29.01.1930
Efri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (766)

17. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Það hefði náttúrlega verið ólíkt betra, að breyt. sú, er stjfrv. fer fram á, hefði verið samþ. í fyrra, þegar málið var hér til umr., heldur en að taka þetta upp aftur núna og láta það ganga í gegnum þrjár umr. í hvorri deild. En því var hinsvegar svo farið, þegar þetta mál var til umr. í þinginu í fyrra, að það var borið fram af svo miklu kappi, að ekki var hægt að fá þm. til að hlusta á rökin. En betra er seint en aldrei, og þessi breyt., sem frv. fer fram á, er til bóta, þótt hún nái tæplega nógu langt.

Ég var ekki að öllu leyti sammála hæstv. ráðh., þegar hann minntist á, að meiri vandkvæði væru fyrir sveitirnar að hafa kjördag 1. vetrardag heldur en að vorinu, en fyrir þeirri skoðun minni gerði ég grein við umr. þessa máls í fyrra.

Þetta mál fer líklega til n. og vonandi er, að þeir menn, sem vildu ekki láta kaupstaðina halda kjördegi sínum í fyrra, hafi nú tekið sönsum á þeim mánuðum, sem síðan eru liðnir. Ég vænti þess einnig, að hæstv. stj. og flokkur hennar leggi alla áherzlu á, að þetta mál nái fram að ganga, og bæti með því úr því ranglæti, sem kaupstaðirnir voru beittir með fyrri breytingunni.