01.04.1930
Efri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (610)

131. mál, bæjarstjóri á Siglufirði

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Í rauninni var allt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, utan við kjarna málsins. Sama er að segja um aðalrök dagskrártill. — Það er alveg eins og hv. meiri hl. þyki þörf á að verja bæjarfógetann á Siglufirði fyrir einhverjum árásum. Hv. frsm. meiri hl. var allt af að tala um það, hve góður embættismaður hann væri. Þetta er nú blátt áfram hlægilegt, því enginn hefir sagt annað um hann. En krafa Siglfirðinga er jafnréttmæt fyrir því. Aðalatriðið er, að Siglfirðingar fái algerða sjálfsstjórn, sem aðrir kaupstaðir hafa fengið. Bæjarstj. fer ekki fram á annað en það, að mega sjálf velja sér bæjarstjóra, að fengnu samþykki bæjarbúa. Það er ekki verið að hlaupa til að reka bæjarfógetann úr stöðu sinni; Siglfirðingar eiga sjálfir að skera úr því. Ákvæðið um þetta er meira að segja þrengra en gert var ráð fyrir í lögunum í fyrra. Samkv. þeim á bæjarstjórnin ein að velja sér bæjarstjóra. Ástæður hv. frsm. meiri hl. koma því undarlegar fyrir, að hann vill láta Alþ. brjóta reglu, sem það setti sjálft í fyrra. Þetta er því bara afturhald frá því, sem var í fyrra og samþ. var þá með atkv. beggja meirihl. mannanna í allshn.

Hv. flm. sagði, að vel færu saman störf bæjarfógeta og bæjarstjóra. Má vel vera. En það er þá heldur ekki útilokað, að lögreglustjórinn haldi áfram að vera bæjarstjóri, þó frv. verði að lögum. Mér þykir það sennilegt. En breytingin er mikil fyrir því. Nú er bæjarfógetinn fyrst og fremst umboðsmaður ríkisins. En þegar hann er líka orðinn kosinn bæjarstjóri, er aðstaða hans um leið orðin önnur gagnvart bæjarfélaginu. Þá verður hann bæjarstjóri eftir vali meiri hl. bæjarstjórnar og meiri hl. kjósenda, og það gerir aðstöðu hans sterkari. Hv. deild hefir því enga ástæðu til að fallast ekki á þetta, og vilji Alþingi vera sjálfu sér samkvæmt, þá er það skyldugt að samþ. frv.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að þm. kjördæmisins vissu ekkert um þetta, og mér skildist á honum, að þetta hefði ekki komið rétta og formlega leið inn í þingið. Ég veit nú satt að segja ekki, hver önnur leið er til réttari en sú, að þm., hver sem er, taki mál, sem hann er beðinn fyrir og vill gera eitthvað fyrir, og komi því inn í þingið. Ég get því hvorki séð formlegar ástæður né efnisástæður, sem réttlæti það, að frv. sé fellt. Auðvitað hefir þingið leyfi til að snúast. En skemmtilegra er þó, að einhverjar ástæður séu fyrir þeim snúningi.

Ég heyrði ekki alla ræðu hv. frsm. meiri hl. og veit því ekki fyrir víst, hvort hann taldi þetta vera fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð. Ég heyrði hann ekki minnast á það. En það er nú ekki það stórt atriði, að það geti staðið fyrir framgangi málsins, og það er sízt stærra en Alþ. hefir áður tekið á sig, með því að láta aðra bæjarfógeta hætta við að vera bæjarstjóra.

Þó leitað væri með logandi ljósi, væri ekki hægt að finna neina ástæðu fyrir þessari afstöðu hinna stærri flokka þingsins til þessa máls. Ef þingið fellst á till. meiri hl., gengur það þvert ofan í samþ. sjálfs sín frá í fyrra. Ég legg því til, að frv. verði samþ.