14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

Afgreiðsla þingmála

Magnús Guðmundsson:

Ég held, að ég verði að leggja hér nokkur orð í belg, þó að ég hafi að vísu ekki ætlað mér það.

Ég hjó eftir því hjá hv. þm. Ísaf., að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að heita Íhaldsflokkur, af því að það væri réttnefni. Ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á það, að það er ekki hans að dæma um þetta. Hver flokkur ræður sjálfur sínu nafni, og er það sjálfsögð skylda að nefna hann því nafni, sem hann hefir valið sér. Af þessum ástæðum er það runnið, að mér kemur ekki til hugar að kalla Jafnaðarmenn ójafnaðarmenn, þó að mér virðist það stundum eiga betur við. Og sumum mundi þykja, sem það væri ekki síður réttnefni að kalla Framsóknarflokkinn stundum Aftursóknarflokk. (BÁ: Tímabolsi hefir nú heyrzt). Ekki frá mér. Ég hefi enga löngun til þess að uppnefna, hvort heldur er menn eða flokka. Hinsvegar hafa foringjar Framsóknarflokksins gengið lengst í því að uppnefna menn og flokka utan þings og innan. Aðalatriðið er það, að enginn flokkur getur kosið nafn á andstæðinga sína. Það leiðir af sjálfu sér, enda mundu nöfnin þá stundum ófögur. Hver flokkur hefir aftur á móti rétt til að velja sitt eigið heiti.