14.03.1930
Efri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (681)

92. mál, útflutningsgjald af síld

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

* Það er erfitt að deila við hv. frsm. meiri hl., af því að hann er okkur hv. þm. Ak, alveg sammála í raun og veru. Hann viðurkendi það ranglæti, sem liggur í þessu útflutningsgjaldi, þó að hann af fjárhagsástæðum þyrði ekki að leggja til að gera lögin réttlátari. Hann sagði, að við hv. þm. Ak. könnuðumst við, að það væri viðurhlutamikið að láta ríkissjóðinn missa þessar tekjur. Ég verð bara að segja, að ég viðurkenni alls ekki, að þetta sé viðurhlutamikið í samanburði við annað. Þó að hann og meiri hl. þingsins hafi samþ. útgjöld fyrir ríkissjóð, þó að samþ. hafi verið með einu frv. 500–600 þús. kr. útgjöld, þá vil ég ekki segja: Ég get ekki borið fram mínar réttlátu till. um að lækka tekjur og hækka gjöld, af því að hinn hluti þm. hefir samþ. ný útgjöld. Ég afsala mér allri ábyrgð á því, sem þeir gera. — Af þessari ástæðu vil ég alls ekki falla frá þessum till. En ég skil aðstöðu þeirra manna, sem búnir eru að hinda ríkissjóð við annað. En það bindur mig ekki.

Málið getur ekki gengið fram á þessu þingi, sagði hv. frsm. meiri hl. Mörg mál, sem eiga að ganga fram á þessu þingi, eru þó skemmra á veg komin, sum ekki komin í n., og kannske ekki einu sinni til l. umr. Þetta frv. gæti vel gengið fram, ef meiri hl. fengist með því.

Það er leiðinlegt, að hæstv. fjmrh. er ekki hér. Þó að mér sé ekki vel kunnug verkaskipting ráðherranna, býst ég varla við, að hæstv. dómsmrh. geti lýst vilja stj. í þessu máli. (Dómsmrh.: Hann er heldur hlynntur síldinni). Jæja, það er gott, ef kirkjan og kirkjumálaráðherra eru henni hlynnt, — og ekki vil ég efast um það. En það væri bezt, ef ráðh., sem þetta heyrir undir, vildi láta til sín heyra. Það segi ég ekki þar fyrir, að ég muni þess fullviss, þó að hæstv. fjmrh. hefði einhver óákveðin orð um að taka málið til athugunar fyrir næsta þing, að því sé bezt borgið með því, heldur er ég viss um, að bezt væri, að það gengi fram á þessu þingi. Þó gæti ég fallizt á einhverja miðlunartill., sem þó gengi í þá átt að lækka útflutningstollinn á síld. (EF: Má ekki vænta svars frá stj.? — Dómsmrh.: Nei).