26.02.1930
Neðri deild: 37. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2460 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

Þingvíti

Forseti (BSv):

Það er ekki hægt að breyta úrskurðum um aðra hv. þm. en þá, sem upplýsingar hafa fengizt um, að hafi haft lögmæt forföll. Nú er hv. 2. þm. Rang. fjarstaddur og getur því ekki gert grein fjarveru sinnar í gær. Úrskurðurinn um hann hlýtur því enn að standa, þótt vera megi, að honum verði breytt síðar, að fengnum nýjum upplýsingum. Enda þarf eigi að slá á neina viðkvæma strengi gagnvart þessum hv. þm., þótt hann sé „einn“ eftir, því að þessi hv. þm. er eigi svo smár, að hann játi sig muna þær 14 kr., sem hans víti varðar, og það því síður, sem óvíst er, hversu stranglega verður að gengið um innheimtuna.

Hv. 1. þm. Árn. var að segja það að gamni sínu, að hann byggist við, að ég væri eitthvað hnugginn út af árásunum á mig í þessu máli. En það er síður en svo, að ég taki mér nærri þesskonar smáslettur. Ég er svo mikill mannvinur, að ég ann hv. þdm. vel þeirrar ánægju, sem þeir geta haft af því að narta í mig, en hefi enga ánægju af því að gera neitt það, er þeim kynni að mislíka.

Nú mun ég bera gerðabók síðasta fundar undir atkvæði.