14.04.1930
Neðri deild: 80. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (714)

359. mál, bryggjugerð í Borgarnesi

Pétur Ottesen:

Ég vil taka undir þau tilmæli, sem hv. 1. þm. Skagf. hefir borið hér fram, og þær till., sem hann gerði.

Það hagar svo til bæði í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, að það hefir verið lagt fram fé af báðum þessum sýslufélögum til bryggjugerðar í Borgarnesi, og það er svo um hafnarlög þau, sem samþ. hafa verið hér á Alþingi, að þótt ekki sé gert ráð fyrir meiri atbeina sýslufélaganna almennt en ábyrgð á lánum til þessara mannvirkja, þá er þeim þó fenginn íhlutunarréttur um skipun hafnarnefnda, en þær hafa, svo sem kunnugt er, í hendi sér öll málefni hafnanna. Þetta er viðtekin regla, og mér finnst því eðlilegra, að ekki sé gerð breyt. á lögum um hafnargerð í Borgarnesi án þess að viðkomandi sýslunefndir fengju að fjalla um það, og þætti mér ekki ólíklegt, að fram kæmu óskir frá sýslunefndunum um að hafa íhlutun um skipun hafnarnefndar í Borgarnesi, því að það skiptir vitanlega sýslufélögin mjög miklu, hvernig málefnum hafnarinnar er hagað. Hér getur verið um mikið hagsmunamál fyrir sýslurnar að ræða og ekki nema eðlilegt, að sýslunefndirnar krefjist þess að fá rétt til íhlutunar um þessi mál. Það hefir víst borið mjög bráðan að fyrir sýslumann að ákveða um þetta, og hefir honum víst ekki gefizt færi á að ná í fleiri sýslunefndarmenn. En sýslunefndarfundur verður haldinn í næsta mánuði og verður þetta mál þá sjálfsagt tekið til athugunar.

Ég vona, að hv. d. geti fallizt á þetta sanngirnismál, að fresta að taka ákvörðun um þetta mál samkv. ósk sýslumanns og þeirra sýslunefndarmanna, sem hafa haft tækifæri til að láta í ljós óskir sínar um þetta.