30.01.1930
Efri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (816)

22. mál, fimmtardómur

Jón Þorláksson:

Það er ákaflega ánægjulegt fyrir andstæðinga hæstv. dómsmrh. að sjá það og heyra, að þeir kvillar, sem nú verða til þess að skapa honum aldurtila í embættinu, hafa ekki læknazt mikið við það hlé, sem orðið hefir á þingstörfum hæstv. ráðh. síðan í fyrra.

Ég ætla nú lítið að fara út í ræðulokin, en byrja með að athuga nokkuð af því, sem hæstv. ráðh. sagði, og sem ofurlítið kom málinu við; ég býst við að fara lítið út í hitt, sem ekki kom málinu við.

Hæstv. ráðh. gerði sig andlega digran yfir því, að ég talaði ekki skynsamlega. en það er nú svo, að þegar tveir eru bornir saman, þá er álitamál, hvort rétt er að orði komizt, ef sagt er, að sá hærri sé hæstur. En ég býzt ekki við, að hæstv. ráðh. geti með rökum hrakið nokkuð af því, sem ég sagði, að þegar bornir eru saman einn, sem upp úr stendur, annarsvegar og margir jafnháir hinsvegar, þá er sá, sem upp úr stendur, hæstur, og þótt hæstv. ráðh. skilji þetta ekki á íslenzku, þá skilur hann það þó á ensku, þar sem hann segir, að rétturinn heiti The supreme Court, því ef hann ætti að heita hærri réttur á enskunni, þá væri ekki supreme rétta orðið, heldur superior. — Ég vil alls ekki staðhæfa, að þetta sé af því, að hæstv. ráðh. sé svo illa að sér í íslenzku, en hann er þó líklega ekki verr að sér í henni en ensku, og þó lægi ákaflega nærri að álíta það, eftir allt það, sem hæstv. ráðh. hefir sagt um mína litlu þekkingu á ýmsum sviðum. Nei, það, sem gerir þetta, er það, að hæstv. ráðh. er búinn að bíta þetta atriði í sig, og þótt það sé rétt, að dómstigin séu ekki nema tvö, þá eru þó dómstólarnir fleiri. Nei, geðbilun hæstv. ráðh. leyfir honum ekki að kannast við sína villu, því að þó hann hafi ekki lagt fram sönnun í sínu eigin frv. fyrir því, þá er hæstiréttur náttúrlega æðstur af öllum dómstólum landsins.

Þá staðhæfði hæstv. ráðh. það, að ég væri mótfallinn fimmtardómsnafninu. Ég tók það skýrt fram, að ég gæti ekki fallizt á röksemdir hæstv. ráðh. fyrir því að taka upp nafnið, en mér stæði nokkuð á sama, hvaða nafn væri valið. Þetta sýnir þó ekki annað en það, að auk margs, sem hæstv. ráðh. er farinn að missa, er hann líka farinn að missa hæfileikann til þess að hafa rétt eftir það, sem sagt er í áheyrn hans.

Þá gerðist hæstv. ráðh. til að mótmæla því, að við hefðum ekki glatað okkar þjóðlegu menningu. Hæstv. ráðh. sagði þessi orð, og það er þá orðið auðvelt að fá hæstv. ráðh. til að segja vitleysur hér á þinginu, ef ekki þarf annað til en að ég nefni þá staðreynd, að við höfum varðveitt okkar þjóðlegu menningu; jafnvel það þolir hæstv. ráðh. ekki að heyra frá mínum vörum, og rökin eru þau, að hér hafi verið færri skáld og listamenn en líklegt væri að hefði verið, ef okkar forna menning hefði jafnan staðið með sínum fyrri blóma. Hefir hæstv. ráðh. þá aldrei heyrt það, að þegar viðreisnin kom aftur, þá sýndi það sig, að þótt erlend yfirvöld, sem hér voru, hefðu ekki látið sér sérstaklega annt um okkar fornu menningu, þá hafði hún varðveitzt hjá alþýðu þessa lands? Þar fannst hún óbrjáluð með bókmenntafjársjóðum fornaldarinnar. Ég er alveg hreint hissa á hæstv. ráðh., að hann skuli gerast til að mótmæla öðru eins og þessu og að það skuli vera svo óstjórnleg löngun hjá honum til að breyta úr sér skammaryrðum til mín, að hann skuli nota það, að ég benti á varðveizlu okkar fornu menningar, skuli nota það til að segja, að að ég komi fram sem fávísasti sleggjudómari á landinu. Ég get ekki annað en glaðzt yfir því, að hæstv. ráðh. skuli ekki finna annað til að breyta að mér skammaryrðum fyrir en það, að ég benti á þá staðreynd, að við höfum varðveitt okkar fornu, þjóðlegu menningu.

Þá fór hæstv. ráðh. að tala um það, að hæstiréttur nyti ekki þess trausts, sem skyldi. Ég hafði talið fram tvö dæmi þess, að hæstiréttur hefði orðið fyrir árásum. Annað dæmið var hæstv. ráðh. sjálfur, hitt var ónafngreint af minni hálfu, en ég gat þess, að dómari, sem hefði orðið fyrir því að fá áminningu frá réttinum, hefði á meðan mesti hitinn var í honum á eftir skrifað grein, sem hafði inni að halda ámæli um réttinn. Hæstv. ráðh. gat þess til, að þetta væri hv. 2. þm. Árn. og sagði, að þessi maður hefði síðar fengið traustsyfirlýsingu hjá héraðsbúum sínum. En svo gerði hæstv. ráðh. tilraun til að bæta við einu dæmi, sagði, að það hefði einhverntíma staðið í einhverju málaflutningsmanns innleggi fyrir dómi í Hafnarfirði, að ef þetta mál færi ekki svo og svo, sem hann til tók, þá væri ekkert réttlæti til í landinu. Ég sé nú ekki, að í þessu lægi nein árás á hæstarétt, og það jafnvel þótt hæstiréttur hafi síðan dæmt öðruvísi í málinu en maðurinn vildi vera láta; en ef ég man ekki skakkt, þá held ég, að þessum málafærslumanni hafi einmitt orðið að trú sinni, hann hafi unnið málið fyrir þeim rétti, sem hann var að tala við í þessu málsskjali. En þetta er náttúrlega engin árás á hæstarétt, og þótt svo hljóti að vera, að mönnum verði nokkuð sárt í fyrstu, sem hafa orðið undir í málum fyrir hæstarétti, þá er það ekki annað en mannlegur breyskleiki, og það er allt annað en að hæstiréttur njóti ekki trausts meðal manna, því að það mun fara svo um þessa menn yfirleitt, að þeir munu ekki vilja halda því fram, að hæstiréttur hafi dæmt rangt, jafnvel þótt þeim hafi sýnzt annað en réttinum í sínu eigin máli. Ég held því fast við það, að sá hæstiréttur, sem hefir verið síðan 1919, nýtur þess fyllsta trausts hjá þjóðinni.

Þá missagðist hæstv. ráðh. um það, hvað ég hefði sagt út af ákvæðunum um aukadómara. Ráðh. hafði það eftir mér, að með þeim ákvæðum væri verið að gera réttinn háðan umboðsvaldinu. Það sagði ég ekki um þau ákvæði. Ég sagði, að ákvæðin um tilkvaðningu aukadómara væru varhugaverð að því leyti, að hætt væri við, að rétturinn yrði fyrir tortryggni út af því að eiga sjálfur að kveða á um það, hvenær aukadómarar kæmu til. Það getur oft verið svo um menn, sem eiga mál fyrir réttinum, að þeim standi ekki á sama, hve margir dæma, og sérstaklega, að þeim finnist málið vera mikilsvert, þótt öðrum finnist það ekki, og jafnvel hæstaréttardómurum sýnist það ekki, og að þeir geta þess vegna jafnvel lagt þykkju á dómara réttarins fyrir það, að þeir hafa ekki viljað kalla til aukadómarana. Þetta sýnir það, að engin vinna hefir verið lögð í það, hvernig sú flokkun mála ætti að vera, því að það er vafalaust, ef það atriði væri athugað, þá mætti sjálfsagt tiltaka í lögunum þá málaflokka, sem fimm ættu að dæma um.

Þá fór hæstv. ráðh. nokkrum orðum um ágæti frv. síns almennt, og nefndi sérstaklega það, að eftir frv. ættu að koma dómarar, sem góðir borgarar treystu. Þetta er ákaflega einkennandi fyrir hæstv. ráðh., þegar menn bera það saman við öll hans skrif um landa sína; það skín út úr flestu, sem hann hefir skrifað, að hann telur þá menn góða, sem vilja styðja hann sjálfan til valda, hina, sem ekki vilja það, hefir hann nefnt allra handa uppnefnum og ónöfnum, sem enginn myndi gera nema sá, sem ber kala til þeirra, kallar þá rusl og Grímsbýlýð o. fl. En dómarar í hæstarétti eiga að vera svo skipaðir, að góðir menn í landinu geti borið fullt traust til þeirra, að dómi þess valdhafa, sem metur það eitt til góðs, að menn styðji hann sjálfan í valdasessi.

Þá nefndi hæstv. ráðh. næst það dómarapróf, sem hann sagði, að hefði verið látið falla niður í lögunum frá 1919, en það er ekki rétt; það er í 6. gr. hæstaréttarlaganna, og hljóðar 4. liður þeirrar greinar svo, að hæstaréttardómari á að sýna, að hann sé fullgildur með því að hafa fyrstur kveðið upp dómsatkvæði í fjórum málum, og sé minnst eitt af þeim einkamál. Þetta kom ekki til greina um fyrstu dómarana, af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki hægt að framkvæma það fyrirfram; það á við þegar einn dómari bætist í hópinn og hinir eiga að kveða á um það, hvort hann sé hæfur, enda var sérstök ástæða til að víkja frá þessu ákvæði þegar hæstiréttur var settur í stað landsyfirréttar, af því að þeir dómarar voru þegar orðnir reyndir. Alveg á sama hátt væri gefið að undanþiggja þessu ákvæði þá dómara, sem flyttust úr hæstarétti í fimmtardóminn. Það þarf ekki að játa þá sýna hæfileika sína til að sitja í dómi, því að þeir hafa sýnt það áður með því að skipa hæstarétt; en hitt stendur fast, að sú öryggisregla, sem er sett um það, þegar nýir menn bætast í dóminn, er burt felld úr frv. stj., og það þýðir ekkert að gera lítið úr henni, því að það skilja allir, að það er af því, að sá maður, sem nú skipar dómsmálaráðherrasætið, vill auka vald þeirrar stöðu, hvort sem það er hans vegna sjálfs eða eftirmanna hans, og meira að segja vill hann nú ná þessari litlu ögn af valdi hæstaréttar undir dómsmrh.

Þá fór hæstv. ráðh. dálítið að tala um stjórnarskrárbrot og hvernig dómendum bæri að dæma; skrifaði ég eftir honum þau orð, að dómstólum bæri að dæma eftir réttarmeðvitund þjóðarinnar. Hæstv. dómsmrh. hefir unnið eið að stjórnarskrá landsins, en þó getur hann ekki haldið ræðu án þess að brjóta stjskr. í orði. Upphaf 57. gr. stjskr. hljóðar svo: „Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum“. Og hvernig getur svo hæstv. ráðh., sem unnið hefir eið að stjskr., ætlazt til, að dómendur dæmi eftir réttarmeðvitund þjóðarinnar, sem allir vita, að á máli ráðh. þýðir réttarmeðvitund valdhafanna? Nei, Alþingi á að haga löggjöf sinni þannig, að hún sé á hverjum tíma eftir réttarmeðvitund þjóðarinnar, en dómendurnir verða að dæma eftir lögunum, segir stjskr., og það verður að standa fast; a. m. k. er það svo, að sá ráðh., sem ekki vill láta dómarana gera þetta, hann á ekki að gefa sig í það að vinna eið að stjskr. landsins, heldur á hann að hliðra sér hjá því.

Um framkvæmd dómsatkvæðisins skal ég litlu bæta við það, sem ég sagði, af því að hæstv. ráðh. mishermdi dálítið um það, hvernig þetta er framkvæmt í Noregi.

Þá vék hæstv. ráðh. að þeirri spurningu minni, sem ég beindi til hans, hvort hann liti svo á, að þeir dómarar, sem verða í hæstarétti, þegar þessi breyt. kemst á, ættu að sjálfsögðu að taka sæti í fimmtardóminum. Og þótt hæstv. ráðh. viki sér hjá að svara þeirri spurningu, þá voru þau ummæli, sem hann hafði í því sambandi, nægilega skýr. Hæstv. ráðh. gerði það úr spurningu minni, að ég væri að bera fyrir brjósti, hvaða menn fengju þau embætti, en það, að hann segir svo, sýnir, að hann lítur svo á, að þar verði að velja um menn. En ég gerði þetta aðeins til þess að vita, hvort það væri ætlun hæstv. ráðh. að brjóta stjskr. á núverandi hæstaréttardómurum, og láta þá eiga það undir náð veitingarvaldsins, hvort það vill hafa þá áfram, og vil ég skilja það þannig, að hæstv. ráðh. er ráðinn í að fremja sömuleiðis þetta stjórnarskrárbrot, ef hann hefir nægilegt þingfylgi til þess.

Næst lýsti hæstv. ráðh. því, að hæstaréttardómari færi ávallt frá með fullum launum samkv. núgildandi lögum og stjskr., og að þetta yrði eins eftir að þessi löggjöf hans væri komin í kring, ef það á fyrir henni að liggja. Þetta er alveg misskilningur og lýsir furðu mikilli vanþekkingu á þeirri stjórnargrein, sem hann hefir með höndum; það er sem sé einungis í því tilfelli, að dómara sé veitt lausn frá embætti eftir að hann er orðinn 65 ára án þess að hann hafi sjálfur beiðzt lausnar. Beiðist hann lausnar áður eða eftir að hann er orðinn 65 ára, án þess að stj. hafi þótt ástæða til að eiga frumkvæði að því, fer hann frá með þeim eftirlaunum, sem á hverjum tíma gilda. Það mætti varla ætlast til minna af dómsmrh. en að hann vissi þetta. Það er þess vegna óhjákvæmilegt að setja í löggjöfina ákvæði um eftirlaun dómara, sem fara frá af annari ástæðu heldur en þeirri, sem 57. gr. stjskr. talar um, ef menn vilja láta þau vera að einhverju leyti frábrugðin því, sem hin venjulegu eftirlaunalög mæla fyrir.

Þá hafði hæstv. ráðh. algerlega rangt eftir mér það, sem ég sagði um vinnugetu dómaranna í hæstarétti, er þeir væru orðnir 60 ára gamlir. Hæstv. ráðh. hélt því fram, að ég hefði sagt, að þeir myndu fara á vonarvöl, vegna þess að þeir væru orðnir óhæfir til allrar vinnu. Það, sem ég sagði, var einmitt nokkurnveginn þvert á móti. Ég hélt því fram, að sextugur maður, sem hefði átt við venjuleg launakjör að búa, væri ekki nógu efnaður til þess að mega hætta að vinna fyrir sér og fjölskyldu sinni. En hinsvegar orðinn of gamall til þess að fara að leggja út í og stunda sjálfstæðan atvinnurekstur, t. d. venjulega lögfræðingavinnu. Hann getur verið góður starfsmaður enn fyrir því. Þeir yrðu því venjulega að leita fyrir sér um atvinnu hjá öðrum. Nú er það jafnan svo, að ríkið er langstærsti atvinnuveitandinn á því sviði. Þegar því dómurunum væri gert að skyldu að fara frá dómarastarfinu, er þeir væru 60 ára, þá væri óneitanlega freisting fyrir þá, að hafa komið sér svo við stj., að þeir ættu fyrir hennar tilstilli von um vinnu að dómarastarfi enduðu. Eins gæti og vonin um einhverja aðra atvinnu freistað þeirra í dómarasessi. Þeir væru því verr settir til að dæma algerlega hlutlausa dóma heldur en menn, sem á engan hátt væru háðir öðrum fjárhagslega eða atvinnuvonum. Hæstv. ráðh. lofaði að endurtaka þessa rangfærslu sína nokkrum sinnum. Honum er líka vel trúandi til þess, ef að vanda lætur.

Þá talaði hæstv. ráðh. um stjórnarskrárbrot, svona almennt. — Hann vildi t. d. halda því fram, að ég hefði framið stjórnarskrárbrot, er ég flutti í frv. till. um það, að bankastjórar tiltekins banka mættu ekki sitja á Alþingi. Ég veit nú ekki til, að neinn hafi haldið því fram í alvöru, að slíkt hafi verið stjórnarskrárbrot. Þar var ekki um neitt brot að ræða gagnvart embættismönnum ríkisins, því að allir vita það, að bankastjórar eru ekki embættismenn.

Þá vildi hæstv. ráðh. afsaka það, að ekki er gert ráð fyrir því í þessu frv., að núverandi dómarar hæstaréttar haldi áfram starfi sínu, með því, að ekki hefði heldur verið ráð fyrir því gert í lögunum frá 1919, að dómararnir í landsyfirrétti tækju við sætum í hæstarétti. En hér er ekki um sambærilegan samanburð að ræða. Þá var í raun og veru lagt niður eitt dómstig og annað stofnað. En hinsvegar kom víst aldrei til um það atriði, hvort hægt hefði verið að svipta dómara landsyfirréttarins starfi, því þeir voru víst gerðir að dómurum í hæstarétti. En hér er alls ekki um neina breyt. á dómaskipun að ræða. Hér er aðeins gert ráð fyrir að breyta nafni æðsta dómstólsins, ásamt nokkrum öðrum smábreyt., sem alveg eins hefði mátt gera, þótt nafninu væri ekki breytt. Og frv. sjálft sannar bezt, að svo er, þar sem nafninu er haldið óbreyttu á öðrum tungumálum. Frv. þetta getur því alls ekki samrýmzt ákvæðum 57. gr. stjskr. um nýja dómaskipun. Sú gr. getur ekki gilt um þetta.

Í niðurlagi ræðu sinnar kom nú hæstv. ráðh. með þessar venjulegu rokur sínar, sem ávallt heyrast, þegar hæstv. dómsmrh. sleppir sér. Fyrir okkur andstæðinga hæstv. ráðh. er vitanlega ekkert annað að gera við þeim rokum en að brosa. Og ég sé enga ástæðu til þess að víkja nánar að því nú en endranær, enda voru það eins og vant er tómar missagnir. Þó skal ég henda eitt atriði úr niðurlaginu, svo hæstv. dómsmrh. geti ekki síðar vitnað til þess, að því hafi verið ómótmælt af minni hálfu. Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði tekið lán hjá brunabótafélagi í Danmörku, sem hús Reykjavíkurbæjar hefðu verið vátryggð hjá. En þetta er ekki rétt. Tilefnið til þessarar missagnar mun vera það, að fyrir rúmu ári kom til álita að skipta um vátryggingarfélag fyrir brunatryggingar hér í Reykjavík. Lá þá fyrir tilboð frá þýzku félagi. Ég átti þá kost á að láta álit mitt í ljós um þetta mál á fundi fasteignaeigenda. Var álit mitt á þá leið, að ekki mætti teljast hættulaust að tryggja hjá þýzku félagi, meðan hernaðarskaðabæturnar væru ekki til lykta leiddar. En þessi skoðun mín var á engan hátt tengd við það lán, er ég á sínum tíma fékk hjá vátryggingarfélagi, sem alls ekki hefir neinar brunatryggingar með höndum. Þetta er því alls ekki neitt ábyggilegra en hver önnur þau orð, er fram ganga af munni hæstv. dómsmrh.