13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég vil ekki deila um það við hv. 2. þm. Skagf., hversu fullkomin not verði af þessari fyrirhugaðri virkjun, ef hún kæmist á. En hitt vil ég aðeins segja, að þótt það kunni að falla meira rafmagn til hvers heimilis en annarsstaðar þekkist í samvirkjun, þá held ég, að ekki verði hægt að fá svo mikið, sem telja verður nauðsynlegt á meðal sveitaheimili. (JS: Má ég skjóta inn i? Þetta er miklu meira en notað er í sveitum í Noregi). Ég skal ekki segja um það; en ég miða við þá staði, þar sem einstakar rafveitur hafa verið gerðar, þá reynslu, sem fengin er um það, hvað þurfi að vera á stórum heimilum.

Hv. þm. álítur, að Alþingi ætti að verja ákveðinni fúlgu — 200 þús. kr. — á ári í þessu skyni, og það má vel vera, að það væri rétt. En sú upphæð yrði þó ekki nema handa Skagfirðingum einum, þar sem þeir fara fram á rúmlega 200 þús. kr. styrk. En þótt ekki sé nema 200 þús. um að ræða, þá verður hv. þm. að viðurkenna, að eitthvað þarf til þess að standast þau útgjöld og að það er ekki varlegt að bæta þeim á sig án þess að hugsa fyrir nýjum tekjustofni.

Hv. þm. kvað ósamræmi í því, að leggja á móti þessu, en bera fram frv. mitt um styrk til framræslu. Ég hefi nú tæpast búizt við, að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi, heldur hefi ég borið það fram til þess, að þingið geti hugsað málið og velt fyrir sér, hvaða tekjumöguleikar væru fyrir hendi. Auk þess er það, fjárhagslega séð, smámál hjá öllu rafveitubákninu, sem þm. Skagf. er með á prjónunum.

Um ábyrgðarsamþykktir á undanförnum þingum viðurkenni ég, að þær eru miklar. Og ég viðurkenni sömuleiðis, að þær eru töluvert gapalegar. En meðfram vegna þessa eru farin að opnast augu bæði mín og annara fyrir því, að þannig megi ekki ganga ár frá ári viðstöðulaust. Einhversstaðar verður að nema staðar. Því að vitanlega er hægt að tefla lánstrausti landsins í hættu með ábyrgðum eins og lántökum, og það er sannarlega ástæða til að fara nú að fara gætilegar en gert hefir verið.

Ég man satt að segja ekki eftir því, að synjað hafi verið um neina ábyrgðarheimild á síðustu þingum af þeim ástæðum, að þær væru bornar fram af stjórnarandstæðingum eða kæmu úr sveit. Það, sem hv. þm. sagði í þessu sambandi, hygg ég sé sprottið aðeins út úr hans ímyndun, þótt það hafi hitzt svo á, að mörg þessara kjördæma, sem ábyrgð fengu, hafa sent á þing mann, sem studdi stjórnina.

Um heilindi okkar stjórnarfylgismanna í þessu máli skal ég ekki ræða. En ég býst við, að þau séu ekki minni en stjórnarandstæðinga í þessu rafveitumáli og öðrum málum, sem þeir eru að kasta hér fram sem „agitatoriskum“ bombum.