ár einskis styrks notið af opinberu fé, þótt hin amtsbókasöfnin hafi notið þrefaldrar upphæðar við þá upphæð, sem hér er beðið um.

Það er nú komið fram á nótt, og ég vil ekki gefa tilefni til, að umr. lengist úr hófi fram hér eftir. Þess vegna mun ég sleppa að minnast á aðrar brtt., þó ég væri búinn að merkja við nokkrar, sem ég hafði ætlað mér að minnast á.