28.01.1930
Efri deild: 7. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (810)

20. mál, kvikmyndir og kvikmyndahús

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég held ég geti sparað mér langt mál út af ummælum hv. 3. landsk. um embættisrekstur núv. lögreglustjóra í Reykjavík. Ég held, að Reykjavíkurbær hafi sýnt það í dag, að hann kann að meta hæfileika þessa manns, með því að kjósa hann í bæjarstjórn. Þarf hv. þm. því ekki að tala um mína persónulegu skoðun á verðleikum þess manns, því hann hefir nú hlotið miklu meiri traustsyfirlýsing en ég er megnugur að veita. Hinsvegar ætla ég hvorki að lofa eða lasta eftirlit þeirra tveggja manna, sem hér er um að ræða; hvorugur þeirra hefir haft aðstöðu til þess, og enda ekki verið til þess ætlazt af þeim. Þetta veit hv. þm. ósköp vel, eða a. m. k. ætti að vita. Því er brýn nauðsyn þess, að Alþingi setji lög um þessi efni og feli eftirlitið ákveðnum mönnum. Að fela lögreglustjórum þetta eftirlit er fjarstæða; það mætti þá eins fela þeim að líta eftir sáluhjálparefnum manna, líkt og prestarnir gera; hvorttveggja er jafnfráleitt.

Ég verð að furða mig stórlega á því, að hv. þm. skuli enn vera að reyna að halda erlendri myndskoðun til streitu sem gildandi fyrir okkar land. Hv. þm. ætti að geta skilið það, að myndskoðunin er í sjálfu sér lítið verk, og þyrfti því ekki að skattleggja myndirnar að neinu ráði til þess að hafa upp þann kostnað, ef horfið væri að öðrum skattgrundvelli. En myndskoðun verður að komast á hér á landi sem allra fyrst. Almenn óánægja ríkir í bænum yfir því, að margar myndir, sem hv. þm. segir, að skoðaðar hafi verið í Danmörku og erlendis, eru mjög siðspillandi og hafa háskasamleg áhrif, svo sannanlegt sé. Það er menningar- og siðferðiskrafa þjóðarinnar, að hætt verði að sýna siðspillandi kvikmyndir, ekki síður en að stemma stigu fyrir drykkjuskap á almannafæri. Þessar kröfur þagna ekki, og mega ekki þagna; fyrr en komið er á fullkominni myndskoðun hér á landi.

Þá var það dálítið klaufalegt hjá hv. þm., er hann talaði um, að með frv. þessu væri verið að búa til garða handa vinum stjórnarinnar. (JÞ: Ég sagði hreiður). Eftir því væri hér verið að skapa möguleika fyrir fleiri en þennan atvinnuveg stunda, til þess að lifa á honum. En þá er hv. þm. kominn í mótsögn við sjálfan sig, því áðan sagði hann, að frv. legði svo háan skatt á þessa atvinnugrein, að hún myndi ekki undir rísa.

Ég held, að hv. þm. hafi í ræðu sinni afsalað þessum tilgangi miklu betur heldur en ég eða aðrir hefðu getað gert það. Röksemdir hv. þm. stangast svo greinilega hvor við aðra.