14.02.1930
Efri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (751)

15. mál, Menntaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Jón Þorláksson):

Menntmn. ber fram við þessa umr. tvær brtt. við frv. þetta. Sú fyrri gengur í þá átt, að við þær námsgreinir, sem kunnáttu er krafizt í til inntökuprófs í lærdómsdeild, sé bætt þýzku, en kennslumálaráðh. skuli ákveða, hverjar kröfur skuli gerðar um kunnáttu í því máli. Í fyrra var minnzt á þetta atriði, og kom þá fram, að krafizt er þýzkukunnáttu til inntöku í lærdómsdeild Akureyrarskóla. Hefir þetta atriði borizt í tal við hæstv. kennslumálaráðh. og hefir hann tekið vel í það.

Þá er önnur breyt. sú, að ekki sé lögboðið, að prófum sé lokið í maímánuði, heldur sé það lagt á vald kennslumálaráðh. að færa tímatakmarkið til, ef þörf þykir. Hæstv. kennslumálaráðh. hefir og tjáð sig þessari breyt. samþykkan.

Þá hefi ég ekki meira að segja fyrir n. hönd, en fyrir mitt leyti vil ég segja það, að ég er ekki ánægður með frv. þetta. Við erum vanir því, að breytingar miði í framfaraátt, en sú breyt., að gera skólann að fjögurra ára skóla í stað sex ára, hlýtur að skoðast sem spor aftur á bak. En ég hefi beygt mig fyrir því, að hæstv. stj. telur sig ekki hafa ástæður til að sjá sex ára skóla fyrir sæmilegu húsnæði og kennslukröftum, og tel ég þá betra að ganga inn á fjögurra ára skóla en eitthvert millistig. En af því, sem ógert er í þessum efnum, vil ég leggja sérstaka áherzlu á heimavistirnar. Tel ég það illa farið, að hæstv. stj. sé að gera einhverjar kákráðstafanir í þá átt, sem að engu verulegu gagni koma, en verða aðeins til að tefja fyrir fullnægjandi úrlausn málsins og nauðsynlegum umbótum, sem frv. gerir ráð fyrir.