14.04.1930
Neðri deild: 80. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (736)

359. mál, bryggjugerð í Borgarnesi

Bjarni Ásgeirsson:

Ég er dauður, en hæstv. forseti gefur mér leyfi til aths., sem verður ekkert svar. Þó að hv. þm. Dal. álíti mig vitran mann, þá er ég ekki svo forvitri, að ég sjái fyrir, hvað kann að verða samþ. á Alþingi eftir þetta þing. Þó að ég ætti þar setu, hefi ég ekki svo mikil ráð á, hverju er fram fylgt. Hér er ekki til neins að ræða um annað en þetta mál, sem fyrir liggur, og ástæður eins og þær eru.

Hv. þm. Borgf. hélt, að ég hefði verið að drótta einhverju óheiðarlegu að sýslumanninum í Borgarnesi. Það er misskilningur. En ég veit, að sýslumaður hefir ekki borið málið undir sýslunefndina, og því aðeins sent þessi skilaboð í nafni sínu og nokkurra annara, sem verða að teljast „privat“-menn. Ef menn þar hefðu álitið þetta háskalegt mál, hefði áreiðanlega verið hægt að ná áþekkri yfirlýsingu sýslunefndarmannanna og þeirri, sem áðan var lesin upp frá bílstjórunum. (PO: Þeir eru allir á einum stað). Það var líka styttri tími síðan það mál kom fram. Gegn þessu máli hafa engin almenn mótmæli komið frá héraðsbúum, enda væru það líka óeðlileg mótmæli, því að þetta er eingöngu gert vegna þeirra hagsmuna.