14.03.1930
Efri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (624)

92. mál, útflutningsgjald af síld

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

* Eins og hv. frsm. meiri hl. viðurkennir, er útflutningsgjald af síld til muna hærra en af öðrum sjávarafurðum, og hefir svo lengi verið. Var þetta í fyrstu rökstutt með því, að síldarútvegurinn væri mest stundaður af útlendingum, og að þeir væru ekki of góðir til að greiða þetta háa gjald, sem er margfalt hærra hlutfallslega en af nokkrum öðrum sjávarafurðum. Nú er þessi ástæða burtu fallin, með því að síldarútvegurinn er nú orðið mestmegnis stundaður af landsmönnum sjálfum. Það er að vísu rétt, að ef samþykkt þessa frv. mundi leiða allverulegan tekjumissi fyrir ríkissjóð, 180–200 þús. kr. árlega, og jafnvel upp undir 220 þús. kr., eins og gert er ráð fyrir í nál. hv. meiri hl. Þetta eru nokkuð háar tölur, en menn verða að muna, að hér er verið að leiðrétta gamalt misrétti, sem einn flokkur gjaldenda hefir orðið fyrir móts við alla aðra. Alþingi þykist nú raunar e. t. v. vera búið að gera vel í því efni að koma síldaratvinnuveginum í lag, með því að samþykkja einkasölu á síld. Var það að vísu góðra gjalda vert, en kostaði ríkið ekki eyrisvirði, eins og samþykkt þessa frv. hlýtur að gera. En í það má ekki horfa, þar sem um leiðréttingu slíks misréttis sem þessa er að ræða.

Ég gæti vel hugsað mér að fallast á einhverja miðlunartill. í þessu máli, þótt ég hafi enga brtt. borið fram í þá átt. Ég sá ekki, að það væri til neins að gera það, þar sem báðir „stóru flokkarnir“ sýndust sammála um afgreiðslu málsins. Þeir vilja báðir vísa frv. til stj. — „kasta því í Drekkingarhyl“, eins og það er kallað öðru nafni. Það þykir eitthvað fínni aðferð heldur en að afhausa. — Eins og ég sagði, hefi ég enga brtt. borið fram, en ég gæti t. d. hugsað mér að fara þá leið, að lækka eitthvað gjaldið af hverri tunnu, eins og till. kom fram um fyrir nokkrum árum. Ósanngirnin í þessu útflutningsgjaldi verður sérstaklega ljós, þegar það er borið saman t. d. við meðferðina á frystu kjöti, sem út er flutt. Fyrst eru veitt lán til þess að reisa frystihúsin og síðan greiðir ríkissjóður hallann, ef hann verður einhver á útflutningi kjötsins. En af síldinni er greitt útflutningsgjald, sem nemur 10–20% af verði hennar. Hitt játa ég, að síðustu daga hafa ríkissjóði verið gerðir nýir árlegir útgjaldaaukar, svo að það er allt annað en efnilegt að sleppa tekjustofnum. En ranglætið er hér svo mikið, að á því verður að fást einhver lagfæring. Lægra útflutningsgjald gæti og orðið til þess að færa nýtt líf í þennan atvinnuveg, og það mundi aftur draga úr tekjumissinum fyrir ríkissjóð. — Því vil ég skora á hv. þd. að vísa þessu máli nú ekki til stj., heldur til 3. umr. Á tímanum þangað til mætti gera tilraunir til samkomulags um það, að láta tekjumissinn af frv. ekki verða eins mikinn og nú eru horfur á. Ég er fús til samninga í þá átt.