05.03.1930
Neðri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2462 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

Þingvíti

Gunnar Sigurðsson:

Ég þykist hafa ástæðu til, ekki síður en hinir, að minnast ofurlítið á þingvítin, sem lýst var um daginn.

Ég hefi séð, að ekki hefir verið dregið af mér kaupið þennan dag, svo eftir því er eins og þingvítin séu ekki talin annað en markleysa. En hæstv. forseti hefir verið svo vingjarnlegur að bjóða mér að bera fram afsakanir, eins og hinir, sem fyrir þingvítunum urðu, hafa þegar gert.

Ég hefi ekki aðrar afsakanir en þær, að ég þurfti að skreppa burtu, eins og oft kemur fyrir um þingmenn. Þykist ég þrátt fyrir það ekki yfirleitt hafa rækt þingstörf verr en aðrir. Vil ég sérstaklega taka það fram, að mig hefir t. d. ekki vantað nema á einn nefndarfund þau 3 ár, sem ég hefi verið á þingi. Ég vil einnig benda á, að hafi ég ekki haft gild forföll þennan dag, þá hefi ég ekki heldur haft þau daginn eftir, því ferðin, sem þá var farin, var að því er mig snertir eiginlega ekki annað en skemmtiferð.