19.03.1930
Neðri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

1. mál, fjárlög 1931

Forseti (BSv):

Svo sem kunnugt er, varð það að samkomulagi við 1. umr. fjárl. að fresta hinum svokölluðu almennu umr. um þau til 3. umr. Hinsvegar er heimilt að ræða mál almennt við 3. umr., og kemur þessi meðferð því ekki í bága við þingsköp. Einnig má skipta umr. um fjárlög í kafla. Nú hefir verið farið fram á það, að skipta þessum umr. í tvo kafla, fyrst um brtt. og síðan um frv. í heild, með sama fyrirkomulagi sem við venjuleg eldhúsverk.

Til þess að girða fyrir allan misskilning er rétt að leita afbrigða frá þingsköpum um það, að svo skuli hagað umr. um fjárlagafrv., að fyrst verði ræddar og undir atkv. bornar brtt. þær, sem fram eru komnar eða fram kunna að koma, en að því loknu fari fram almenn umr. með sama hætti og tíðkazt hefir við frh. 1. umr. fjárlaga, og að því loknu verði svo gengið til atkv. um frv. í heild sinni og það afgr. til efri deildar.