14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

Afgreiðsla þingmála

Ólafur Thors:

Ég tek undir það með hv. þm. Dal. og hv. 1. þm. Reykv., að það er mjög óviðfelldið að nefna flokkana ekki sínum réttu nöfnum. (BSt: Nefnir hv. þm. sjálfur flokkana þeirra réttu nöfnum?). Ef hv. stjórnarflokka langar mikið til, get ég auðvitað nefnt þá Kleppkarlaflokk og Títuprjónaflokk. En finnst þeim svona orðalag virðulegt? Finnst þeim það viðeigandi á löggjafarþingi þjóðarinnar? Mér finnst það ekki. Mér virðist, að við höfum aðeins eina leið að fara. Hvað sem við gerum á mannamótum og í blöðum, þá eigum við að reyna að hegða okkur svo á þessum stað, að Alþingi sé ekki vansæmd að. — Ef hæstv. forseti vill ekki áminna flokksbræður sína opinberlega hér í deildinni fyrir ósæmilegt orðbragð, þá vil ég biðja hann að gera það einslega eða á flokksfundi. Ég þykist vita, að a. m. k. margir þeirra myndu fara að orðum hans. (BSt: Ætlar hv. 2. þm. G.-K. sjálfur að sitja á sér að uppnefna aðra flokka?). Já, og ég þykist hafa gert það sæmilega allt til þessa. Ég hefi raunar stundum nefnt „sócíalista“, en því nafni kalla þeir sig oft sjálfir, og ég skal játa, að ég hefi einu sinni eða svo, að gefnu tilefni, nefnt „Jónasarflokk“. Það játa ég, að er bæði ljótt og ósæmilegt nafn, og skal ekki nota það í þingsalnum.