14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2447 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

Afgreiðsla þingmála

Magnús Jónsson:

Það er ákaflega mikill misskilningur hjá hæstv. dómsmrh., ef hann heldur, að það sé af því, að okkur þyki nafnið ljótt, að við viljum ekki láta kalla flokk okkar Íhaldsflokk. Við getum hugsað okkur, að einhver maður hafi fengið löglega nafnbreytingu, þá er það hrein ókurteisi og dónaskapur að nefna hann gamla nafninu, enda þótt hann þurfi á engan hátt að skammast sín fyrir það. Það er þessi skortur á mannasíðum í stjórnarherbúðunum, sem ég o. fl. hafa verið að finna að. (HV: Flokkurinn á engan rétt til nafnsins!). Má Sjálfstæðisflokkurinn ekki nefna sig því nafni, sem hann sjálfur kýs? Má ég þá spyrja, hvar Alþýðuflokksnafnið hefir stoð í lögum?

Það er ekki rétt hjá hæstv. dómsmrh., að ég hafi haft hinn danska ráðh. fyrir nokkurri sök. Vitanlega mátti maðurinn spyrja eins og honum sýndist á nefndarfundi. En sleikjuskapurinn hjá hæstv. dómsmrh. og liði hans hefir sýnt sig, þegar þeir vilja ekki nefna Sjálfstæðisflokkinn réttu nafni, bara af því að þessi maður hefir spurt, hvernig á heitinu stæði. — Það var einnig alveg rangt, sem hæstv. dómsmrh. var að reyna að koma á mig, að ég hefði sagt, að Kragh ráðh. hafi heimtað, að flokkurinn væri kallaður Íhaldsflokkur. Ég hefi ekki sagt nokkurn skapaðan hlut í þá átt. En þegar uppnefnin á flokknum byrjuðu, kom það strax í ljós, að þeir voru í vandræðum með nafnið. Stundum var það Morgunblaðsflokkur, Grimsbyflokkur, Auðvaldsflokkur o. s. frv. Aðeins eitt nafn mátti aldrei nefna, og það var rétta nafnið: Sjálfstæðisflokkur. Það héldu þeir, að gæti móðgað Dani. Þessi uppnefni eru með öllu ósæmileg. (BSt: En Tímabolsar? Er það sæmilegt?). — Ég vil skora á hæstv. forseta að gefa ákveðinn úrskurð um það, hvort uppnefni eiga að líðast í þingsalnum.