30.01.1930
Efri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (813)

22. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Árið 1919 samþ. Alþingi lög um það, að flytja æðsta dómsvald íslenzkra mála frá Danmörku til Íslands, og hefir hinn íslenzki hæstiréttur síðan verið aðaldómstóll í íslenzkum málum. Um þennan heimflutning hafði staðið löng barátta, sem ég ekki skal fara út í hér. Danir höfðu ekki tekið létt í það mál, þegar Íslendingar hreyfðu því fyrst að flytja æðsta dómsvaldið heim, enda var það fyrst eftir að sambandslögin gengu í gildi að Alþingi gerði þetta.

Í grg. frv. 1919 er rakin lauslega saga málsins, en aðeins frá þeim tíma, er Íslendingar misstu sjálfsforræði sitt og gengu Noregskonungi á hönd, og fluttist þá æðsta dómsvald í landinu til hins erlenda konungs. Síðan leið þar til á 17. öld, að hæstiréttur Dana fékk að lögum æðsta dómsvald yfir íslenzkum málum, og hélzt það líka þar til árið 1919. En í þessari grg., sem var með frv. 1919, hafði höfundi frv. láðzt að geta þess, að þar var langur tími í sögu Íslands, sem hlaupið var yfir, nefnil. allt þjóðveldistímabilið, þegar Ísland hafði sinn eiginn dómstól, og var fullkomlega stofnað til hans eins og æðsti dómstóll átti að vera, en því hafði alveg verið gleymt, að okkar æðsti dómstóll hét fimmtardómur. Það vita allir, að fornmenn völdu þetta nafn af því, að þeir höfðu áður fjóra dómstóla, einn fyrir hvern landsfjórðung, og þegar þeir bættu við fimmta dómstólnum, nefndu þeir hann fimmtardóm. Nú þykir mér það furðu gegna, og má þó kannske afsaka það, þótt svo yrði í hita baráttunnar, sem þá var, þegar við fengum æðsta dómsvaldið inn í landið, að þá skyldi dómstólnum valið heiti, sem bæði var málfræðilega rangt og auk þess aðeins léleg þýðing á nafni þess dómstóls, sem við gjarnan vildum losna við. Ég segi, að það sé málfræðilega rangt, af því að við höfum ekki nema tvö dómstig, og það er ekki hægt að tala um hæstan af tveimur. Nafn réttarins er rétt hugsað á dönsku, þar sem dómstigin eru þrjú. En ég segi það, að mig furðar á því, að á þeirri miklu frelsisöld, sem hér var 1918 og 1919, að menn skyldu ekki hafa meiri metnað í þessu máli en það, að þeir flyttu aðeins yfir á íslenzka tungu ranga þýðingu á nafni danska dómstólsins, sem þeir áttu við að skipta, sérstaklega þar sem það átti ekki við, og mig furðar, satt að segja, meira á því, að á þeim tíma skyldi engin rödd vera uppi á Alþingi hjá leiðtogum þjóðarinnar um það, að hnýta aftur þræðina milli nútímans og lýðveldistímans forna, m. a. með því að taka aftur upp nafnið á okkar gamla dómstóli, taka upp nafn fimmtardómsins.

Ég ætla að leyfa mér um leið og ég vík að þessu atriði, að minnast á frændþjóð okkar, Norðmenn, sem hafa alveg hliðstæða reynslu og við höfum í okkar þjóðfélagi, þeir hafa sína gullöld og hnignunaröld eins og við, og sömuleiðis sína viðreisnaröld. Á hnignunaröld Norðmanna, eins og Íslendinga, setti erlend þjóð og erlend þróun djúp spor að ýmsu leyti í líf hinnar norsku þjóðar, og hafa Norðmenn síðan, á sinni viðreisnaröld, gert margt og mikið til að tengja aftur þræðina við fornöldina. Þeir hafa numið í burt dönsk nöfn, t. d. af höfuðborg sinni. Þeir hafa numið í burt nafn, sem þeim finnst að Danir hafi ranglega sett á Niðarós, og í málbaráttu sinni reyna þeir á hverju ári að fjölga þeim orðum úr norrænu máli, sem þeir taka upp, af því að þeir vilja tengja aftur þræðina, sem binda þá við fornöldina. — Það er enginn vafi á því, að í Noregi eru það þjóðræknu mennirnir, sem gengið hafa lengst í því að tengja saman fortíðina og nútímann. Má vitanlega deila um, hversu langt skuli ganga, en það eru þjóðræknustu mennirnir, sem lengst hafa viljað ganga, og það eru hinsvegar óþjóðræknu mennirnir í Noregi og á Íslandi, sem vilja halda sambandinu við Dani í menningarmálefnum eins og því, sem hér ræðir um. Ég get hugsað mér, að það sé nokkuð svipað ástatt hjá Norðmönnum og okkur, enda verður kannske nokkuð á það reynt, hvort Alþingi, á því merkilega ári, sem yfir stendur, finnst ekki að mörgu leyti heppilegt að sýna það nú á verklegan hátt, að það ætli að muna eftir því, að þjóðin hefir einu sinni verið lýðveldi og verið alfrjáls. Mér detta í hug nokkrar setningar úr ræðu eftir Paasche prófessor, er hann var að lýsa einum þætti í þjóðernismálum Norðmanna. Það var árið 1905, þegar Noregur var að verða sjálfstætt ríki og öllu sambandi hafði verið slitið við Svíþjóð. Þá var það á krýningarhátíðinni, er mikill mannfjöldi hafði safnazt saman á torginu fyrir framan konungshöllina í Osló, að danski prinsinn, sem Norðmenn höfðu valið sér til konungs og hafði tekið sér nafnið Hákon, kom fram á svalirnar. En mannfjöldinn sagði ekki neitt; svo kom litli sonur prinsins, sem hafði verið nefndur Ólafur, fram á svalirnar. Faðir hans tók hann í fang sér og hélt honum upp, og þegar lýðurinn sá Ólaf, tilvonandi konung sinn, þá byrjuðu endalaus fagnaðaróp, og það var af því að fólkið fann, að nútíðin var þá að tengjast við fornöldina, þegar norskar hetjur, Ólafarnir, gerðu garðinn frægan. Það getur vel verið, að einstöku íslenzkir afturhaldsmenn brosi að þessu, þeir menn, sem aðeins vilja skreyta sig með fallegum nöfnum, en ég er ekki viss um, að þjóðin muni meta það til lengdar, sem felst í slíku brosi.

Ég segi það, að meðferð málsins á þingi 1919 sýnir glögglega, svo að ekki verður um deilt, að það var hrapað mjög að þeirri vinnu, sem lögð var í frv. um þennan aðaldómstól landsins. Það er játað af þeim ráðherra, sem bar málið fram, Jóni heitnum Magnússyni, að hann hafi fengið Einar prófessor Arnórsson til þess að undirbúa málið, sem fær svo þann undirbúning, að hann fjallar einn um það fyrir þing og fylgir því í nefndum beggja deilda. Um málið urðu tiltölulega litlar umr., það voru aðeins þeir Sigurður Sigurðsson, 1. þm. Árn., og Gísli Sveinsson, þm. V.-Sk., sem hreyfðu lítillega andmælum og vildu fresta því. Sérstaklega benti Gísli Sveinsson á erfiðleikana á því að hafa ávallt mikinn fjölda fræðilega menntaðra manna, bæði til að fylla hæstarétt og lagaskólann, en það var ekki sinnt mótmælum, sem fram komu. Málið var m. a. borið undir landsyfirréttinn, sem þá var lagður niður, og landsyfirréttur gerði till. um málið, aðallega eina, sem þingið sá sér þó ekki fært að taka til greina, því að stj. og höfundur frv. héldu fast við það, að málfærslan skyldi aðallega vera munnleg, en þess óskuðu ekki þáverandi dómarar í landsyfirréttinum, en þingið hélt þó sína leið í því efni. Gæti það vel orðið Alþingi að fordæmi, ef núverandi hæstiréttur skyldi spyrna á móti sjálfsögðum endurbótum, eins og landsyfirrétturinn gerði 1919.

Það, sem einkennir frv. það, er samþ. var árið 1919, er það, að það er ekki sjáanlegt, að Íslendingar hafi vitað, að það væri nein réttarþróun til önnur en sú, sem annaðhvort hefði gerzt í landsyfirréttinum eða hjá Dönum. Íslenzki hæstiréttur er dálítið stækkaður landsyfirréttur með því að lána úr hæstarétti Dana nokkur atriði, og þá einkum þau, sem úrelt þykja þar í landi. Þá fengum við inn í hæstarétt okkar form, sem voru orðin meira eða minna úrelt, sem búið var að breyta í öðrum löndum, og sem ekkert var um talað af þm. árið 1919. Á ég þar við hina lokuðu og leyndu atkvgr., sem var flutt til okkar frá Danmörku. Þessi sparsemi, ef ég á að kalla það svo, þegar við vorum að verða sjálfstæðir, að líta þá ekkert annað en til sambandslandsins, er máske hugsun, sem var eðlileg þá, en nú, síðan árið 1915, hefir íslenzka þjóðin teygt úr sér og veit betur en áður, hvað hún vill. Og eitt hefir tekið geysilegum breyt. síðan þá, þ. e. að nú þora Íslendingar að standa í beinu sambandi við allar menningarþjóðir, í stað þess að gamla kynslóðin var mótuð á þann hátt, hvaða nöfn sem hún kann að hafa valið sér í sjálfstæðisbaráttunni, að hún átti mjög bágt með að hugsa sér, að hægt væri að læra nokkuð utan Danmerkur. Þetta lítillæti kom fram í því, hvernig aðaldómstóllinn var gerður úr garði, en af því leiddi aftur, að ekki liðu nema fá ár þangað til komu fram till. frá ýmsum þm. um breyt. á réttinum. Má þar m. a. nefna till. Sigurðar Sigurðssonar um að fresta heimflutningi dómsins, og meðal þeirra manna, sem greiddu atkv. með till., var síra Sigurður Stefánsson í Vigur. Og það líða svo ekki nema fá ár, þar til önnur till. kom fram frá Sigurði í Vigur, um að minnka réttinn, og síðar kom till. í sömu átt, á þinginu 1923, frá einum framsóknarþm. Enn kom sú krafa fram árið eftir, m. a. frá þáverandi forsrh., Jóni heitnum Magnússyni, sem vann þá að því með nokkrum af okkur framsóknarmönnum að breyta réttinum þannig að gera hann fámennari, svo að ekki væru nema þrír dómendur, og að rétturinn kysi sér sjálfur sinn forseta, í stað þess að hann hafði áður verið skipaður. Þessi breyt. gekk í gegn á þinginu 1924, og hefir síðan verið búið að því. En þó er ekki hægt að segja annað en að stöðugt hafi komið fram raddir um nýjar breyt. Málafærslumannafélagið, og máske lögfræðingar yfirleitt, hafa hallazt að því, að dómurinn þyrfti að vera fjölmennari, og þær kröfur orðið háværari eftir því sem árin hafa liðið. En þar hefir jafnan verið tvennu til að svara, fyrst, að rétturinn yrði dýrari með því, og að það væri töluvert erfitt að hafa á hverjum tíma 9 sérstaklega vel menntaða lögfræðinga, sem vildu sinna kennslu við háskólann og vera dómarar í hæstarétti og ritari þar.

Þessi átök, sem orðið hafa í þjóðlífinu um form hæstaréttar, hafa svo ennfremur stuðlað að vaxandi tilhneigingu til að líta svo á, að það hafi verið of haldlítil undirstaða, sem byggt hafi verið á árið 1919, og menn hafa litið svo á, að ef ætti að fara að breyta réttinum á annað borð, þá yrði að taka allt til greina, bæði reynslu Íslendinga og annara menningarþjóða.

Þetta mál þurfti því að taka til rækilegrar yfirvegunar á grundvelli vaxandi kjarks og þjóðarþroska. Það þurfti að taka forna og nýja innlenda reynslu til greina og samræma hana löggjöf og reynslu hinna helztu menningarþjóða. Að þessu hefir nú verið nokkuð unnið síðustu tvö árin. Það hefir verið gripið inn í umbætur á réttarfarsmálum á vissum sviðum. Hér í Reykjavík hafa lögreglumálin og tollgæzlan verið aðskilin og dómarastarfið aðgreint betur frá lögreglumálunum en áður var. Þessi breyt. hefir nú þegar gefizt prýðisvel. Og Reykjavíkurbær og landið allt hefir tekið fegins hendi móti þessari breyt., sem m. a. sést á því, að nú fyrst hefir þótt fært að fjölga lögregluliðinu um nálega helming, þegar góð stj. var fengin á þau mál. Einnig get ég nefnt annað dæmi, er að ríkissjóði veit: Eftir að nýi lögreglustjórinn var tekinn við, komu inn á fáum dögum 20–25 þús. kr. fyrir gömul óinnheimt verzlunarleyfisgjöld, sem ekki höfðu náðzt inn meðan annríkið við tollmálin lá á sama manni. Þessi breyt. hefir því gefizt ágætlega. En hún var í því fólgin, að laga þessi verkefni eftir beztu innlendri reynslu og erlendum fyrirmyndum.

Vegna breytinganna, sem núverandi stj. hefir gengizt fyrir og framkvæmt, hefir Reykjavík fengið stórum endurbætta tollgæzlu, löggæzlu og dómsframkvæmd. Í stað hins magnaðasta sleifarlags, sem gat átt við hjá útpíndri hjálendu, er nú á allar þessar greinar tollgæzlu, löggæzlu og dómstarfs kominn sá myndarsvipur, sem er samboðinn frjálsri þjóð. Og hvers vegna að hika hér á umbótabrautinni?

Í fangelsismálunum hefir líka verið gengið inn á nýja braut, sem einnig hefir gefizt vel. — Þegar núv. stj. tók við, þá var ástandið þannig, að dæmdir fangar urðu að bíða svo árum skipti eftir því, að hægt væri að láta þá taka út hegninguna, vegna þrengsla í hinu eina fangelsi landsins, enda féllu framkvæmdir á hegningu víst býsna oft niður. Og þetta eina fangelsi var svo vanrækt, svo sóðalegt og óheilnæmt, að læknir fangelsisins varð hvað eftir annað að skipa svo fyrir, að fangar væru teknir þaðan, eða þeim sleppt, vegna þess að hann taldi, sem rétt var, að þjóðfélagið hefði ekki leyfi til þess að gera þessa veslings menn að heilsulausum aumingjum, eða beint að stytta þeim aldur í fangelsinu. Nú hefir svo verið úr þessu bætt, að ekki er lengur hætta með líf eða limi fanganna. Hálfbyggðum spítala á Eyrarbakka var breytt svo, að þangað mætti láta allmarga fanga. Þetta hefir verið gert eftir þeirri reynslu, sem bezt var hér á landi, þegar vinnufangelsið var starfrækt hér á 18. öld, og eftir beztu nútíðarfyrirmyndum erlendum. Þetta, ásamt endurbót á gamla fangelsinu hér, hefir komið hegningarmálunum úr alveg óviðunandi ástandi, sem aðeins var samboðið hálfmenntaðri þjóð, og í það horf að vera í röð þess bezta, sem þekkist í Norðurálfunni.

Blöð andstæðinga Framsóknarflokksins hafa byrjað mikinn hávaða gegn þessu frv. Flestum þeirra hefir gengið til fáfræði, ef ekki annað verra. Sennilega hafa fáir af þeim, sem mest hafa fleiprað móti endurbót á aðaldómstóli landsins, gætt þess, að núverandi stj. er búin að sýna í verki, að hún er jafnfær um að kippa réttarfarsmálunum í lag eins og Íhaldsflokkurinn var ófær til að stýra slíkum málum meðan hann hafði til þess aðstöðu.

Þær breyt., sem fyrir liggja í þessu frv., eru byggðar á sömu meginstefnu og þær breyt., sem ég var að minnast á, sem sé að sameina beztu íslenzkar fvrirmyndir þeirri skipun á þessum málum, sem bezt þekkist hjá öndvegisþjóðum heimsins, í stað þess að núverandi lög um æðstu dómaskipun eru eingöngu bundin við næstu reynslu hér og í Danmörku.

Kem ég þá að frv. sjálfu, og hefi ég nú þegar gert grein fyrir nafni þess, sem er einmitt byggt á þeirri hugsun, að okkur beri eins og þeirri þjóð, sem er að vinna og treysta sjálfstæði sitt, að hnýta þá strengi við lýðveldistímann, sem brostið hafa á niðurlægingartímum þjóðarinnar. Þetta gerir nafn það, sem frv. þetta velur æðsta dómstól þjóðarinnar, enda þótt fyrirkomulag dómsins verði vegna breyttra staðhátta nokkuð annað en í fornöld, alveg eins og Alþingi 19. og 20. aldarinnar er að ýmsu leyti breytt frá Alþingi þjóðveldistímans, en heldur þó sama nafni og er arftaki hinnar fornu stofnunar. Það Alþingi átti við þá tíma, eins og núverandi Alþingi á við okkar tíma. — Ég tel okkur mega vera stolta af þessu nafni á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Og okkur hefir aldrei dottið í hug að fella það nafn niður, né þann ljóma, sem af því leggur og sem tengir okkur við lýðveldistímann.

Ég kem þá að efnisbreytingum frv. frá því, sem nú er. — Hin fyrsta er þá sú, að gera æðsta dómstólinn fjölmennari og þar með sterkari, án þess að það þurfi að valda miklum kostnaði og án þess að binda störf of margra beztu lögfræðinganna við dóminn og háskólann. Sú leið er því valin, að fimmtardóminn skipi þrír fastir dómendur, en að þeir svo geti bætt við sig tveimur af lagaprófessorum háskólans, þegar dæma skal í vandasömum málum. Við þetta vinnst þrennt: 1) aukið réttaröryggi, 2) ódýrt fyrirkomulag, 3) betri nýting þeirra krafta, sem þjóðin á á að skipa. Í þessu frv. er því reynt að sameina hinar gagnstæðu kröfur, sem mest hefir borið á og mest hafa stangazt: öryggiskröfuna og sparnaðarkröfuna. Mörg þeirra mála, sem til hæstaréttar koma, eru ekki margbrotin né umfangsmikil. Svo er t. d. um flest ölvunarmál, bifreiðamál o. fl. Í flestum tilfellum mundu því þrír dómarar nægja. En svo koma alltaf við og við stærri mál fyrir dóminn; þá kemur viðbótin til greina.

Þá kem ég að einu atriði frv., sem gert hefir verið nú þegar að umtalsefni í sumum blöðum, og jafnvel verið talið stjórnarskrárbrot. Í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að fimmtardómarar leggi niður embætti sín, þegar þeir eru 60 ára að aldri, að undanteknum þó núverandi dómurum, sem mega samkv. frv. sitja þar til þeir eru 65 ára. Ég skal ekki fara langt út í það atriði að sinni. Má vera, að ástæða verði til að gera það nánar síðar. Ég vil þá fyrst geta þess, að frá mínu sjónarmiði er þetta ekki svo stórt atriði, hvort sett eru 60 eða 65 ár. Erlendis er þetta nokkuð mismunandi um starfsmenn landanna í vandasömum stöðum. En hjá hernaðarþjóðum eru þó sjóliðsforingjar látnir fara frá um eða rétt eftir 60 ára aldur. Til þess vandasama starfs, að fara með herskip nútímans, þykir ekki vogandi að hafa eldri menn en 60 ára. Hernaðarþjóðirnar segja, að ekki megi treysta því, að menn, sem eru eldri en sextugir, geti unnið af fullum krafti. — Sama hugsun liggur á bak við þetta frv. Ég vil taka það fram, að einum þeirra, er vann að þessu frv. og sem er góður lagamaður, þótti þetta takmark of lágt. Annar, ágætur laga- og fræðimaður, hefir talið þetta takmark hæfilegt. En eins og ég tók fram áður, þá er þetta ekki verulegt atriði. Verður sú nefnd, er fær mál þetta til meðferðar, og hv. Alþingi að meta, hvort þetta þykir heppileg og sjálfsögð breyting gagnvart mönnum, sem hér eftir fá í fyrsta sinn skipun í aðaldómstól landsins.

Þá er síðasti liður 8. gr., sem máske getur orkað tvímælis. Í núgildandi lögum um hæstarétt er það ófrávíkjanleg regla, að dómendur skuli hafa hlotið 1. einkunn við lögfræðipróf. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að frá þessu megi víkja, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi og dómurinn mælir með. Er hér gert ráð fyrir því, að um aðra verðleika sé að ræða en hátt próf. Þetta getur því verið heppilegt ákvæði. T. d. má geta þess, að sumir menn, sem komizt hafa í háar stöður í okkar þjóðfélagi, hefðu vegna ákvæðanna um 1. einkunn ekki verið gjaldgengir í dóminn. Svo var um Hannes Hafstein, Svein Björnsson og Sigurð Eggerz, svo dæmi séu nefnd. Nútímaviðhorf til einkunnargjafa er líka orðið nokkuð annað en áður var. Það er minna gert úr prófunum og dúxagáfunum en áður var. Þeir menn, sem bezt reynast í lífinu, eru einatt þeir, sem hafa skapandi gáfu, en ekki þeir, sem hafa aðallega móttökuhæfileika.

Það er vitaskuld, að við 1. umr. mun ég eigi ræða um annað en meginstefnu frv. Kem ég þá næst að launakjörum dómaranna samkv. frv. Er gert ráð fyrir því, að hinir föstu dómarar hafi að launum 12 þús. kr. auk dýrtíðaruppbótar. Ég trúi varla öðru en Alþingi finnist hér stillt í hóf, ef annars á að breyta dómnum í nútímahorf. Ég held, að óviturlegt sé að borga hæstaréttardómurum jafnlítið og nú er gert. Ég hefi í öðru máli í Nd. nú nýlega vikið að því, að ómögulegt er að fá vel hæfan verzlunarmann fyrir svo lítið. Ef til þess er ætlazt, að góðir menn fáist í þessar stöður, þá verður að launa þeim sómasamlega, en þó svo, að í hóf sé stillt. Og hér er mjög í hóf stillt, ef miðað er t. d. við launakjör flestra bankastjóra, sem eru talsvert hærri. Í aths. við frv. þetta er líka tekið fram eitt atriði, sem á skylt við launakjörin. Það gæti jafnvel hugsazt, að rétt hefði verið að ákvæði stæði um það í frv. sjálfu, þótt því hafi verið sleppt að sinni. Það er um utanferðir dómara. Ég held fyrir mitt leyti, að það væri alveg nauðsynlegt, að dómararnir gætu farið utan, helzt 3. hvert ár hver, til þess að kynnast straumum helztu menningarþjóðanna og mynda kynningarsambönd við þá dómara erlendis, er fremstir þykja á hverjum tíma. Þetta tel ég nauðsynlegt. Það er erfitt að sitja í vandasömu embætti hér á landi án þess að standa í lífrænu sambandi við menningarþjóðir þær, sem næst búa og eru Íslendingum skyldastar. Ég býst við því, að ástæðan til þess, hve lítið hefir verið gert að utanferðum íslenzkra embættismanna í vandasömum stöðum, sé sú; að launin hafa verið of lág og lítið um sérstaka styrki í því skyni. Þó má og vera, að deyfð hafi nokkru um það valdið. Þetta tel ég vera eitt af þeim atriðum, sem sýna það, að frv. þetta er byggt á öðrum grundvelli en lögin voru frá 1919. Þau lög voru gerð líkast því, sem allar rætur þjóðlífs okkar lægju í Danmörku.

Í kaflanum um málflutningsmennina hygg ég, að það atriði sé til bóta, að þeim er gert að skyldu að mynda með sér félagsskap, þar sem gætt sé hins stranga „mórals“, sem menningarþjóðir heimta, að einkenni þá stétt. Þessi nýmæli eru þó ekki sett inn af neinu vantrausti á málflm. hér, heldur af því, að þetta hefir reynzt vel hjá öðrum þjóðum. Þar hefir þetta aukið ábyrgðartilfinningu stéttarinnar gagnvart einstaklingnum. Ég hygg, að einnig hér hafi fundizt. einstaklingar, sem borið hafa þetta virðulega nafn, en sem þó hafa eigi verið nógu gætnir um fjárreiður sínar eða annað. Þessir liðir eru þrautreyndir í öðrum menningarlöndum, og enginn vafi er á, að þeir munu líka verða til verulegs gagns hér á landi.

Ég kem þá að síðustu ákvæðum frv., er ég vildi minnast á að þessu sinni. Er þar að mínu áliti og margra annara um að ræða merkasta nýmæli frv. Það er ákvæðið um það, að dómsatkvæði og rökstuðningur þeirra skuli vera opinber. Eins og unnið var að lögunum 1919, var eðlilegt, að atkvgr. væri höfð leynileg. Svo var það í Danmörku, og Jón Magnússon og hans menn sóttu yfirleitt ekki fyrirmyndir sínar út fyrir það land. En nú er þetta orðið úrelt og reynslan sýnir einmitt, að eins og hagar til hér á Íslandi, að dómstóll hlýtur jafnan að vera fámennur, er þetta mjög óheppilegt ákvæði.

Þegar Norðmenn fyrir nokkrum árum breyttu þessu hjá sér, þá var af þingsins hálfu beðið umsagnar hæstaréttar um þetta atriði. Dómararnir voru þá á því að hafa leynilega atkvgr. En norska þingið fór ekki eftir því, og nú er svo komið í Noregi, að enginn hæstaréttardómari mundi aftur vilja taka upp leynilega atkvgr. Svo góða raun telja þeir, að opinber atkvgr. hafi gefið. En hver munur er nú á þessu tvennu? Hann er sá, að við leynilega atkvgr. er að vísu hægt að fá bókað ágreiningsatkv., en slíkt verður þó í raun og veru nokkurskonar uppreisn gagnvart meiri hl. dómendanna, og er því sjaldan gert. Það getur því farið svo, að minni hl. dómsins, sem hefir sínar vissu tilfinningar gagnvart réttlæti úrskurðar, verði að bera fulla ábyrgð með hinum dómendunum, þótt hann komi þar hvergi nálægt. Þetta er ekki gott og gæti orðið til þess, að rétturinn losnaði frá þróuninni í landinu. Það er hægt að gera ráð fyrir þeim möguleika, að réttarmeðvitund almennings færi eftir öðrum hugsunarbrautum en dómararnir falla inn i, ef þeir þyrftu aðeins að fella dóma sína í ábyrgðarleysi hópsins. Væri slíkt hið mesta mein, ef fyrir kæmi. Alveg eins og Alþingi er opið og Alþingistíðindin prentuð, svo að hver kjósandi getur fylgzt með því, sem þar gerist, og alþm. þannig verður ábyrgur orða sinna og atkv. og verður að standa kjósendum sínum og þjóðinni allri reikningsskap — eins eiga dómstólarnir að vera opnir og dómararnir að skýra í heyranda hljóði frá dómsatkv. sínu. Þar á enginn feluleikur að koma til greina.

Hin opinbera atkvgr. dómara er réttarumbót, sem hinn síðaði heimur er nú sem óðast að taka upp. Og því skyldum við ekki einnig, Íslendingar, fremur kjósa að taka upp betri aðferðina en að halda þeirri lakari? Minnumst okkar einkennilegu dóma að fornu, þegar hver dómandi frammi fyrir öllum almenningi skýrði frá dómi sínum hátt og snjallt, svo að engum duldist, hvort hann misbeitti valdi sínu eða ekki.

Það er ríkari þörf á því hér á Íslandi en í mörgum öðrum löndum, að dómarar lýsi opinberlega yfir dómsatkv. sínu. Ekki af því, að okkar íslenzku dómarar séu viðsjárverðari og meiri gallagripir en dómarar í öðrum löndum; fyrir því er ekki ráð gerandi. Við eigum í ýmsum greinum andlegs starfs, og þá væntanlega líka í lögfræði, því láni að fagna, þó að smáir séum, að eiga menn, sem standa jafnfætis að gáfum og þekkingu þeim mönnum, sem framarlega standa í stærri löndunum. En lífið er öðruvísi hjá stórþjóð en smáþjóð, þar sem hver þekkir annan og varla er hægt að snúa sér við án þess að öll þjóðin viti það. Áhrifamöguleikar kunningsskaparins eru meiri og þungbærari í litlu landi en stóru. Það er erfiðara að vera stjórnmálamaður á Íslandi en í Englandi. Í litla landinu er barizt í návígi. Í stóra landinu í fjarvígi.

Alþingi kom fyrr saman að þessu sinni en venjulegt hefir verið, og því vannst ekki tími til að undirbúa þetta frv. að öllu leyti eins og skyldi. Þess voru engin tök, tímans vegna, að draga til fulls saman yfirlit yfir erlenda reynslu í þessum efnum og láta það fylgja frv. Eins vantar enn umsögn hæstaréttar um frv. Frv. var sent réttinum til umsagnar, strax og búið var að prenta það, en svarið er ekki komið ennþá. En jafnskjótt og það kemur, verður það fengið í hendur þeirri n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar. Það er jafneðlilegt og sjálfsagt að leita nú álits hæstaréttar á þessu frv. og leitað var til landsyfirréttarins um álit hans 1919, og í Noregi til norska hæstaréttarins viðvíkjandi því, hvort atkvgr. dómaranna þar skyldi vera opinber eða ekki. Það er sjálfsagður og eðlilegur hlutur í svo vandasömu máli sem þessu, að reynt sé að styðjast jöfnum höndum við erlenda sem innlenda réttarreynslu, enda er þetta frv. sniðið eftir henni, á sinn hátt eins og byggt var á þróun landsyfirréttarins 1919. Ég vildi láta hv. deild vita, að von væri á umsögn hæstaréttar um frv., og ég tel víst, að hún gefi leiðbeiningar um ýmsar bætur á frv., þó að ef til vill kunni þingið og réttinn að greina á um einstök atriði nú eins og 1919, eða hæstarétt Norðmanna og stórþingið, og er þá auðvitað eðlilegt, að löggjafarsamkoman ráði þar, sem svo stendur á, enda bæði innlend og erlend reynsla um það, eins og áður er fram tekið, að þá fer betur. Má í því efni benda á skoðanamun hér um skriflega og munnlega málfærslu og í Noregi um leynilega eða opinbera atkvæðagreiðslu.

Það heyrist oft, að á þessu sögumerka þingi, sem við nú erum að heyja, þurfi að samþ. eitthvert mikið og merkilegt mál. Getur og verið, að hver og einn þm. eigi mál, sem honum finnist nógu mikið til að vera aðalmál þessa þings. Ég segi ekki, að þetta frv. fjalli um mesta málið, sem fyrir þessu þingi liggur, og ég þykist ekki kasta steinum að öðrum frv., þó að ég segi það, að þetta frv., sem miðar að því að bæta réttarfarið í landinu eftir því, sem bezt er í innlendri sem erlendri reynslu, muni verða með merkilegustu málum þessa þings, ef því verður alúð og sómi sýndur. Og mér finnst það vel viðeigandi, að við myndum eftir því nú 1930, að eins og við áttum Alþingi að fornu, sem var endurreist, áttum við þá einnig yfirdómstól í landinu, sem hét fimmtardómur, — og ég er sannfærður um það, að okkur verður það styrkur að halda líka í þessu efni tengslunum við forntíðina.

Að síðustu leyfi ég mér að leggja til, að þessu frv. verði, samkv. gamalli venju, vísað til hv. allshn., að umr. lokinni.