11.02.1930
Efri deild: 19. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (748)

15. mál, Menntaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Jón Þorláksson):

Efni þessa frv. hafði þessi hv. deild til meðferðar í fyrra í frv. um menntaskóla og gagnfræðaskóla í Reykjavík og á Akureyri. Nú hefir hæstv. stj. tekið upp ákvæðin um Menntaskóla í Reykjavík og borið þau fram í þessu frv. N. taldi enga ástæðu þess að semja langt nál., því að deildinni eru kunn meginatriði frv. eins og það var samþ. hér í fyrra, og afstaða n. er óbreytt frá því þá. Brtt. n. eru því mjög fáar og efnislitlar.

Fyrsta brtt. n. fer fram á að breyta orðalagi 4. gr., sem þó er nálega óbreytt eins og hún var samþ. hér í d. í fyrra. Segir í greininni, að skipta skuli bekkjum Menntaskólans í tvær deildir, máladeild og stærðfræðideild. Hér merkir „bekkur“ sama og ársdeild, og mætti því ef til vill líta svo á, að skipta ætti öllum fjórum ársdeildum skólans í tvær deildir eftir námsgreinum. En þetta er tæplega tilætlunin, enda virðist óþarft að binda hendur kennslumálaráðh. í þessum efnum, heldur láta hann skera úr, hversu mörgum bekkjum skuli skipta. Sennilega er ætlunin að skipta 3 ársdeildunum, enda virðist það sönnu næst.

Önnur brtt. n. er við 5. gr. og leggur til, að í stað orðsins „trúarbragðafræði“ komi trúarbrögð. Er þá greinin færð til sama forms og á þinginu í fyrra. Trúarbragðafræði merkir aðeins frásögn um það, sem felst í hinum ýmsu trúarbrögðum, en n. vill láta kenna trúarbrögð, og á hún þar vitanlega við hin kristnu trúarbrögð, því að önnur trúarbrögð verða auðvitað ekki kennd í ríkisskóla í kristnu landi. Nefndin var nokkurnveginn sammála um að leggja þetta til. Þykist ég svo ekki þurfa að færa frekari rök fyrir þessari brtt., nema andmæli komi fram.

Að lokum leggur n. til, að 19. gr. verði orðuð um. Greinin mælir svo um, að allir kennarar skólans skuli sækja kennarafundi, en stundakennarar hafi ekki atkv.rétt þar. N. vill láta orða greinina þannig, að stundakennarar séu ekki skyldir að mæta á kennarafundum, nema þeir sjálfir óski þess eða skólameistari kveðji þá til sérstaklega. Aðrar efnisbreyt. felast ekki í till. n.

Ég hefi svo ekki meira að segja fyrir hönd n., en ef til vill segi ég eitthvað siðar frá eigin brjósti.