24.02.1930
Efri deild: 33. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (785)

17. mál, kosningar til Alþingis

Jón Þorláksson:

Ég vil minna hv. samþm. minn, frsm. minni hl., á, að hann gerði enga tilraun til að svara hinni einu mótbáru, sem ég bar fram gegn till. hans, mótbáru, sem gerir það að verkum, að allsendis ómögulegt er að fylgja till. hans, þótt þær kynnu að hafa aðra kosti. Till. hv. þm. felur það í sér, að svipta atkvæðisrétti alla þá kjósendur í sveitum landsins, sem komast eiga á kjörskrá á tímabilinu frá 1. júlí til 1. vetrardags, hvort sem þeir ná fullum aldri á þeim tíma eða hafa þá öðlazt kosningarrétt í kjördæminu vegna dvalar í því. En þar sem kosningunni er ekki ætlað að gilda fyrr en frá 1. vetrardegi, er ljóst, að hún hefir þetta í för með sér. Ég vil ekki þurfa að eyða fleiri orðum að till., sem felur í sér slíka fjarstæðu.