13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Sigurðsson:

Ég get ekki látið hjá líða að svara hv. frsm. nokkrum orðum. Hann hafði þau ummæli í fyrri ræðu sinni, að ég hefði talað um raforkuþörf landsmanna yfirleitt. Ég gerði það einmitt ekki. Ég hélt mér við hina fyrirhuguðu rafveitu Skagfirðinga og þær áætlanir, sem hafa verið gerðar um hana. Hv. frsm. sagði, að samkv. upplýsingum mínum mundi aflið ekki nægja nema til helmings af því, sem þyrfti. Þetta er ekki rétt. Eftir því sem rafmagnsstjóri hefir tjáð mér, er ætlað miklu meira á mann í þessari rafveitu en notað er annarsstaðar á landinu, þar sem eru samveitur. Hitt hefir mér líka verið tjáð, og ég hygg, að hv. n. hafi grun um það, að sú hestaflatala, sem gefin er upp á smástöðvunum, muni ekki reynast svo há sem oft er gefið upp.

Hv. frsm. talaði mikið um það, að það mundi skapa fordæmi, ef þessi fjárveiting væri samþ. til rafveitu Skagafjarðar. Því er ekki að leyna, að fordæmin eru óspart notuð. Þeim er oft hampað, ef menn hafa ekki önnur rök fram að færa gegn einhverju máli. Hv. frsm. gerði ráð fyrir, að mörg héruð mundu koma á eftir og heimta sama styrk, og vildi sporna við því með því að neita öllum, þar til fullnaðarrannsókn væri lokið. En mér er spurn: Hvernig á rannsókn þessa rafveitumáls að fara fram? Á að rannsaka hvern krók og kima landsins áður en nokkur eyrir er veittur úr ríkissjóði? Af orðum ýmsra þeirra, er berjast á móti þessu máli og tillögum okkar, verður þetta helzt ráðið, en það er hið sama og fresta öllum framkvæmdum í 10–20 ár. Ég lít svo á, að þegar búið er að rannsaka og gera heildaráætlun í hverju héraði fyrir sig, ætti það að nægja, og þá megi byrja í því héraði. — Ég teldi rafveitumálinu í heild bezt borgið með því, að þingið veitti eftirleiðis árlega í fjárlögum ákveðna upphæð í þessu skyni, t. d. 200 þús. kr. á ári; þá mundi raftaugakerfið óðfluga breiðast út um byggðir landsins.

Hv. frsm. kvað það ekki koma til mála að samþ. okkar till., því að það yrði að sjá fyrir nauðsynlegu fé fyrst; mér skildist hann telja þörf á nýjum tollum og sköttum til að standast þetta. Það vill svo vel til, að einmitt þessi hv. þm. hefir nýlega borið fram frv., hér í hv. deild um það að leggja á ríkissjóð 150 þús. kr. árleg útgjöld til framræslu um óákveðinn árafjölda. Það er tvöföld upphæð við það, sem við leggjum til að eyða á ári hverju næstu 3 árin, og þó hefir hann engar ráðstafanir gert til að afla tekna í þessu skyni, og sýnir það bezt, hver alvara fylgir orðum hans og samherja hans. Fyrir slíka upphæð, 150 þús. kr., er hægt að leiða árlega rafmagn yfir allstórt hérað, miðað við það fé, sem þarf til þess að koma á rafveitu fyrir Skagafjörð, en það óx honum ekki í augum, af því fénu átti að verja til annars. Ég hefi þá bent hv. þm. á það, að það er ekki mikið samræmi milli orða hans og gerða hvað þetta snertir.

Þá vil ég víkja örlítið að ábyrgðunum. Þær hafa verið gerðar að umtalsefni, bæði af hv. frsm. fjvn. og hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. sagði að það væri tæpast forsvaranlegt, að ríkissj. tækist þessar ábyrgðir á hendur, sem fyrir liggja, ef héruðin legðu ekkert á sig. Það vildi svo vel til, að ég var þá alveg nýbúinn að lýsa yfir því, að Skagfirðingar hefðu ákveðið að leggja fram þarna um 90 þús. króna, eða sem því svarar. Verður það að teljast — eftir okkar mælikvarða — talsvert álitlegur skildingur.

Um varfærni stj. að ganga í ábyrgðir mætti segja, að batnandi manni er bezt að lifa. Því það hefir verið annað hljóð í strokknum hvað þessar ábyrgðir snertir 2 undanfarin ár. Ég hefi að gamni mínu farið yfir ábyrgðir frá tveimur síðustu þingum, sem samþ. hafa verið fyrir tilmæli eða að vilja núv. stj. 4 þinginu 1928 eru samþ. ábyrgðir fyrir 1.500 þús. kr. og þingið í fyrra mun. hafa samþ. ábyrgðir fyrir 1.145 þús. kr. Á því þingi er ábyrgð vegna rafvirkjana 770 þús. kr. En það skal ég taka fram, að allar þessar ábyrgðir eru til rafveitu í kaupstöðum. En nú, þegar sveitamenn leita stuðnings í þessum efnum, þá er sagt: nú er ekki viðlit að halda lengra. Og ég fyrir mitt leyti gæti virt þetta, ef ég vissi og fyndi, að þessi andúð væri af fullum heilindum. Mér er ljóst, að það getur verið hættulegt að halda viðstöðulaust áfram á þessari braut. En þá geri ég mun á, til hvers fénu er varið, sem ábyrgzt er. En það, sem gefur mér grun um, að ekki séu heilindi bak við þessi ummæli, er það, að hver einasta ábyrgð á þessum tveimur síðustu þingum til bæjarfélaga hefir verið eingöngu — með einni einustu undantekningu — til kjördæma stuðningsmanna hæstv. stj. En nú þegar við stjórnarandstæðingarnir knýjum á þessar dyr, þá segir stj. og stuðningsmenn hennar: Nei, nú viljum við ekki, að ríkissjóður gangi í fleiri ábyrgðir, — og allt er harðlokað. Mér hefir því komið til hugar, að þessi nýja varfærni stafaði af öðru en umhyggju fyrir föðurlandinu.

Ég geri nú ráð fyrir, eftir ýmsum undirtektum, að þessi till. verði felld. En gaman þykir mér að sjá, hvort stj. og stjórnarstuðningsmenn standa eins fast í fylkingu, þegar verður farið að greiða atkv. um sumar ábyrgðir, sem eiga að koma við 3. umr. og bornar eru fram af flokksmönnum þeirra. Við sjáum hvað setur.