13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

1. mál, fjárlög 1931

Ólafur Thors:

Það eru aðeins örfáar aths. við ræður hv. þm. Ísaf. Hann taldi sér hafa runnið til rifja, að ég skyldi nefna nafn konu minnar í ekki smekklegra sambandi en umr. voru. Ég sagði nú ekki annað um konu mína í dag en að hún væri ein í þeirra hópi, sem hefðu mætur á H. K. Laxness, þrátt fyrir sorann í ritum hans. Þetta finnst hv. þm., sem er þó að mæla með H. K. Laxness, vera að fara ósmekklega með nafn hennar.

Ég gleymdi í fyrri ræðu minni að árétta þau ummæli, að sá ritháttur, sem H. K. L. hefir haft um konur yfirleitt, og einkum þó giftar konur, er mjög vítaverður. Þrátt fyrir það er hægt að fyrirgefa honum þau vítaverðu ummæli, eins og svo mörgum rithöfundum er fyrirgefið ýmislegt.

Einnig gleymdi ég að mótmæla því áðan, að ég hafi haft nokkur ósæmileg ummæli um þær konur, sem hv. þm. Ísaf. þekkir. Ég sagði aðeins eitthvað á þá leið, að ummæli þau, sem H. K. L. hefir um giftar konur, ættu ekki við þær konur, sem ég þekkti, en að ég gæti ekki sagt um, hvort það ætti við einhverjar aðrar konur, eða hvort hv. þm. þekkti einhverjar, sem það ætti við. Í þessu felst ekki nein svívirðing um þær konur yfirleitt, sem hv. þm. þekkir.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að aðalatriðið, þegar dæma ætti verðleika rithöfunda, væri það, hvort þeir hefðu nokkurn boðskap að flytja, en ekki hvernig þeir settu hann fram. En hjá H. K. L. tel ég nú einmitt framsetninguna aðalatriði, því allir vita, að hann er sem galdur foli, eins og það var orðað áðan, að því er skoðanir snertir. Það hefir meira að segja einn mætur maður sagt, að ekkert væri líklegra en eftir 10–20 ár skrifaði H. K. L. bók frá sjónarmiði sjálfstæðismanna. ekki lakari þeim heldur en Alþýðubókin er fyrir jafnaðarstefnuna nú.

Þó H. K. L. sé nokkuð brokkgengur og víxlgengur í skoðunum, er ekki óhugsandi, að hann lendi einhverntíma á betri stað á stjórnmálasviðinu heldur en hann er á nú; þó verður hann nú líklega aldrei tekinn alvarlega sem stjórnmálamaður. En þann heiður, sem hann á fyrir ritsnilld sína, vil ég ekki taka af honum.

Mér þykir hv. þm. Ísaf. mæla á undarlegan hátt með þeim mönnum, sem hann vill láta Alþ. styrkja. Guðm. Kamban reynir hann að fella í áliti með því að líkja honum við H. K. L. á því sviði, sem hv. þdm. hafa mest út á H. K. L. að setja. Og svo reynir hann að spana mig til að vera á móti styrknum til H. K. L., með því t. d. að telja það einhverja yfirbót af minni hálfu, ef ég greiddi atkv. með honum.

Þannig reynir hann að fæla menn frá báðum þeim brtt. um styrk til rithöfunda, sem hann er meðflm. að. Slíkt er ekki venja hv. þm., og bendir það á, að hv. þm. Ísaf. fylgi ekki þessum till. sínum af miklum heilindum.

Ég get sagt hv. þm. Ísaf. það, að ég læt ekki ummæli hans fæla mig frá að greiða atkv. með styrknum til H. K. L.; þó játa ég, að þau hafa óbeinlínis gert aðstöðu mína erfiðari til þessa máls. Upphaflega var ég brtt. frekar meðmæltur, en vegna ræðu hv. þm. fór ég að blaða í bókum H. K. L., og sá ég þá, að ég var búinn að gleyma ýmsu af því, sem mér var mest á móti skapi í þeim. Þess vegna get ég nú varla fylgt þessari brtt., þó ég væri ekki á móti henni í upphafi umr.