19.03.1930
Neðri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. síðari kafla (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal með nokkrum orðum gera grein fyrir þeim fáu brtt., sem fjvn. hefir við þennan kafla fjárl.

Það er þá fyrst brtt. XVII. á þskj. 302, um að hækka styrk til barnaskólahúsa utan kaupstaða úr 30 þús. kr. upp í 40 þús. kr. Er það sama upphæð og er í núverandi fjárl. Eins og kunnugt er, greiðir ríkissjóður nú 1/3 byggingarkostnaðar til heimangönguskóla utan kaupstaða, en helming kostnaðar, ef það eru heimavistarskólar. Síðastl. ár var byggt mikið af þessum skólum, og mun þessi upphæð varla nægja til næsta árs. Og þó að þessi hækkun nái fram að ganga, þá mun vanta um 1/3 þess framlags, sem ríkið á að leggja til þessara bygginga.

Þá er brtt. XXXVI. um að hækka styrk til veðurstofunnar úr 3.000 kr. upp í 4.000 kr. Starfsemin þarf nú meira húspláss. Hún hefir leigt út undanfarið, en getur það nú ekki lengur. Upphaflega sendi veðurstofan ekki þessa beiðni því forstjóri hennar áleit, að veðurstofan mundi flytja í nýtt hús um áramótin, en eftir síðari upplýsingum verður það ekki, og er því nauðsynlegt að samþ. þennan lið.

Þá kemur till. um styrk til verkamannabústaða. Eins og hv. þdm. muna, voru samþ. lög á síðasta þingi um að ríkissjóður skuli leggja til 1 krónu pr. íbúa í kauptúnum og kaupstöðum til að koma upp verkamannabústöðum. Nú er komin tilkynning frá Reykjavík, Akureyri, Eskifirði og Patreksfirði um stofnun byggingarfélaga eins og lögin í fyrra gerðu ráð fyrir. Á Ísafirði hefir líka verið samþ. að stofna slíkan félagsskap. Íbúar á þessum stöðum eru samtals 33 þús., og er fjárveitingin miðuð við það.

Næst er XL. till., um styrk til Dýraverndunarfélagsins. Félagið sótti um meira en við höfum tekið upp í till. okkar, en n. vill veita því 1.000 kr., sem sé einskonar viðurkenning fyrir starfsemi þess. Það hefir m. a. komið upp dýraspítala og kostar þar lækni. En eins og menn vita, hefir engin slík stofnun verið til hér áður.

XLII. brtt. er þess efnis, að veita fé til að gera laxastiga í Lagarfoss. Samskonar beiðni lá fyrir síðasta Alþingi, en henni var ekki sinnt, vegna þess að farið var fram á mun hærra tillag en venja er að borga til slíkra hluta. Samkv. umsögn Pálma Hannessonar og Reinsch gæti verið töluverð laxveiði í Lagarfossi, ef hann væri gerður laxgengur og áin friðuð af sel; selurinn gengur nú alla leið, upp að fossi.

Seinni liður þessarar sömu brtt. er um hækkun á fjárveitingu til vatnsrennslismælinga frá því, sem var í upphaflega frv., þannig að sá liður verði jafnhár og í síðustu fjárl. Þessar vatnsrennslismælingar eru nauðsynlegur liður í undirbúningnum við að rannsaka ár og fossa. Vegamálastjóri hefir lagt til, að þessi upphæð fái að halda sér.

Fyrri liður XLVI. brtt er um það, að fjárveiting til styrktarsjóðs Margrétar Bjarnadóttur verði lækkuð úr 800 kr. niður í 500 kr. Þessi fjárveiting var samþ. við 2. umr., þrátt fyrir mótmæli fjvn., en brtt. fjvn. er byggð á því, að þarna er um önnur hlutföll að ræða en venja er um samskonar styrki, sem nú eru í fjárl. Og n. ætlast til, að þessar 500 krónur verði fastur, árlegur styrkur.

Í 3. lið þessarar sömu brtt, er aðeins um prentvillu að ræða. Fyrir „Kristínar Þórðardóttur“ á að koma: Kristínar Þórarinsdóttur.

Síðasta brtt. n. er á þá leið, að ríkið ábyrgist allt að 40 þús. kr. húsakaupalán fyrir Kvennaskóla Reykjavíkur, gegn þeirri tryggingu, er stj. tekur gilda. Það er öllum vitanlegt, að Kvennaskólinn á ekkert hús. En nú stendur til boða sú bygging, sem skólinn hefir haft á leigu, fyrir 140 þús. kr. Á húsinu hvíla 90 þús. kr. Útborgun er 10 þús. kr. Það var nú sótt um ábyrgðarheimild fyrir 60 þús. kr., en n. fannst það óþarflega hátt, þar sem skólinn, eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, þarf eiginlega ekki á að halda nema 40 þús. kr.

Er ég þá búinn að fara yfir brtt. fjvn. Sjálfur flyt ég nokkrar till. á þskj 302. III. till. á því þskj. er um lækningastyrk til Lúðvígs Guðmundssonar. Lúðvíg er þjóðkunnur dugnaðar- og áhugamaður, bæði um málefni stúdenta, eins og t. d. í Stúdentagarðsmálinu o. fl., og ekki síður um allt, sem að alþýðufræðslu lýtur. Nú er hann skólastjóri á Hvítárbakka í Borgarfirði, og hefir gegnt því starfi af mikilli alúð Fyrir skömmu hefir Lúðvíg fengið mjög óþægilega hálsveiki. Fylgir henni hæsi, svo að Lúðvíg á bágt með að tala lengi, og er það auðvitað mjög bagalegt fyrir skólastjóra. Sérfræðingur í Þýzkalandi hefir skoðað hálsinn og álítur, að Lúðvíg geti batnað, ef hann fær svo sem ½ árs hvíld frá skólastörfum sínum. Nú er Lúðvíg einn af þeim mönnum, sem fórna öllu sínu starfi í þágu alþjóðar, en eins og menn vita, er slíkum mönnum ósýnt um að safna sér sjálfum fé. Er því ekki fyrir þá menn í annað hús að venda um aðstoð svipaða þessari, þegar þá ber upp á sker, en til ríkisins. Og það væri einkennilegur búhnykkur að vilja spara sér 3.000 kr., og eiga þá á hættu, að einn af efnilegustu sonum landsins missi þá möguleika; sem hann annars hefir til þess að gera það mikla gagn, sem allir viðurkenna, að vænta má af Lúðvíg Guðmundssyni. Ég trúi ekki öðru en að hv. þm. sjái sóma sinn og hag landsins í því, að veita honum þennan litla styrk.