14.04.1930
Neðri deild: 80. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (726)

359. mál, bryggjugerð í Borgarnesi

Magnús Guðmundsson:

Ég hygg, að það muni ekki vera rétt, að sýslumaður viti ekki um það, hvernig þetta frv. hljóðar, því að hann hringdi mig upp í dag og var þá í engum vafa um innihald þess.

Mér finnst það vera gróflega hart að taka fram fyrir hendurnar á sýslunefndunum um þetta, og ég skil ekki, að það geti verið nokkurt kappsmál, sérstaklega þar sem hv. flm. hefir lýst því yfir, að vel geti svo farið, að hafnarnefnd noti ekki þessa heimild. Skil ég þá ekki, hvers vegna þetta má ekki bíða þar til sýslunefndirnar hafa látið uppi álit sitt um það, hvernig upp- og útskipun á þessum stað mundi bezt fyrir komið til þess að verða sem ódýrust. Það eru ekki aðeins bændur héraðanna, sem þarna eiga hlut að máli, heldur líka íbúar þorpsins, og ég veit ekki, hvort þessi vinna fæst ódýrari með því að fela hana hafnarnefnd heldur en öðrum. Ég vil því bíða álits þeirra, er við þetta eiga að búa; það eru menn, sem fjalla þar um sinn eiginn hag, og því rétt að leyfa þeim að segja sitt álit. Ég skil ekki, að það sé neitt kappsmál fyrir hv. þm. Mýr. að keyra málið í gegn án þess að þeir hafi fengið að segja sitt álit.