31.01.1930
Efri deild: 10. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (819)

22. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 3. landsk. hélt hér ræðu síðastur í gær, en þar sem fundi var slitið þá á eftir, gafst mér ekki tækifæri til að svara ræðu hans, og þar sem margt er komið fram, sem þarf skýringar, vil ég gera það nú.

Mér virðist, sem hv. þm. muni ganga það illa að sanna, að mörg séu dómstigin hér á landi, þótt héraðsdómar séu allmargir og stauparéttir í tíð íhaldsins o. s. frv. Undirdómar eru hliðstæðir, en um önnur dómstig er ekki að ræða, nema ef hv. þm. vill telja með sáttanefndir, sem hafa örlítinn anga af dómsvaldi, þ. e. a. s. mega gera út um mál, þar sem fram er sett 50 kr. krafa eða þar undir. Ég vil því halda því fram, að nafnið hæstiréttur sé ekki málfræðilega rétt, þar sem dómstigin eru aðeins tvö, og verð að álíta, að þessi fjarstæða hv. þm. orsakist af skorti á málfræðikunnáttu og almennri menntun yfirleitt.

Þá hefir hv. þm. ekki svarað, hvers vegna við eigum að apa eftir dönsku nafni á hliðstæðum dómstóli, enda ekki að furða, að hann vilji sem minnst um það ræða.

Það er vitanlegt, að þegar hæstaréttarlögin voru sett, var sjálfstæðisandinn ekki meiri en það hjá ráðandi mönnum þjóðarinnar, að þeir tóku upp þetta danska heiti sem stimpil danskra yfirráða hér á landi. Það þarf heldur engan að furða á, þótt hv. 3. landsk. sé dansklundaður, þegar menn minnast þess, að þegar baráttan um fánann stóð sem hæst, þá lýsti hann yfir því, að hér væri ólíft, ef danski fáninn blakti ekki yfir húsunum, og á Þingvöllum 1907 var sendur maður frá honum og hans flokki til að kúga ungmennafélögin til að draga niður íslenzka fánann. Þessi Danasleikjubragur hv. þm. er því eðlileg afleiðing af uppeldi hans og æskuvana.

Þá hneykslaðist hv. 3. landsk. á útlendu nafni þessa dómstóls, sem fylgir með í frv., en við því er það að segja, að sá síður var fyrst tekinn upp í Landsbankalögunum, og þar sem enska er útbreiddasta mál heimsins, var ekki nema eðlilegt, að hún yrði valin til að gefa útlendingum hugmynd um, hvaða stofnanir þetta væru. Enska heitið segir, að þetta sé aðaldómstóll landsins, og vitanlega er hann það.

Meðan við höfum aðeins tvö dómstig, er ekki hægt að kalla hið hærra það hæsta, en vitanlega er það æðsti rétturinn, enda er það það heiti, sem aðrar þjóðir skilja. Það hafa ýmsir fett fingur út í, að dómstigin skuli ekki vera fleiri hér á landi, en ástæðan til þess er vitanlega sú, hvað þjóðin er fámenn.

Ég get verið stuttorður um þann kafla í ræðu hv. 3. landsk., er hann talaði um, að hér hefði aldrei verið um neina afturför að ræða, og heldur því fram, að á 14., 15., 16., 17. og 18. öld hafi kraftar þjóðarinnar notið sín til fulls, þrátt fyrir erlenda kúgun. Þetta er vitanlega rangt hjá honum. Það dæmi, sem hv. þm. tók, að tungan hefði varðveitzt á vörum alþýðunnar, er mjög svo óheppilegt hjá honum, því að alþýðuna vilja hann og hans nótar gera réttlausa, þrátt fyrir að hún bjargaði málinu þegar embættis- og afturhaldsmenn vildu „dependera af Dönum“. Hv. þm. játaði það sjálfur, að það hefðu verið embættismennirnir í landinu, sem töluðu dönsku og vildu gera allt danskt hér á landi. Nú á 20. öldinni höfum við ennþá þessar eftirlegukindur til að tefja fyrir viðreisn þjóðarinnar og breiða út óbeit á öllu því, sem þjóðlegt er. Það kom fram í fánamálinu, í allri baráttu fyrir frelsi landsins og nú síðast í fimmtardómsmálinu.

Þá vildi hv. þm. reyna að ásaka mig fyrir illa framkomu í garð hæstaréttar, en reyndi um leið að verja orð Lárusar Jóhannessonar, en nú skal ég skýra það mál nokkru nánar og sýna fram á, hvað hann leyfir sér að bjóða hæstarétti. — Lárus Jóhannesson var fenginn til að verja mál togarans Jupiters fyrir undirrétti í Hafnarfirði, og lætur þá svo um mælt, að ef dómurinn gangi ekki að sinni skoðun í málinu, þá sé ekkert réttlæti lengur til á Íslandi. Þessum orðum sínum gat hann hvorki beint til mín eða hv. 3. landsk., heldur undirréttarins í Hafnarfirði eða hæstaréttar, því að þeir einir aðilar áttu að dæma í málinu og aðrir ekki. Þessi ummæli gátu því átt við þessa dómstóla báða. Nú fer svo, að dómur gengur lögfræðingnum í vil fyrir undirrétti, en aftur tapar hann málinu fyrir hæstarétti. Þannig hefir hann þá slegið því fram, að ef hæstiréttur gerði það, sem hann gerði, að sakfella Jupiter, sé ekkert réttlæti til í landinu. Þessi orð eru þyngsta ásökunin, sem hæstiréttur hefir orðið fyrir. Og þessi maður, sem gaf hæstarétti þennan laglega vitnisburð, er einn af aðaleigendum Morgunblaðsins og mikið uppáhald hv. 3. landsk. Ef þm. vill ekki láta dæma hart um vini sína í hæstarétti, þá á hann að tala um það mál við Morgunblaðið og Lárus Jóhannesson.

Þessi ágæti íhaldslögfræðingur hefir ekki, eins og ég, gagnrýnt einn dóm og það með rökum, heldur tekur hann munninn fullan og segir, að ekkert réttlæti sé til í landinu eftir því sem hæstiréttur hefir nú fellt dóm. Ég er vitanlega alveg á móti þessari skoðun lögfræðingsins, eins og svo mörgu öðru, sem hann hefir borið fram, en hv. 3. landsk. er ánægður með þessi ummæli og hans blöð og hans flokkur hafa ekkert haft við þetta að athuga.

Þá talaði hv. þm. um það, að ég myndi vilja losna við einhvern hæstaréttardómaranna og til þess væri leikurinn gerður. En þá mætti segja með sama rétti, að Jón heitinn Magnússon hefði viljað losna við þáverandi landsyfirréttardómara, er hann bar fram lögin um hæstarétt. Því að þá var ekki frekar en nú trygging fyrir því, að sömu menn yrðu valdir til að gegna hinum nýju dómarastöðum.

Hv. þm. var eitthvað að dylgja með það, að ég væri á móti öllum þeim, sem ekki styrktu mig, og hæstiréttur væri á móti núv. stj. En nú vildi ég spyrja þennan hv. þm., hvort það sé hans meining, að hæstiréttur sé pólitískur, eða er hann svo grunnfær að halda, að skipun æðsta dómstóls í landinu sé ekki ábyrgðarmeiri en það, að þar skuli eingöngu farið eftir pólitískum skoðunum? Ég vil skora á hv. þm. að gefa skýringu á þessu.

Annars er það eftirtektarvert, að aumustu blöðin í landinu, Framtíðin og Stormur, hafa tekið sér fyrir hendur að verja hæstarétt, en hvað hefir hæstiréttur unnið til saka, þegar þessir menn gerast nokkurskonar siðferðislegir fjárhaldsmenn hæstaréttar? Hafa dómararnir beðið þessi blöð að veita þeim vernd? Og ef svo er, hví leitar dómstóllinn til þessara blaða? Þetta er auðvitað fyllilega samboðið hv. 3. landsk. og hans flokki, enda notar hann þessi blöð sem málgögn sín, eins og kom fram við kosningarnar, en ég hygg, að það borgi sig ekki fyrir hæstarétt að lenda á milli tanna Magnúsar, sem framkvæmdi stauparéttinn hér á árunum, og ritstjóra Framtíðarinnar.

Svo er það Morgunblaðið — sem líka er sorpblað, þótt það sé stærra en hin, en þar hefir aldrei skrifandi maður verið við í mörg ár, — sem líka tekur að sér málstað hæstaréttar, án þess að nokkur hafi gefið tilefni til þessara varnargreina nema Lárus Jóhannesson, sem er einn af eigendum þess.

Þetta veikir alla aðstöðu hv. 3. landsk., þegar hans blöð, sem eru sorpblöð, bergmála hans heimskulegu orð og ásakanir í garð þessa dómstóls, og það er ekkert skemmtilegt fyrir hæstarétt að vera í þessari fjölskyldu.

Það má þó Morgunblaðið eiga, að þegar þessu var fyrst hreyft opinberlega, hvílíka skömm hæstiréttur hefði af sleikjulátum sorpritaranna, þá hætti það að miklu leyti heimskuhjali sínu um þetta mál, a. m. k. fram að þessu.

Meginkjarninn í ræðu hv. 3. landsk. virðist vera vafi hans um það, hvort núv. dómendur í hæstarétti fari í fimmtardóm eða ekki. Það er eins og hann vilji gera það stórt atriði, hvað dómendur þessir heiti næstu 1–2 árin, því að allir núverandi dómarar eru komnir nærri því aldurshámarki, sem sjálf stjskr. setur. Aðeins vanþekking á tilbúningi hæstaréttarlaganna 1919 getur afsakað framkomu hv. 3. landsk.

Í hæstaréttarlögunum frá 1919, sem Jón heitinn Magnússon fékk Einar Arnórsson til að semja fyrir sig, segir ekkert um það, hverjir eigi að flytjast úr yfirréttinum og í hæstarétt. 1919 stóð það algerlega opið fyrir Jóni Magnússyni að velja alla dómendur hæstaréttar utan landsyfirréttar, enda valdi hann tvo menn nýja, sem ekki voru prófaðir samkv. hæstaréttarlögunum. Hvers vegna má þá ekki fara eins að í framtíðinni. Að þessu sinni er þó margfalt stærri umbót gerð á allri réttarskipun en með hæstaréttarlögunum 1919. Sú eina umbót, sem þá var gerð, var málflutningurinn, að hann skyldi vera munnlegur, og sú umbót var gerð á móti einróma áliti dómaranna í landsyfirréttinum. Hv. 3. landsk. var þar með í flokki, sem ekkert sá athugavert við það 1919, þó að fellt væri niður í framkvæmdinni að prófa hæstaréttardómendur. En nú gerir hann kröfu um að það verði ekki gert. Hv. 3. landsk. fatast í rökum sínum nú, eins og komið hefir fyrir áður oft og mörgum sinnum. Ef nú væri fylgt fordæminu frá 1919, þá gæti skapazt ranglæti, sem hvorki hann eða mig langar til. Ef sett verða sömu skilyrði og 1919, að fyrstu mennirnir í dómnum skuli undanþegnir prófi, og segjum, að þessi breyting gangi fram í vetur og að sama stj. skipi mennina í dóminn. Hvað kæmi þá, ef — eins og hv. 3. landsk. hugsar sér að vaki fyrir núverandi stj.: að koma harðsnúnum fylgismönnum í dóminn — ef svo verða stjórnarskipti eftir einn mánuð og við tæki hv. 3. landsk. og núverandi flokksbróðir hans, hv. þm. Dal., sem hv. 3. landsk. vildi einu sinni banna þingsetu með stjórnarskrárbroti? Hugsum okkur svo, að eftir stjórnarskiptin losnaði eitt sæti í fimmtardómi, þá væri aðstaðan sú eftir frv., að hv. 3. landsk. gæti sett þangað einhvern flokksbróður sinn, en eftir skoðun hans, að þeir dómendur, sem fyrir eru, hafi íhlutunarrétt um skipun mannsins, þá má eins gera ráð fyrir, að þeir felli þann mann frá því að komast í dóminn, sem hv. 3. landsk. hafði tilnefnt. Með þessu væri þá hv. 3. landsk. og hans flokksbræður vonlausir fyrr en eftir langan tíma að fá sína menn í dóminn. Þannig skortir hv. 3. landsk. dómgreind til að sjá, að ef hann er hræddur við misbrúkun um skipun manna í dóminn, þá er ekkert hægt að gera, sem tryggi það betur, að svo verði ekki, heldur en einmitt þetta ákvæði frv., sem hann reynir af vanmætti sínum að gera tortryggilegt. Dómaraembætti í aðaldómstóli landsins á að sjálfsögðu að veita eins og önnur embætti í landinu, af þeirri stjórn, sem á hverjum tíma fer með umboð fyrir meiri hl. landsmanna.

Segjum aftur á móti, að haldið sé fast við ákvæði fimmtardóms og að í þessu efni sé fylgt einfaldri stjórnarskipun, eins og í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, þá mundi um þessi embætti fara eins og önnur, sem losna í tíð mismunandi stjórna, og þá yrði það aldrei lengi, að einn ákveðinn stjórnmálaflokkur ætti alla mennina í dómnum.

Í landi eins og okkar og með þeirri stjórnarskipun, sem við höfum, leiðir af sjálfu sér, að þegar stjórnarskipti verða, eru sumir embættismenn þjóðarinnar íhaldsmenn, aðrir framsóknarmenn eða sósíalistar. Og ef litið er á málið frá heilbrigðu sjónarmiði, þá er það sjálfsögð regla að skapa þau skilyrði, að æðsti dómstóll ríkisins klofni ekki frá þjóðinni.

Mér virðist vaka fyrir hv. 3. landsk., að hæstiréttur ætti að geta lokað alla þá frá því að komast í réttinn, sem honum væru að einhverju leyti ekki geðfelldir. En hitt virðist ekki vaka fyrir honum, að ágreiningur geti átt sér stað innan réttarins.

Segjum ennfremur, að sæti losni í hæstarétti eða fimmtardómi, ef rétturinn hefir úrslitavald um veitinguna, og að komi til framsóknarstjórnar að tilnefna mann í staðinn og að hún nefni t. d. einhvern bezta og færasta prófessorinn í lagadeild háskólans, en að hann sé felldur frá því að taka sæti í réttinum, af því að dómendurnir, sem fyrir eru og hafa íhlutunarrétt um skipun mannsins, eru íhaldsmenn og vilja engan nema hann sé nákvæmlega af þeirra sauðahúsi. Segjum svo, að stj. nefni annan mann ágætlega færan að hennar dómi, en hann er líka felldur, og svona getur gengið koll af kolli, að dómendur í hæstarétti geta fellt menn þá, sem stj. nefnir til þess að taka sæti í réttinum, af því að þeir passa ekki í kramið vegna stjórnmálaskoðana sinna, eða vegna yfirburða í menntun og manngildi, ef rétturinn er eins og Lárus Jóhannesson lýsir honum. Heldur hv. 3. landsk., að slík óbilgirni dómendanna í hæstarétti verði þoluð til lengdar af þjóðinni? Nei, það fer eins um þann flokk, sem misnotar svo vald sitt, eins og t. d. Estrups-liða í Danmörku. Þeim var hrundið, þegar þjóðin hafði mátt til að kasta af sér áþján þeirra.

Nýlega er komið út í Svíþjóð stórt rit og merkilegt um réttarfar. Hv. 3. landsk. hefði gott af að lesa þetta rit. Þar er ekki minnzt á hans skoðun, sjálfskipun dómaranna, heldur að allir dómar séu skipaðir sem beztum og færustum mönnum. Sjálfgetinn dómstóll getur orðið klíkudómur. Hæstiréttur okkar er leifar frá Estrupstímanum, fluttar hingað inn 1919 og studdar af Stormi, Framtíðinni og öðrum sorpblöðum íhaldsins, en áfelldar harðlega af Lárusi Jóhannessyni. Má í þessu efni benda á samræmið í réttarfarinu, t. d. sýknun Björns Kristjánssonar og sektardóm gegn ritstjóra Tímans, út frá forsendum í máli sambandsins, sem allar voru í vil núverandi forsrh., en í óhag hv. 1. þm. G.-K. og pésa hans. Tveir dómar af því tægi leiða til gagnrýni, en ekki til allsherjaráfellisdóms eins og þess, sem Lárus Jóhannesson hefir upp kveðið um hæstarétt.

Hv. 3. landsk. hneykslaðist á því, að ég hefði sagt, að dómar ættu að vera í samræmi við réttarmeðvitund þjóðarinnar. Ég sagði nú raunar ekkert um það hér. Að vísu þarf ekki langt að leita, að dómar danska hæstaréttar hafi riðið í bág við réttarmeðvitund þjóðarinnar. Það þarf ekki nema að minnast á dæmi íhaldsflokksins í Danmörku, sem dæmdi Berg í fangelsi fyrir ræðu, sem hann hafði flutt á opinberum fundi yfir á Jótlandi. Ég skal ekkert um það segja, nema sá dómur hafi haft stoð í einhverjum lögum þar í landi. En þjóðin reis upp og mótmælti dómnum, taldi hann ranglátan og svívirðilegan. Engum nema römmustu íhaldssinnum datt í hug að afsaka dóminn. Þetta hafði sömu þýðingu eins og annað, sem gert er fólki nauðugt. Fall íhaldsins í Danmörku varð svo þungt af því syndir þess voru svo margar; allt varð að myllusteini um háls danska íhaldsins, enda er flokkur þessi undarlega lítill þar í landi, og nýtur hann þar manna eins og hv. 3. landsk. Slíkir menn stóðu að glapræðum Estrups. Út frá þessum forsendum séð er rétt, að hv. 3. landsk. taki til athugunar, hvort álit almennings sé einskisvert eða að engu hafandi.

Í lögbók Svisslendinga er grein, sem fræg er orðin og hljóðar á þessa leið: Þegar lögin ekki kveða skýrt á um eitthvert atriði, þá eiga dómendurnir að dæma eftir beztu vitund. Það er þessi grein, sem orðið hefir mörgum til fyrirmyndar. Slík framkoma, að láta réttlæti og drengskap ráða um dóma, veldur því, að enskir dómarar njóta svo óvenjulegs álits fyrir réttdæmi.

Hv. 3. landsk. og þingsystir hans, hv. 2. landsk., hafa enn verið að tæpa á því, að í frv. þessu felist stjórnarskrárbrot, þar sem gert er ráð fyrir, að hæstaréttardómendurnir fari frá með fullum launum. Nú vildi ég biðja hv. 2. landsk. að skila til þess manns, sem þm. hefir farið í smiðju til, að þetta sé alls ekki rétt. En hinsvegar vildi ég einnig mega benda þm. á, að hann ætti ekki að vera að hlaupa erinda þess flokks, sem búinn er að snúa við henni bakinu og er staðráðinn í að leggja hana á höggstokkinn í vor, pólitískt séð. (JÞ: Maður heyrir stundum sorpblöð, þó maður lesi þau ekki). Annars er ekki von á, að hv. 3. landsk. átti sig á, að hér er ekki um stjórnarskrárbrot að ræða. Hann er búinn að gleyma þeirri tilraun, sem hann gerði ekki alls fyrir löngu til þess að brjóta stjskr., þegar landsbankafrv. var hér til umr. Annars hefi ég í fyrri ræðu minni fullsvarað þessu atriði.

Hér er alls ekki um neitt stjórnarskrárbrot að ræða, og liggur ekki nærri, heldur orðsending vissra manna inn í þingið, sem eiga hér auðsveipa skósveina til þess að reka erindi sín. (IHB: Ein af mörgum ósannindum ráðherrans!). Það sýndi sig bezt í gær, hvað hv. 3. landsk. er ófróður um öll þessi mál, þá var þm. alltaf að skjótast frá og í smiðju á milli þess, sem hann var að tala.

Annars hefir hv. 3. landsk. gefið ágæta skýringu einmitt um þetta atriði, sem hann er að deila á. Hann sagði í gær um þessa menn, sem fara frá 60 ára, að þeir lendi á vonarvöl. Nú er því ekki að gegna um þessa menn, af því að þeir fara frá með fullum launum. En þetta sýnir álit hans og ótraust á gömlum mönnum. Ef þessi skoðun hans er rétt, að 60 ára gamlir menn fái ekkert að gera, þó þeir hætti einu starfi, þá er það af því, að þeir eru orðnir vesalingar, því að alstaðar í öllum löndum er á öllum tímum nóg að gera fyrir dugandi menn. Af þessu má þá álykta sem svo, að menn, sem að dómi hv. 3. landsk. eru orðnir ófærir fyrir aldurssakir að vinna hjá öðrum, þeir eigi að halda áfram að vera í æðsta dómi landsins. Betri sönnun en þetta er ekki hægt að fá fyrir því að miða einmitt aldurstakmarkið við 60 ár.

Ég hefi þá í stórum dráttum svarað því helzta, sem fram kom í ræðum hv. 3. landsk. móti máli þessu.

Ég ætla þá fyrst að slá því föstu, að öll frammistaða hv. 3. landsk. er í líkingu við undirbúning hæstaréttar 1919. Honum datt ekki í hug að vitna í annað en hæstaréttarlögin. Þó sannaðist strax í meðferð laganna, að kostnaðurinn skipti tugum þúsunda á ári. En engum datt í hug 1919 að bæta við svo sem 2–3 þús. kr. til frekari undirbúnings og rannsóknar málinu. Undirbúningurinn 1919 var eins ófullkominn eins og hægt var að hugsa sér.

Þar sem hv. 3. landsk. heldur áfram að vera fulltrúi fyrir þessar litlu og lágu kröfur, sem gerðar voru 1919, þá sér hann ekki ástæðu til að bæta úr því sleifarlagi, sem verið hefir á æðsta dómstóli landsins. Hann skilur ekki, að dómendurnir eru í sjálfu sér of illa launaðir og vill ekki, að þeim sé gefinn kostur á að kynna sér ástand annara þjóða viðvíkjandi þróun dómsmála. Hann vill ekki sjá né viðurkenna, að hér sé fundin leið til að fullkomna réttinn og gera hann stærri, án þess þó að hann verið dýrari, svo að um muni, með prófessora lagadeildar háskólans sem meðdómendur. Þó að hæstiréttur nú sé byggður á ófullkomnum og illa gerðum lögum og þó að hann sé með málfræðilega röngu nafni, sem fengið hefir verið að láni hjá Dönum, og þó að réttarfarið sé langt á eftir því, sem þekkist með frændþjóðum okkar, Norðmönnum og Svíum, um vinnuskipulag, þá hefir það ekki minnstu áhrif á framkomu hv. 3. landsk., sem lokar augunum fyrir þeirri miklu og stóru réttarbót, sem borin er fram í frv. þessu. Allar röksemdir hv. þm. snúast um persónuleg efni — persónulegan hagnað fyrir flokk hans og til að verja gegn ímyndaðri hættu einhverja flokksbræður.

Enn hefir ekkert svar komið frá hæstarétti um afstöðu hans til þessa máls, en ég trúi því ekki, að hann standi á bak við hina fáránlegu framkomu hv. 3. landsk. Hv. d. mun hafa veitt því eftirtekt, — en ég get þó ekki stillt mig um að skjóta því hér inn —, að í aðalblaði íhaldsins var í morgun kynleg lýsing á því, hvernig áheyrendur hefðu tekið þessu máli í gær. Þar stóð, að áheyrendur hefðu flúið umr. meðan ég reifaði málið. En sannleikurinn er sá, að aldrei á þessu þingi hafa verið hér fleiri áheyrendur en í gær. Þetta sýnir bezt, hvað málsstaður íhaldsins er góður, að það skuli þurfa að rangsnúa svona lítilfjörlegu atriði. En hitt skil ég, að ástæðan til þess, að Mbl. nefnir aðsókn að umr. í gær er það, að blaðið hefir reiðzt bæjarbúum fyrir að hafa áhuga á þessari umbót.

Hv. 3. landsk. fór að vonum ekkert út í það, að þetta er ekki fyrsti leikurinn á milli mín og hans um réttarfarsmál á Íslandi. Hv. þm. hefir ekki farið svo vel út úr þeim málum. Hver beitti sér fyrir endurbótum á fangelsismálum hér og hinni skammarlegu meðferð á föngunum? Og hvernig tók hv. þm. þeim endurbótum? Hv. þm. og flokkssystkinum hans stóð á sama, þó að fangarnir yrðu heilsulausir í fangelsinu, af því að svo svívirðilega var um þá búið. Rotturnar dönsuðu yfir andlit þeirra, er þeir leituðu hvíldar í rúmræflum sínum, og ýldustækju lagði upp í klefana gegnum grautfúið gólfið. En hreint loft áttu þeir að fá inn um lófastóra rúðu, sem var opnanleg á hverju herbergi. Nei, hv. þm. var sama, þó að þessir umkomulitlu, flibbalausu vesalingar — því að aðrir voru ekki dæmdir í þá daga — misstu heilsuna í fangelsinu og fengju þar aðbúð, sem ekki var skepnum boðleg. Ef hv. 3. landsk. hefði getað hindrað stj. í að endurbæta kjör þessara vesalings manna, þá hefði hann gert það. En við sigruðum, og Morgunblaðið og allir þess angar sprikluðu. Á eftir var okkur núið því um nasir, að endurbæturnar á Litla-Hrauni mundu kosta 400 þús. kr. En landsreikningarnir sýndu, hvað þær kostuðu. Nú er svo komið, að enginn íhaldsmaður — ekki einu sinni hv. 3. landsk. — þorir að ráðast á fangelsið á Litla-Hrauni eða umbæturnar á fangelsinu hér í bænum, af því að því er slegið föstu, að þetta var það, sem átti að gera. Einum berklaveikum fanga á Litla-Hrauni hefir meira að segja batnað að mun, eins og hann hefði verið á heilsuhæli. Hann hefir búið í sæmilegu herbergi, sem er mönnum boðlegt, og getað verið úti undir beru lofti. Og þetta er ekki eini leikurinn á milli okkar hv. þm., þar sem hann hefir ekkert haft nema ósigurinn, ekkert nema ósigur og vansæmd og illan málsstað. Hv. þm. ætlaði að ganga af göflunum, þegar farið var að hreyfa óánægju með stjórn lögreglumála í þessum bæ og bæjarfógetaembættið. Hann var svo sem ánægður með þetta, þó að vitanlegt væri, að launakjörin væru svo óréttlát, að launin fóru upp undir 80 þús. kr. á ári hjá fyrrv. lögreglustjóra, en 40 þús. hjá skiptaráðandanum í Rvík. En við skulum athuga, hvernig þetta hefir breytzt. Við skulum spyrja þá, sem hafa verið riðnir við dánarbú. Það er þegar viðurkennt um allt land, að það ástand, sem hv. 3. landsk. var að reyna að verja, var svo aumt, að það á enga forsvarsmenn lengur, enda hefir hv. 3. landsk. ekkert haft upp úr því, nema réttláta minnkun fyrir að hafa varið ástand, sem var á borð við fangahúsið á Skólavörðustíg.

Við skulum taka lögreglustjóraembættið og þá breyt., sem gerð var á því. Fyrrv. lögreglustjórinn sótti um tollstjóraembættið, fékk það og gegnir því með heiðri og sóma. Hann er líklega mótstöðumaður stj., en um það hefir aldrei verið spurt. Að bæjarfógetanum var ekki veitt lögmannsembættið, var á góðum og gildum ástæðum byggt, sem ég ætla ekki að rekja hér. En reynslan hefir sýnt það ótvírætt, að núv. stj. hefir kunnað að taka á þessu máli. Varð kannske breyting til hins verra, þegar nýr lögreglustjóri kom? Ónei, síður en svo, og um það eru allir sammála. Nýi lögreglustjórinn hefir sett á embættisreksturinn svip sinnar samtíðar. Og svo magnað vantraust fékk hv. 3. landsk. hjá flokksbræðrum sínum, að íhaldsmennirnir í bæjarstjórn brugðu við og hættu við 15 lögreglumönnum, þegar stj. hafði lagt til vel hæfa forustu. Þeir sáu, að nú var það til einhvers. Nú gátu þeir treyst forustunni.

Það er alveg þýðingarlaust fyrir hv. þm. að slá á þá strengi, að hér sé um að ræða ofsóknarmál við íhaldið. Hér er um að ræða mikið umbótamál, alveg hliðstætt þeim umbótum, sem gerðar hafa verið í fangelsismálum landsins, í lögreglustjórn Reykjavíkur og í meðferð á dánarbúum og fé ómyndugra í höfuðstaðnum. Þessar umbætur, sem ég hefi nefnt, hafa vitanlega verið gerðar jafnt fyrir alla, en íhaldsmenn, einmitt íhaldsmenn hafa notið þeirra mest. Á meðal þeirra koma flest þrotabú til greina. Við framsóknarmenn erum minnsti flokkurinn í bænum, en þessar aðgerðir hafa komið miklum meiri hl. bæjarbúa að gagni — af því að við erum umbótaflokkur.

Um fimmtardóminn er það sama að segja. Hann er byggður á evrópískum nútíðargrundvelli, í stað gamla, danska kúgunargrundvallarins, sem sumir afturhaldsseggir eru ekki enn búnir að venja sig af. Formið, sem hæstarétti var gefið 1919, er úrelt, og hefir alltaf verið það, af því að þá menn, sem að því unnu, skorti hæfileika og víðsýni til að gera betur.

Það er ekki til neins fyrir þá, sem ekki hafa annað vopn í höndum en flokkseigingirnina, að reyna að vinna sigur í þessu máli. Ég er búinn að rökstyðja réttmæti þess, með því að benda á hinar gegndarlausu hrakfarir, sem hv. 3. landsk. og hans menn hafa farið í öðrum réttarfarsmálum, sem á samskonar kröfum eru byggð, og sem þeir nú þakka, a. m. k. sín á milli, og njóta ávaxtanna af. Við viljum bæta aðaldómstól landsins, sníða hann eftir þörfum nútímans og gera hann þó um leið þjóðlegri en hann hefir nokkru sinni verið, síðan Ísland var lýðveldi. Ef hv. þm. getur nokkuð annað aðhafzt í þessu máli en að leika á strengi flokkseigingirninnar og hégómans, og komið fram með alvarlegar umbótatill. við frv., verður enginn glaðari en ég.