26.02.1930
Neðri deild: 37. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

Þingvíti

Forseti (BSv):

Síðari úrskurður minn er byggður á 44. gr. þingskapa og felldur að fengnum nýjum upplýsingum. Verður honum ekki haggað. — Þar sem hv. 1. þm. Árn. talar um, að hér sé upp tekin ný regla, um að beita ákvæðum þingskapa um fjarvistir með meiri hörku en áður, þá hygg ég, að þessi hv. og mæti þm. skjóti hér yfir markið. Það er allt annað, þótt einn og einn hv. þm. vanti af og til í deildina, eða stórhópar þeirra séu fjarverandi heilan dag, án þess að boða forföll, svo að fundur falli niður fyrir þær sakir. Hygg ég því, að það mundi trauðla mælast illa fyrir, þótt þessara ákvæða þingskapanna hafi verið minnzt, ef það kemur fyrir aftur, að 7 þdm. fari í hóp af þingi án þess að láta þess getið við forseta. Hitt er annað mál, að náttúruviðburðir og önnur ófyrirséð atvik geta valdið því, að menn komist eigi á fundi, og svo hefir reynzt hér. Er úrskurður minn í dag felldur samkv. því.

Hv. þm. talar um það, að ég hefði getað aflað mér upplýsinga hjá hæstv. landsstj. um forföll þeirra félaga. Þar til vil ég geta þess, að hér í hv. d. var tvisvar lýst eftir einum hinna hæstv. ráðh. á fundi í gær, en hann sást aldrei. Hæstv. forsrh. heyrði úrskurð minn, og lét hann þess getið, að úrskurðurinn væri alveg réttur. Ég skil ekki, hvernig sumir hv. nm. komast að þeirri niðurstöðu, að hér sé um einhvern sérstakan fjandskap að ræða af minni hálfu til hv. fjvn. Ég þykist ekki eiga neitt sökótt við hana; er mér það enginn hugarléttir að amast við þessari hv. n., né heldur, að ég hyggi mínum hugðarmálum hóti borgnara með þeim hætti. Eins ætti það að vera ljóst, að ekki er um neina „pólitíska ofsókn“ að ræða, þar sem þeir menn, er þingvítum sættu í gær, skiptust nokkurnveginn jafnt á alla flokka hlutfallslega.