14.04.1930
Neðri deild: 80. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (710)

359. mál, bryggjugerð í Borgarnesi

Magnús Guðmundsson:

Eins og tekið er fram í nál., var ég ekki á fundi n., þegar þetta frv. var afgr. þar, og ég myndi heldur ekki hafa lagt með því, geri ég ráð fyrir, ef ég hefði verið búinn að sjá skeytið, sem hér liggur fyrir frá sýslumanninum í Borgarnesi. Mér er sagt, að skeyti þetta hafi komið á fund n., en það hljóðar þannig:

„Eftir ósk nokkurra sýslunefndarmanna óska ég, að engin breyting verði samþykkt á hafnarlögum Borgarness fyrr en sýslunefndunum hefir gefizt kostur á að láta álit sitt uppi um þær.

Sýslumaður Mýra- og Borgarfjarðarsýslu“. Mér finnst það vera mjög sanngjarnt, að sýslunefndirnar fái að láta uppi álit sitt um þetta, og ég get ekki skilið, að þessu máli liggi svo mikið á, að það geri til, þótt það dragist til næsta árs, enda er ekki líklegt, þar sem sagt er, að þingi verði slitið eftir tvo daga, að þetta mál nái fram að ganga, þar sem hv. Ed. á að öllu leyti eftir að afgreiða það. Ég leyfi mér því að leggja til, að þessu máli verði vísað til stj., því eins og ég tók fram áðan, sýnist mér það vera eðlilegt að taka svo mikið tillit til óska sýslunefndar, að þetta mál verði ekki afgr. í skyndi á einum eða tveimur dögum.