13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

1. mál, fjárlög 1931

Jóhann Jósefsson:

Þó hv. þm. V.-Ísf. sé ekki staddur í deildinni sem stendur, sé ég ástæðu til að mótmæla því, að fyrir mér hafi vakað nokkurt drengskaparleysi áðan, þó ég talaði á móti brtt. hans og hv. þm. Ísaf. Hinn nýstárlegi ritháttur H. K. Laxness hefir vakið svo mikið umtal meðal þjóðarinnar, að ekki er nema eðlilegt, að það valdi nokkrum umr. á Alþ., þegar borin er fram till. um, að H. K. L. verði einn af þeim fáu, sem þingið velur af rithöfundum þjóðarinnar til að njóta styrks af opinberu fé til ritstarfa.

Hv. þm. V.-Ísf. þótti mannamunur á okkur, að því er snertir sanngirni í þessum umr., þar sem hann hefði hreinskilnislega viðurkennt, að sér ofbyði að lesa suma kafla í ritum H. K. Laxness. En ég vil benda honum á, að hann er svo sem ekki sá fyrsti eða eini, sem opinberlega hefir látið í ljós, að ýmislegt væri athugavert við rit þessa höfundar.

Hv. þm. Ísaf. var að benda mönnum á rit George Brandes og gefa í skyn, að ef rit H. K. Laxness væru hneykslanleg, mætti telja rit G. Brandes það ekki síður. Mér er nú ekki kunnugt um, að G. B. hafi haft líkar skoðanir og H. K. Laxness. Og meðan hv. þm. Ísaf. sannar ekki annað, með tilvitnunum úr ritum Brandesar, mun ég halda fram, að það sé efamál, ef ekki bein ósannindi, að G. Brandes hafi látið frá sér fara aðrar eins ritsmíðar og H. K. Laxness.

Annars er það alveg á tvo vegu, sem hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. Ísaf. mæla með H. K. Laxness. Hv. þm. V.-Ísf. leggur aðaláherzluna á formið á ritsmíðum H. R. L. og þróttinn í stíl hans, en hv. þm. Ísaf. vill ekkert leggja upp úr slíku, heldur álítur þann mikilsverða boðskap, sem hann telur H. K. L. hafa að flytja, aðalatriðið.

Það er auðvitað hægt að flytja boðskap á margan hátt, og ég held, að yfirleitt sé ekki talið sama, hvernig það er gert. T. d. hafa líklega margar eða jafnvel flestar kvikmyndir einhvern boðskap að færa, en hann er þannig framsettur í þeim sumum, að þær eru ekki álitnar hollar, eða a. m. k, ekki boðlegar óþroskuðu fólki.

Mér þykir vænt um að hafa fengið tækifæri til að ræða þetta mál við hv. þm. Stefnumunur okkar er sá, að ég álít ekki ritverk H. K. L. eiga svo brýnt erindi til ísl. þjóðarinnar, að styrkja eigi höfundinn svo ríflega til ritstarfa, að nálgist meðalembættislaun.

Boðskapur H. K. L. er allskýr, svo ekki þarf mikið um hann að ræða. Og af framsetningu hans hafa hv. þm. víst séð ýms sýnishorn, a. m. k. skildist mér á hv. þm. V.-Ísf., að hann vera henni kunnugur. Það er nokkuð sama, á hvort er litið, formið eða boðskapinn; ég er jafnósamþykkur því um hvorttveggja, að það sé opinberra verðlauna vert.

Það er áður búið að minnast á, hvaða hneyksli búningurinn á sumum hugsunum þessa rithöfundar hefir vakið í huga þjóðarinnar; og boðskapur hans er þess eðlis, að ég tel eigi rétt að kosta hann af opinberu fé. Alþýðuflokkurinn ætti heldur sjálfur að kosta útbreiðslu á kenningum sínum.

Ég lít svo á, að atkvgr. um þessa brtt. eigi að sýna, hverjir af hv. þdm. telja boðskap og rithátt H. K. L. svo mikils virði, að ekki sé þarfara að verja fé ríkissjóðs til neins annars en verðlauna hann.