19.03.1930
Neðri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Auðunn Jónsson:

Ég flyt 3 brtt. á þskj. 302. Engin þeirra heyrir til beinapottinum, sem hæstv. fjmrh. talaði um, heldur eru það till. um endurbætur hjá héraðsbúum mínum, sem þegar hafa dregizt of lengi, en nú verða að komast í framkvæmd. Og þessum endurbótum er þannig varið, að þær auka ekki útgjöld ríkissjóðs nema rétt í bili.

Fyrsta brtt. mín er sú VIII. á þskj. 302, um framlag til símalagningar frá Sandeyri að Stað í Grunnavík. Eins og hv. þm. vita, er þessi lína í fyrstu símalögunum, og sú eina, sem enn er eftir ólögð af þeim línum, sem standa í fyrstu lögunum. Ég sé á till. hv. fjvn., að hún ætlast ekki til, að veitt sé fé til þessarar línu nú. Hinsvegar hljóta hv. þm. að skilja, að þörf þeirra manna, sem búa þarna í strjálbýlinu, er ákaflega brýn, og að þeir þurfa miklu fremur á síma að halda en hinir, sem ekki eru eins afskekktir, bæði til læknavitjana og vegna atvinnurekstrarins. Ég hefi oft talað um það hér, hvað símaleysið veldur miklum erfiðleikum hjá þessu afskekkta og fátæka fólki og vil ekki endurtaka það enn á ný. Það sparast 7–8 þús. kr. á símanum, sem fyrirhugaður er yfir Djúpið, í fjárlögunum 1930, og lægi næst að nota það fé til framhalds símalínu norður til Grunnavíkur. En á undanförnum árum hefir svo mikið verið lagt af símalínum, sem ekki hafa verið í fjárl. og hvorki hafa fengið meðmæli fjvn. né símastjóra, að mjög er óréttmætt að skilja þessa línu eftir nú. Menn hafa vegna símaleysisins orðið fyrir margföldu tjóni á við það, sem síminn kostar. Vona ég, að hv. dm. viðurkenni þetta og samþ. till.

Hv. fjvn. hefir ekki séð sér fært að mæla með þessari till. minni eða taka hana upp sem sína till., en þó vil ég mega vænta þess, að innan n. séu óbundin atkv. um hana.

Hv. þdm. gleyma oft, hvernig ástæður eru fyrir fólki úti um land, sérstaklega á útkjálkunum, og taka miklu meira tillit til þeirra, sem nær þeim standa og þeir þekkja betur til. Venjulegast eru minnstir möguleikar á að koma fram málum þeirra, sem búa á útnesjum, og minnst fyrir þá gert; en ég vona nú samt, að svo fari ekki að þessu sinni.

Þá á ég XIV brtt. á þskj. 302, um styrk til viðgerðar öldubrjótnum í Bolungavík, helmingur kostnaðar, allt að 7.500 kr. Ég hafði vænzt þess, að hv. fjvn. sæi sér fært að taka upp þennan lið og gera það að sinni till., en ég býst við, að þó að hún beri hana ekki fram, þá sjái n. sér fært að veita henni sinn stuðning við atkvgr. A. m. k. vænti ég, að atkv. nm. verði óbundin.

Síðan steinnökkvanum var sökkt niður framan við öldubrjótinn, hefir reynzt mjög erfitt að búa um hann. Það kom fljótt í ljós, að bilið á milli öldubrjótsins og nökkvans gat verið hættulegt fyrir öldubrjótinn og lendinguna, því mikið skolaðist af grjóti gegnum glufuna, sem barst svo inn í vörina. Á síðastl. hausti var miklu fé varið til þess af hreppsfél. að hreinsa þetta grjót úr lendingunni, svo að skip kæmust að. Þegar brimið sogast út og inn um glufuna, þá grefur það botninn undan nökkvanum og brimbrjótnum að framan. — Síðastl. sumar réðist hreppsnefndin í það; eftir fyrirsögn vitamálastjóra, að steypa í glufuna, en sementið gat ekki límt grjótið saman á svo miklu dýpi, og þegar það kom í ljós, að þetta var ónýtt verk, var hnigið að því ráði, eftir till. vitamálastjóra, að keyra grjóti í glufuna og hlaðið ofan á það steyptum steinum, sem eru 10–12 tonn að þyngd. Þetta sýnist vera rétta aðferðin. — Í síðastl. febrúarmán. fékk ég því til leiðar komið, að vitamálastj. sendi Sigurð Thoroddsen verkfræðing vestur í Bolungavík, til þess að líta á alla aðstöðuna þar og segja fyrir um, hvað heppilegast væri að gera til tryggingar öldubrjótnum. Sig. Thor. sendi skýrslu um athuganir sínar 14. þ. m. og gerir þar grein fyrir því, að steinsteypan í glufuna hafi reynzt árangurslaus; en þegar grjóti var hlaðið undir og þar ofan á 10–12 tonna steyptum steinum, þá virðist, að það muni bera góðan árangur og varna því, að botninn grafist undan nökkvanum og brjótnum. Vitamálastjóri segir, að þessi viðgerð sé fullnægjandi til þess að stöðva um mörg ár yfirvofandi skemmdir. Kostnaðurinn við framkvæmd þessarar endurbótar er áætlaður 15 þús. kr., og mælir vitamálastjóri eindregið með því, að Bolvíkingum verði geri kleift að ljúka þessu verki sem fyrst.

Undanfarið hefir það komið fyrir, að viðgerðir á brimbrjótnum í Bolungavík hafa mistekizt, og hafa þau mistök stafað að mestu leyti af því, að forstöðumenn verksins hafa ekki verið nógu kunnugir því, hvað brimið er kraftmikið á þessum stað. — Meðan Bolvíkingar stóðu einir að byggingu brimbrjótsins og lögðu fram til hans af eigin fé 20 þús. kr., þá byrjuðu þeir þar, sem mest reynir á, þar sem brimhrönnin brotnar við landið um hálffallinn sjó. Þessi hluti brjótsins hefir aldrei skemmzt eða þurft aðgerða við. En þegar farið var að leggja til hans af almannafé og framkvæma verkið undir opinberu eftirliti, þá var garðurinn mjókkaður um 2–3 metra, en það telja Bolvíkingar að hafi verið orsök allra þeirra óhappa, sem orðið hafa á framkvæmd verksins.

Það skal fúslega játað, að Alþingi hefir oft hlaupið vel undir bagga með styrk til þessa fyrirtækis, enda hefðu þorpsbúar ekki getað risið undir því, nema svo hefði verið. Vitamálastjóri telur, að brimbrjóturinn muni reynast öruggur a. m. k. í 6–8 ár, ef gert verður við hann á þann hátt, sem ég hefi gert grein fyrir. En auk þess þarf að hlaða grjótbálk norðanvert við brimbrjótinn, eins og ég skýrði frá í fyrra, og hlaða þar ofan á steyptum steinum, svo grjótinu ekki skoli burt. Mundi þetta kosta um 90 þús. kr. En það, sem hér er farið fram á, er einungis liður í því mikla verki, að tryggja brimbrjótinn.

Á þinginu 1927 og 1928 voru veittar til brimbrjótsins 37.500 kr. Af þessari upphæð er ógreitt 3.700 kr.

— Síðastl. sumar var steypt þykkt steinsteypulag ofan á steinnökkvann, til þess að binda hann við endann á gamla brimbrjótnum. Telur Sig. Thoroddsen, að þetta hafi verið vel ráðið og það verk vel unnið, enda gátu haffær skip losað þar í sumar kol, salt og fleiri vörur. — Það er út af fyrir sig mikils um vert, að með þessu mannvirki hefir tekizt að stöðva mannskaða í lendingu í Bolungavík, árunum 1866–1905 fórust yfir 60 manns í lendingu í Bolungavík, en síðan öldubrjóturinn var byggður, hefir aldrei farizt þar maður í lendingunni.

Þó að mörg mistök hafi orðið á byggingu þessa mannvirkis og verkið reynzt dýrara en hefði þurft að vera, þá má þú gleðjast yfir því, að þrátt fyrir allt hefir öldubrjóturinn bjargað mörgum mannslífum. Þess vegna vænti ég þess, að hv. þdm. vilji ekki láta þetta dýra mannvirki eyðileggjast, til þess eins að geta sparað rúmar 3700 kr., heldur verði þessi till. samþ.

Þá kem ég að þriðju brtt. minni, LXV. á þskj. 302, um heimild fyrir stj. til þess að láta ríkissjóð ábyrgjast lán til raforkuveitu fyrir Súðavíkurhrepp, 4/5 hluta kostnaðarins, allt að 60 þús. kr. — Nú má að vísu segja, að þetta mál sé ekki undirbúið sem skyldi. En þó er það svo, að hér liggur frammi kostnaðaráætlun um byggingu og uppsetningu stöðvarinnar og rekstraráætlun. Þessar áætlanir eru gerðar af Guðmundi Einarssyni rafvirkja í Vík og endurskoðaðar af Steingrími Jónssyni rafmagnsstjóra í Rvík. Hefir hann aðeins gert þá aths., að stofnkostnaður stöðvarinnar muni verða 6.000 kr. meiri en Guðm. Einarsson áætlar. Að öðru leyti telur hann fyrirtækið ekki óefnilegt, og þó að tekjurnar séu áætlaðar mjög lágt, á fyrirtækið samt að geta borið sig. Til samanburðar vil ég benda á rafmagnsstöðina í Bíldudal, sem er hliðstæð að flestu. Sú stöð er 60 hestöfl og notendur hennar eru taldir um 250 manns, en árstekjur ca. 15 þús. kr. Þessi stöð í Súðavík er áætluð 67 hestöfl og notendur um 300 manns. Tekjurnar eru í upphafi aðeins áætlaðar 12 þús. kr. á ári; en þegar frá liður, t. d. eftir 3 ár, er gert ráð fyrir, að árlegar tekjur verði ekki minni en 15 þús. kr. Og það verður að teljast varleg áætlun, samanborið við þá reynslu, sem fengin er með Bíldudalsstöðinni.

Í þessari till. minni er ekki farið fram á, að ríkissjóður ábyrgist allan byggingarkostnað stöðvarinnar. Hlutaðeigandi hreppsbúar gera ráð fyrir fjárframlögum innanhrepps, sem nemi ¼ kostnaðarins, annaðhvort með sölu skuldabréfa meðal hreppsbúa eða beinum fjárgreiðslum frá þeim. Í þessu máli er því höfð önnur aðferð en tíðkazt hefir, þegar óskað er ábyrgðar ríkissjóðs á lánum til rafveitufyrirtækja. Venjulega er farið fram á það, að ríkissjóður ábyrgist allan kostnað af byggingu slíkra stöðva. En hér er aðeins um að ræða 4/5 hluta kostnaðarins, og auk þess er boðin fram endurábyrgð sýslunefndar N.-Ísafjarðarsýslu; var það samþ. með öllum atkv. á sýslufundi nú nýlega.

Ég hygg, að það sé að öllu leyti forsvaranlegt og sjálfsagt að samþykkja þessa ábyrgðarheimild; ég er sannfærður um, að þetta fyrirtæki verður hreppsbúum til mikilla nytja.

Í Súðavíkurþorpi eru lakari byggingar heldur en í flestum öðrum þorpum á Vestfjörðum, og mikið verri en í Bolungavík og Hnífsdal, þar sem byggingar mega teljast í bezta lagi. Í Súðavík er talsverður misbrestur á í þessum efnum. En það er trú mín, að fólkið geti komizt af með lélegri húsakynni, ef það hefir nóg rafmagn til ljósa, suðu og jafnvel hitunar. Það mundi því verða þorpsbúum til ómetanlegs hagnaðar á ýmsum sviðum, og beinlínis til fjársparnaðar, ef hægt væri að koma upp þessari rafveitu. Ég vænti þess fastlega, að þar sem um er að ræða svo hóflega beiðni, en fjárframlög hreppsbúa svo mikil í upphafi, þá verði þessi till. mín samþ.