29.01.1930
Efri deild: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (767)

17. mál, kosningar til Alþingis

Halldór Steinsson:

Mér skilst, að þetta frv. sé fram komið með það fyrir augum að gera þeim, sem við sjóinn búa, hægara með að neyta kosningarréttar síns. Ef þetta er tilgangurinn, þá er honum hvergi nærri náð, þótt þetta sé spor í áttina. Ef frv. þetta ætti að koma að fullu gagni, ætti það einnig að ná til kauptúnanna úti um landið, því að það er vitanlegt, að þaðan streymir fólk á sumrin til annara staða í atvinnuleit, og getur því ekki notið atkvæðisréttar síns. Ákvæði frv. ættu því bæði að ná til kaupstaðanna og kauptúnanna, og vil ég vona, að sú hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, taki þessi orð mín til greina.