19.03.1930
Neðri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Jónsson:

Það hefði verið ástæða til þess, áður en ég minnist á einstakar brtt., að ávarpa hæstv. fjmrh. út af því, sem hann sagði áðan í ræðu sinni, að hann vildi skera allar brtt. einstakra þdm. niður við einn kamb. Hann sagði, að það gæti náttúrlega verið gaman fyrir þm. að fá samþykkta ýmsa einstakra manna styrki og lítið þarfar till., en hann væri á móti því öllu saman. En þar sem umr. hér á eftir verður beint til stj., þá gefst tækifæri til að tala við hana. Annars er það dálítið hart, og þó spaugilegt, að heyra hæstv. stj., sem ekki er alltaf svo nákvæm í fjárútlátum til einstakra manna og stofnana, koma hér fram og vilja skera yfir einn kamb allar till., sem bornar eru fram af einstökum þm. Það er svo langt frá því, að þessar till. séu bornar fram af þm. til gamans eða sem skemmtanastyrkir handa einstökum mönnum. Hinsvegar er það rétt, að þm. geri það upp við sjálfa sig, hvað ríkissjóði er fært að greiða samkv. þessum till., en viðurkenna það hreinskilnislega, að þær eru flestar mjög þarfar, og að þeir, sem eiga að njóta þeirra fjárframlaga, sem farið er fram á, vilji leggja geysimikið á sig á móti. Að öðru leyti fer ég ekki lengra út í þetta að sinni.

Ég á hér 4 brtt. við þessa umr., sem ég vildi minnast á. Um tvær þeirra get ég verið fáorður, af því að ég flutti þær við 2. umr. og gerði þá grein fyrir þeim; en þá voru þær báðar felldar með jöfnum atkv. Síðan hefi ég orðið þess var, að ýmsir hv. þdm. töldu upphæðirnar of háar og greiddu því atkv. á móti brtt. við 2. umr. En þær voru utanfararstyrkur til Þórðar Kristleifssonar og styrkur til upplýsingaskrifstofu stúdenta. — Páll Ísólfsson hefir gefið Þórði Kristleifssyni hin beztu meðmæli, og telur hann, að enginn muni vera eins áhugasamur og vel fallinn til söngkennslu í skólum hér á landi eins og Þórður. Einkum vegna þess, hvað hann hafi gott lag á að vekja áhuga nemenda fyrir söngnum og getur látið sönginn hafa uppeldislegt gildi fyrir þá.

Ég vænti því, að þó að hv. þdm. þætti þessi styrkur of hár við 2. umr., þá geti þeir nú verið með því að veita Þórði Kristleifssyni 1.200 kr. utanfararstyrk, svo að hann geti orðið þjóðinni að sem beztu gagni í þessu áhugamáli sínu.

Mér kom það alveg á óvart, þegar hin till. var felld við 2. umr. Ég varð, satt að segja, alveg undrandi, því að ég hélt, að hún hefði alveg einróma fylgi hv. þdm. Að vísu var ég í vafa um, hvort þeir væru nógu margir búnir að gera það upp við sjálfa sig að greiða atkv. um hana, en hélt, að það yrði ekkert atkv. á móti. En nú hefi ég heyrt, að ýmsum hafi þótt upphæðin of há. Nú eru, í fjárl. þessa árs, veittar 1.200 kr. til upplýsingaskrifstofu stúdenta, og hygg ég, að það hefði orðið samþ., en ég fór fram á 1.500 kr.

Síðan hefi ég fengið upplýsingar um, að stúdentaráð háskólans þarf að greiða 600 kr. í húsaleigu á ári fyrir skrifstofuna; áður hafði það frítt húsnæði hjá Mensa Academica. Mér er kunnugt um, að stúdentaráðið á mjög erfitt með að standast þennan kostnað, nema með hækkuðum styrk, og getur ekki komizt af með minna en 1.500 kr. Nú flyt ég brtt. um, að stúdentaráðinu verði veittar 1.200 kr. Þó það sé of lítið, þá er það betra en að upphæðin falli alveg niður.

Einn liðurinn í starfsemi upplýsingaskrifstofunnar er að semja skrá um það, hvar íslenzkir stúdentar stunda nám við erlenda háskóla og hvaða greinir þeir lesa. Ég sé, að hér hefir verið útbýtt skýrslu frá forstöðumanni upplýsingaskrifstofunnar, sem sýnir m. a. hvar þeir stúdentar nema, sem hlotið hafa utanfararstyrk. Þetta er aðeins einn liður af sex, sem stúdentaráðið hefir á sínu starfssviði. Að lokum vil ég geta þess, að stúdentar inna hér af höndum óeigingjarnt starf fyrir mjög lítið kaup, eða svo að segja ekki neitt.

Þá flyt ég XX. brtt. á þskj. 302, um 1.500 kr. utanfararstyrk til Unnar Jónsdóttur, til þess að fullkomna sig í íþróttakennslu. Þessi íþróttakennari hefir starfað hér í bænum um nokkurt skeið og hefir mjög lofsamleg meðmæli frá þeim, sem hún vinnur fyrir. Ég er henni ókunnugur, þó að ég flytji þessa till. fyrir tilmæli þeirra og annara áhugasamra íþróttavina hér í bænum.

Ég skal sérstaklega geta þess, að Unnur Jónsdóttir hefir stundað íþróttanám í 2½ ár í Kaupmannahöfn, í stofnun, sem heitir „Poul Petersens Institut“, hjá tveimur konum, sem þykja mjög vel færar í sinni mennt. Prófvottorð hennar er hér til sýnis, og hefir hún samkv. því fengið dável og ágætiseinkunn fyrir hverja grein, sem hún hefir tekið próf í við þennan skóla, nema eina, en fyrir hana fékk hún einkunnina vel +. Við prófið eru gefnar 16 eink., og samtals fékk hún geysiháa 1. eink. Að vísu má segja, að próf hafi ekki mikið gildi, en þó er það víst, að enginn nær góðu prófi nema sá, sem vinnur vel og hefir góða hæfileika.

Þeir, sem þessi stúlka hefir starfað hjá síðan hún kom heim, leggja mikla áherzlu á, að henni verði veittur þessi styrkur. Hún hefir kennt leikfimi hjá Knattspyrnufélagi Reykjavíkur, og mælir það mjög eindregið með þessari umsókn, og auk þess hefir hún kennt við Kennaraskólann, Kvennaskólann og haft sundkennslu á hendi við Barnaskólann og hefir ákveðin meðmæli frá þessum skólum. Það er áreiðanlegt, að hér er mikið og þarft verkefni fyrir kvenleikfimikennara.

Auðvitað má segja, að hún geti haldið áfram að kenna eins og hún hefir gert. En ég tel það bæði virðingar- og viðurkenningarvert, að hún skuli vilja leggja þessa för á sig, til að afla sér aukinnar menntunar í sinni grein, þar sem augljóst er, að hún verður að leggja meira en lítið fram til ferðarinnar sjálf. Fróðir menn segja, að leikfimikennsla taki ótrúlega miklum breytingum og framförum erlendis frá ári til árs, svo að ef vel ætti að vera, þyrftu leikfimikennarar að sigla á nokkurra ára fresti. Vona ég, að hv. þm. taki þessu máli vel og bið ég hina auðu stóla að skila því til þeirra, sem fjarverandi eru.

Þá hefi ég hér annað erindi að flytja, sem ég vildi gjarnan, að fleiri hlýddu á en þeir, sem nú eru viðstaddir. Er það XLI. brtt. á þskj. 302, sem borin er fram af mér og hv. 3. þm. Reykv. og er um 25 þús. kr. byggingarstyrk til Elliheimilisins í Reykjavík. Þetta kann að þykja há upphæð, en risið fer af henni, þegar litið er á, hvert hún á að fara. Þessar 25 þús. eru eini styrkurinn, sem beðið er um úr ríkissjóði til að byggja hús, sem með lóð kostar 625–650 þús. kr. og verður einhver stærsta stofnun á Íslandi. Saga þessarar stofnunar er líkust æfintýri. Þeir, sem ganga vestur fyrir kirkjugarðinn, munu sjá þessa reisulegu byggingu, sem er 72 metrar á lengd með tveim álmum, sem eru 36 metrar hvor. Húsið er allt úr steini í hólf og gólf, með helluþaki, og stílhrein og fögur bygging, hvar sem á það er lítið. Það mun ólíklegt þykja, að stofnun sem þessi hafi byrjað með tvær hendur tómar, en þó er það svo. Það er engu líkara en hrafnar hafi komið fljúgandi með það, sem hún hefir þurft með. (BÁ: Þeir gera það líka framvegis). Já, það er vonandi, að þeir geri það, en mér finnst alveg óviðeigandi, að ríkið skorist undan öllum stuðningi við slíka stofnun. Ég lít miklu fremur svo á, að með þessari brtt. sé verið að gefa ríkinu kost á að vera með í því að styðja þetta fyrirtæki, en að hér sé verið að biðja um nokkra ölmusu. Auðvitað hafa engir hrafnar komið fljúgandi með það, sem með þurfti, þegar öllu líkingamáli er sleppt, heldur hefir verið unnið að þessu máli með fádæma árvekni og þrautseigju. Elliheimilið Grund byrjaði að starfa í litlu húsi við Kaplaskjólsveg. Hóf það starf sitt 1922 með styrk frá félagi því, er fyrirtækinu kom af stað, og 6.000 kr. styrk úr bæjarsjóði. Komust þar þá fyrir 24 gamalmenni, en miklu fleiri sóttu um vist þar. Þetta fyrirtæki starfaði í 7 ár og fékk 4.000 kr. árlega frá bænum. En einhvernveginn var það svo, að efni þess blessuðust, og var það þó ekki af því, að dýrt væri selt. Eflir 6 ár átti stofnunin 30 þús. kr. í sjóði og 35 þús. í húseign eða 65 þús. kr. samtals. Daglegur kostnaður á mann nam kr. 2.30–2.65, þrátt fyrir kostnað við endurbætur á húsinu og vaxtagreiðslur. En hér var vel á haldið, og allir, sem störfuðu að stjórn fyrirtækisins, gerðu það fyrir ekki neitt.

Þegar athugað er, hvernig húsið hefir komizt upp, sést, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefir lagt mest af mörkum, enda var rétt, að hún gerði það. Hún gaf 6200 ferm. lóð, sem er 50–60 þús. kr. virði. Þá hefir hún lánað Elliheimilinu sjóð, að upphæð uni 100 þús. kr., sem bærinn hafði á sínum tíma safnað til að reisa elliheimili. Ennfremur hefir bærinn veitt stofnuninni 80 þús. kr. bráðabirgðalán, unz hægt væri að taka veðdeildarlán. Þetta lán var veitt með góðum kjörum, en mun nú fallið í gjalddaga. Að vísu þykist ég þess viss, að bærinn framlengi lánið. Þá hefir bærinn tekið ábyrgð á 240 skuldabréfum, er hljóða á 500 kr. hvert og gefin eru út til 11 ára, án þess að skerða 1. veðrétt í húsinu. Bréfin hafa verið seld á 96% og munu öll vera gengin út. Landsbankinn hefir lánað 50 þús. kr. til byggingarinnar. Svo hafa og ávallt streymt inn gjafir, og það gengur undrum næst, að aldrei skuli hafa staðið á kaupgjaldi eða öðru því, er hefir þurft að greiða. Stórar upphæðir hafa fallið í gjalddaga án þess að fyrirsjáanlegt væri, hvernig hægt væri að greiða þær, en ávallt hefir eitthvað orðið til hjálpar. Stofnunin hefir þegar borgað út 412 þús. kr. Nú á stofnunin von á, 30 þús. kr., þar sem áformað er að leigja Vestur-Íslendingum húsið um hátíðina í sumar. Hefir fengizt loforð um 30 þús. kr. fyrir húsið þann tíma, og bankatrygging fyrir þeirri upphæð, en þá verður húsið auðvitað að vera tilbúið. Svo er búizt við, að vélar og innbú í húsið muni kosta 50 þús. kr. Búizt er við, að húsið kosti alls 200 þús. kr. í viðbót við þau rúm 400 þús., er það hefir þegar kostað, áður en það er fullbúið, en þá verður það líka eitthvert stærsta og vandaðasta hús á landinu, með 120 herbergjum og 150 gamalmenni fá þar góða vist og heild í ellinni. Þessi gamalmenni verða að líkindum flest úr Reykjavík, en þó má búast við, að nokkur hluti þeirra verði víðsvegar af landinu eins og hingað til.

Það, sem hér er farið fram á, er ekki nema 1/20–1/30 kostnaðar við bygginguna, og á því sést, að hælið kemst upp hvort sem þessi styrkur er veittur eða ekki. En áhrif þessa styrks koma þó ávallt fram í því, að vistin á hælinu getur orðið ódýrari en ella. Þessi styrkur yrði notaður til að minnka skuldir, sem á hælinu hvíla, og það munar strax miklu, ef hægt er að losna við 25 þús. kr. af dýrasta láninu. Styrkurinn kemur því fram í minnkuðum rekstrarkostnaði.

Ég vil benda á það, að ríkinu ber því ríkari skylda til að láta eitthvað af höndum rakna við hælið, sem það hefir gert þessari stofnun erfitt fyrir með einni ráðstöfun sinni. Ríkið svipti Elliheimilið skemmtanaskattinum. Bærinn var byrjaður að leggja skemmtanaskattinn í sjóð til að koma upp gamalmennahælinu. Í þennan sjóð voru komin um 70 þús. kr., er lögin um þjóðleikhúsið voru sett. Ef ríkið hefði ekki gert þessa ráðstöfun, hefði sjóðurinn nú verið orðinn nægilega stór til að standa straum af byggingunni. Það er því ekki nema sjálfsagt að veita þennan litla styrk sem viðurkenningu og sárabætur.

Ég er hissa á, að hv. fjvn. skyldi ekki leggja til, að styrkur þessi væri veittur, en þótt hún hafi ekki gert það, treysti ég því, að hún leggist ekki á móti brtt. þessari, og fel ég svo þessa sanngjörnu till. meðferð hv. deildar.