14.03.1930
Efri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (623)

92. mál, útflutningsgjald af síld

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Fjhn. hefir ekki getað orðið að öllu sammála um þetta frv. Meiri hl., hv. 1. þm. G.-K. og ég, hefir ekki getað fallizt á, að það fengi að ganga fram á þessu þingi, og höfum við fært rök að því í nál. Það er ekki af því, að við könnumst ekki fyllilega við, að útflutningsgjald af síld sé nú óeðlilega hátt, miðað við útflutningsgjald af öðrum sjávarafurðum. En nú er svo ástatt um fjárhag landsins, að við teljum ekki hægt að bæta úr þessu misrétti, nema ríkissjóði sé séð fyrir öðrum tekjulindum í staðinn. Útflutningsgjald af síld hefir verið drjúg tekjulind, 260–300 þús. kr. árlega, en tekjumissirinn, ef frv. nær fram að ganga, yrði ekki fjarri 200 þús. kr. — Þótt við treystumst ekki til að mæla með þessu frv., teldum við hinsvegar mjög æskilegt, ef hægt væri að jafna útflutningsgjald af sjávarafurðum þannig, að sem mest samræmi fengist milli einstakra tegunda. Ég má segja, að fyrir tveim árum hafi till. í þá átt legið fyrir Alþingi, en þær mættu mikilli mótspyrnu og mun loks hafa dagað uppi. Af þeim ástæðum höfum við ekki talið fært að bera nú fram brtt. í þá átt að bæta upp tekjumissinn með nýjum álögum á aðrar tegundir sjávarafurða. Við höfum hallazt á þá sveif að vísa málinu til stj., svo að hún geti athugað, hvort ekki sé unnt að lagfæra þá misfellu, sem allir viðurkenna, að hér er um að ræða.