28.01.1930
Efri deild: 7. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (807)

20. mál, kvikmyndir og kvikmyndahús

Jón Þorláksson:

Ég ætla ekkert út í þann hluta af ræðu hæstv. dómsmrh., sem fjallaði um höfuðkirkjur og þeirra sjóð; enda er ekkert um það talað í því frv., sem fyrir liggur, og get ég því frestað að taka afstöðu til þeirrar. till. En ég hjó eftir því, að hæstv. dómsmrh. sagði, að eftirlitið með kvikmyndahúsum hefði verið vanrækt hér að undanförnu. Mér finnst þetta nokkuð harður dómur um þann embættismann, sem skipar þá stöðu, er eftirlitsskyldan hvílir á hér í bænum, en það er lögreglustjórinn. Ef hæstv. ráðh. þykir þessi ádeila réttmæt, þá ætla ég ekki að deila við hann um það, enda hefi ég ekki kynnt mér það sérstaklega, hvernig eftirlitið er rækt.

Mér virðist, að samkv. þessu frv. verði myndaskoðuninni skár fyrir komið en til var ætlazt í frv. því, sem lagt var fyrir þingið í fyrra, en þar var gert ráð fyrir tveimur myndskoðunarmönnum í hverjum kaupstað, þar sem kvikmyndahús eru starfrækt. Þá skoðun, sem fram færi á einum stað, átti að taka gilda á hinum. Þessa myndskoðun áleit ég verri en ekkert.

Ekki verður því neitað, að myndskoðun sú, er frv. gerir ráð fyrir, er ærið dýr, og myndi auka allverulega rekstrarkostnað kvikmyndahúsanna. Venjuleg kvikmynd er ca. 2500 metrar á lengd. Með 8 aura gjaldi af hverjum metra myndarinnar næmu útgjöld þessi kringum 200 kr. á mynd hverja. Nú telst mönnum svo til, að sýndar séu ekki færri en 130 kvikmyndir hér í Reykjavík árlega, og er það há tala að tiltölu. Veldur fámennið sennilega mestu um það, að sama mynd verður ekki sýnd nema skamman tíma í einu. Yrði skoðunarskatturinn því sem næst 26 þús. kr. á ári. Að vísu gæti nokkur hluti þessarar upphæðar færzt yfir á kvikmyndahús úti um land, en tæplega sem nokkru nemi.

Hæstv. ráðh. kvað enga menningarþjóð láta sér nægja skoðun annars ríkis á kvikmyndum, og gæti slíkt því ekki komið til mála hér. Ég er á nokkuð annari skoðun. Ég tel okkur með öllu vansalaust að taka gilda myndaskoðun, þótt fram hafi farið í öðru landi, ef hún að öðru leyti er vel af hendi leyst, eins og ætla má um opinbera myndaskoðun menningarþjóða. Við höfum, fyrir fátæktar sakir og fámennis, ekki aðstöðu til þess að fara í öllu að hætti annara þjóða, enda eru staðhættir hér allt aðrir en erlendis, t. d. í Danmörku. Þar er að vísu skoðunargjaldið líkt því, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, eða kringum 6–7 aura á metra, en kvikmyndahúsin þar eru afarmörg og nota sömu myndirnar hvert eftir annað, svo að skoðunarkostnaðurinn er óverulegur á hvert þeirra. Myndi sá kostnaður láta nærri 3 kr. á hverja mynd, í stað 200 kr. hér, auk þess sem myndir eru dýrari hingað komnar. Munurinn verður geysimikill, og mér finnst hv. þdm. ættu að skoða hug sinn tvisvar, áður en þeir hníga að þessu ráði og leggja þennan skatt á kvikmyndahúsin. Enda get ég ekki betur séð en að þjóðir, sem standa á sama menningar- og siðferðisstigi eins og t. d. Norðurlandaþjóðirnar, gætu vel haft sameiginlega myndskoðun, í stað þess að ota hver sínum tota. Að okkur væri minnkun að því að nota erlenda skoðun, er hin mesta firra; hinsvegar ber ekki að skilja orð mín á þann veg, að ég sé því mótfallinn, að tekin sé upp myndskoðun hér, ef tækilegt væri fyrir kostnaðar sakir, en hitt vil ég leggja höfuðáherzlu á, að ákvæði þau, er að þessu lúta, séu miðuð við okkar hæfi og okkar þarfir.

Ég minnist þess nú, að í samnefndu frv., sem þingið hafði til meðferðar í fyrra, var sú missögn hjá hæstv. dómsmrh., að skattur á kvikmyndahúsum væri 40% í Danmörku, en 10% hér. Þetta er auk þess ekki sambærilegt, því að hér hvíla fleiri skattar á kvikmyndahúsum en skemmtanaskattur. Annars skal ég ekki fara frekar út í það að þessu sinni, gefst væntanlega tækifæri til þess seinna. Aðeins vil ég benda hv. þm. á það, að þótt kvikmyndahúsin í Reykjavík hafi borið sig sæmilega tvö síðustu árin, í góðærinu, og þó reyndar ekki betur en önnur fyrirtæki, sem minna ber á, þá ætti að gjalda mjög varhuga við að álykta, að svo verði og framvegis. Svo virðist, sem breyting sé í aðsigi á þessu sviði. Talmyndir ryðja sér æ meira og meira til rúms í heiminum, og margir eru þeirrar skoðunar, að þær muni bráðlega útrýma hinum eldri myndum. Afleiðingar þess verða óhjákvæmilega þær, að örðugra verður að fá góðar textamyndir, sökum þess að framleiðsla slíkra mynda verður nálega engin. Nú er það að vísu svo, að útbúnaður talmynda hefir tekizt mjög misjafnlega, t. d. hefir hann misheppnazt víðast hvar í Danmörku, og flest kvikmyndahús þar í landi, utan Kaupmannahafnar, hafa tekið upp aftur myndir með texta. En ef það tekst, að útbúa talmyndir svo að í fullu lagi sé, þá mun reynast torvelt að halda uppi sýningum með texta; munu verða dýrari, sökum rýrari framleiðslu, og minni aðsókn á sýningar. Hvort talmyndir á erlendum tungum ná hylli hér, vil ég engu spá um, en fremur þykir mér það tvísýnt, enda virðist t. d. reynsla Dana ekki styðja að því. Útbúnaðurinn er afardýr, en á hinn bóginn eru fæstir, sem veruleg not hafa af ensku máli, en enska yrði einkum á talmyndum, sem hingað flyttust. Um þessa hluti er enn sem komið er hin mesta óvissa, og getur brugðið til beggja vona um framtíðarafkomu slíks atvinnuvegar hjá fámennri þjóð, sem talar sérstaka tungu, ólíka þeim höfuðtungum, sem talmyndir verða einkum á í framtíðinni. Skyldu menn forðast að álykta djarfar en skynsamleg rök standa til.