24.02.1930
Efri deild: 33. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (777)

17. mál, kosningar til Alþingis

Jón Þorláksson:

Ég er eiginlega mótfallinn þessu frv.; mér finnst óþarft að hafa kjördagana tvo, eftir allar þær mjög ítarlegu og nákvæmu ráðstafanir, sem löggjöfin er búin að gera til þess að þeir menn geti neytt atkvæðisréttar síns, sem ekki eru staddir á heimili sínu á kjördegi. Ég sé hinsvegar ýmislega annmarka á því að hafa kjördagana tvo, finnst það mjög óheppilegt að hafa hér um bil fjóra mánuði á þeim tímamótum, þegar kjósendurnir eiga að fá vald til að skera úr um það, hvort breyta eigi til um stj. eða hver stefna eigi að ráða í stórmálum á þingi. Þá standa þau mál alveg óútkljáð, þannig, að það er hvorki gamalkosið né nýkosið þing til eftir till. hv. meiri hl., heldur er þingið að nokkru leyti nýkosið og að nokkru leyti gamalkosið. Þetta er verulegur ókostur á till. hv. meiri hl. Það er ennfremur sá ókostur, að það er óhjákvæmilegt, að vitnist um úrslitin í sveitakjördæmunum; getur það haft töluverð áhrif á úrslit kosninga í kaupstöðunum að haustinu. En tilgangurinn með að hafa kjördaginn einn, hefir máske helzt verið sá, að kjósendur væru alveg óháðir öllum áhrifum, sem stafað gætu af fréttum um úrslit kosninga í öðrum kjördæmum. Mér finnst, að það þyrfti mjög sterkar ástæður til að sleppa þessari varúðarráðstöfun til að vernda kjósendurna fyrir áhrifum, sem ekki eiga að ráða neinu um atkvæði þeirra. Aftur finnst mér, að till. hv. minni hl. um að láta kosningar fara fram 1. júlí, og geyma svo atkvæðin fram yfir fyrsta vetrardag, telja þá atkvæðin og láta kosningu gilda frá fyrsta vetrardegi, ekki koma til mála, af því að sveitakjördæmin tapa fjölda manna, sem eiga að hafa kosningarrétt og hafa hann samkv. stjskr., en það eru þeir, sem öðlast kosningarrétt á tímabilinu frá 1. júlí til 1. vetrardags í sveitakjördæmum, þótt með því sé sneitt hjá þeim tveim annmörkum á till. hv. meiri hl., sem ég nefndi, að allverulegu leyti.

Annars skil ég, að það sé fyrir suma menn, og þó sérstaklega fyrir flokka, sem hafa nokkurn byr í kaupstöðum og eru að reyna að vinna sér byr í sveitakjördæmum, allgeðfelld hugsun að geta sent alla sína mestu mælskumenn og foringja upp í sveitirnar 1. júlí og láta þá skaka þar sem þeir geta og þoka svo aftur á hin eiginlegu fiskimið fyrsta vetrardag. Svona myndi það verða eftir till. hv. meiri hl. En ég held, að það sé nóg veður í kringum kosningar hér, þótt ekki fari fjöldi þm. í kaupstöðum að bjóða sig fram tvisvar, fari að mæta í sveitum til að vinna þar áhrif.

Mér finnast svo miklir annmarkar á þessu hjá hv. meiri hl., að ég býst ekki við að geta greitt atkv. með frv. endanlega; þó mun ég við þessa umr. greiða atkv. till. hv. meiri hl. n., af því að mér finnst, að þær öllu heldur taki tali heldur en brtt. hv. minni hl., sem mér finnst að ekki megi eiga sér stað.