26.02.1930
Neðri deild: 37. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

Þingvíti

Pétur Ottesen:

Mér fannst ástæðulítið af hv. þm. Dal. að fara að blanda sér í þetta mál. Hv. þm. talaði um það, að hæstv. forseti hefði farið eftir lögum. Ég hefi aldrei neitað því, en hitt sagði ég, að hann hefði að þessu sinni beitt lögunum öðruvísi en ávallt hefir tíðkazt á vissu tímabili, eða frá árinu 1916 til dagsins í gær. Þetta var hv. þm. Dal. vorkunnarlaust að skilja. — Ég hjó eftir því hjá hæstv. forseta, að hæstv. forsrh. hefði sagt, að þingvítaúrskurðurinn væri réttmætur. Er það ekki rétt hermt? (Forseti BSv: Jú. — JJós: Það heyrðu margir). Það er gott, að þetta er staðfest, því að mér var sagt í gær, að hæstv. ráðh. hefði viljað skriða frá þessum ummælum í viðtali við einn hv. þdm. En nú hefir þessi sami hæstv. ráðh. hlaupizt á brott í dag með eigi færri þm. en voru í ferðalaginu í gær. Sýnist það engu síður geta orðið til þess nú en þá, að deildin verði ekki ályktunarfær. Og fyrst hæstv. forseti fór að beita strangleika sínum í gær, er þess að vænta, að hið sama fái að endurtaka sig í dag.