19.03.1930
Neðri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

1. mál, fjárlög 1931

Sveinn Ólafsson:

Ég get tekið undir það með hæstv. fjmrh., að útlit fjárl. er allt annað en glæsilegt eins og komið er, með öllum þeim mörgu nafnbundnu styrkjum, sem í þeim standa, og ég verð líka að vera honum sammála um það, að ekki muni þau lagast mikið, ef brtt. á þskj. 302 verða allar samþ. Fjárl. virðast, eftir útlitinu á þessari stundu, ætla að verða að enn stærri beinahrúgu en nokkru sinni áður en menntamálaráðið settist á rökstóla til að útbýta þeim bitlingum og styrkjum, sem það hefir yfir að ráða.

Við 2. umr. komust ófyrirsynju nokkrir styrkir til einstakra manna inn í 15. og 18. gr. fjárl. Ég gat þess þá, að ég yrði á móti þeim flestum. Mun ég líka í mörgum tilfellum gera hið sama við þessa umr., — ekki af því, að ég álíti alla svona styrki að óverðugu veitta, heldur vegna þess hættulega fordæmis, sem með þeim er skapað, og af því að ekki sæmir að leggja styrkþegana á metaskálar með þeim hætti, að tilviljun ráði meira en verðleikar um styrkina.

Ég á hér 2 brtt. einn, og fer hvorug þeirra fram á aukin útgjöld. Auk þess flyt ég 2 brtt. með öðrum hv. þdm., og lúta þær að örlitlum útgjöldum.

Ég á VI. brtt. á þskj. 302, við 13. gr. B. XIII., og hún er þess efnis, að færður verði niður byggingarstyrkur til gistihúss í Bakkaseli í 10 þús. kr. úr 35 þús. kr.

Ég vil ekki neita því, að heppilegt geti verið að hafa sæluhús eða gistihús á þessum stað, en ég álít, að ekki sé rétt að leggja svo mikið af mörkum til þessa, meðan nauðsynlegar framkvæmdir, eins og vega- og brúargerðiur, verða að bíða vegna fjárskorts. Ég held, að nóg sé að byggja fyrir 10 þús. kr. á þessu litla heiðarkoti, sem í fasteignamati er virt aðeins 1100 kr. Ég hygg, að mörg stórbýli landsins, sem sæmilega teljast húsuð, verði að komast af með húsakost fyrir 10 þús. kr., og oft minna. Það má vera, að æskilegt þyki að hafa þarna hótel eða gildaskála fyrir einhverja farfugla, sem vilja dvelja þar á sumrum. En ekki get ég séð, að óskir þeirra manna séu jafnaðkallandi og margt annað, sem nú verður að vanrækja vegna fjárskorts.

Þá er önnur brtt. frá mér, sem fer fram á, að lækkaður verði byggingastyrkur til útihúsa í Fornahvammi úr 8.000 kr. niður í 4.000 kr. Þessi brtt. er í samræmi við hina fyrri. Það hefir þegar verið varið tugum þúsunda til bygginga í Fornahvammi, og er jörðin þó eigi virt nema 1300 kr. í gildandi fasteignamati. Byggingarnar þar munu hafa kostað fertugfalt verð jarðarinnar. Mér finnst því, að ef vantar einhvern kofa þar í viðbót, þá hljóti 4.000 kr. að nægja. Vona ég, að allir, sem vilja stuðla að skynsamlegri afgreiðslu fjárl. og hóflegri notkun fjárins geti fallizt á þessar till.

Kem ég þá að XXV. brtt. á sama þskj., sem er um 1.500 kr. styrk til að gefa út nokkurn hluta af þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar frá Eyvindará, gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar frá. Ég skal jafnframt geta þess, að líkur eru til, að sáttmálasjóður leggi fram fé á móti þessari upphæð, og ennfremur eru dálitlar vonir um, að nokkrir Austfirðingar vilji hlaupa undir bagga. Auðvitað er ekki hægt að gefa út nema lítinn hluta af þessu stóra safni fyrir þetta fé. En ef þeir flokkar væru valdir úr, sem aðgengilegastir og útgengilegastir eru, myndi útgáfan sennilega seljast svo fljótt, að hægt væri að gefa út það, sem eftir væri, fyrir ágóðann af sölunni. Þótt segja megi og sagt hafi verið, að sumt í þessu safni sé eigi fémætt eða merkilegt, þá er það samt víst, að safnið er sú heimild um menningarsöguleg gögn þjóðarinnar, sem engan á sinn líka og seint verður metið að verðleikum eða réttilega, nema út verði gefið.

En auðvitað er það, að kostir sagnanna eru mjög misjafnir, því að þær hafa verið teknar upp eins og þær lágu fyrir að efni og orðbúningi, betur eða verr samdar eftir aldri og meðferð.

Einkum eru tveir flokkar úr safni þessu, sem ég mundi vilja kjósa til útgáfu fyrst, ef þetta fé yrði veitt, en það er sá hluti safnsins, sem hefir fyrirsögnina „Afreksmenn“, og í öðru lagi sá, sem nefndur er „Jarðbúar“. Sá fyrrnefndi hefir mörg söguleg gögn að geyma, en í hinum munu vera ýmsar af elztu og frumlegustu sögum safnsins. Að ég ekki kom fram með þessa brtt. við 2. umr., stafaði af því, að þá leit fjárlagafrv. svo út, að ég hélt, að fátt af þessum persónustyrkjum myndi verða þar, en eftir að 2. umr. er lokið og allur sá fjöldi smástyrkja er kominn inn í 15. gr., sem þar er nú, og aðallega til manna, sem ekkert hafa afrekað á þessu sviði eða öðru, en hafa fengið styrki af því að þeir hafa áformað — eins og kveðið er að orði — að rita eitthvað síðar, þá fannst mér ég ekki geta setið hjá, heldur verða að gera eitthvað til þess, að útgáfa þessa merka rits fengi að njóta örlætis þingsins. Það getur hvort sem er ekki lengi dregizt, að þeirri útg. verði með einhverjum hætti sinnt. Það er áreiðanlega flestum hv. þdm. kunnugt, að þrjú stór bindi eru þegar komin út af þessu verki, en af þeim hefir lítið selzt ennþá, og það er af því, að höfundurinn hefir fylgt þeirri reglu að gefa út nokkuð af því léttvægasta fyrst, en geyma síðari tíma það, sem flestir girnast mest að eignast.

Ég vil ekki tefja tímann með því að ræða þetta lengi. Ég býst við, að það muni þó talsvert margir vera okkur flm. sammála um það, að ekki sé siður ástæða til að hugsa um þetta en suma hina persónustyrkina, sem inn eru komnir.

Ég vík þá að L. brtt. á þessu sama þskj., en hana hafa flutt ásamt mér hv. 2. þm. Eyf. og hv. 1. þm. N.-M. Með henni er farið fram á að færa ekkjustyrk þann, sem Susie Briem er ætlaður í fjárl., úr 300 kr. upp í 1.000 kr.

Það má vel vera, að ýmsum finnist þetta óþarft, og með því að samþykkja svona till. komi fram nokkurt misrétti gagnvart þeim öðrum ekkjum embættismanna og opinberra starfsmanna, sem standa í 18. gr. Ég get vel skilið það, að frá þessari hlið verði þannig á það litið, en þess er að minnast, að í þessari 18. gr. eru til ekkjur, sem hafa svona há og hærri laun. Yfirleitt munu hv. þdm. líta svo á, að þeirra verðleikar séu þeim mun meiri, sem þeirra laun eru hærri. Mér er ákaflega ógeðfellt að þurfa að leggja einstaklinga þannig á vogaskálar og vera að meta þá eftir verðleikum, þegar líkt stendur á og þetta, en hjá þessu er þó ekki hægt að komast með öllu.

Ég vil segja um þessa gömlu konu, sem er af útlendu bergi brotin, eftir þeim kynnum, sem ég hefi af henni haft, að hún á sérlega mikla viðurkenningu skilið. Hún kom hingað til landsins 1882, ásamt manni sínum, Halldóri heitnum Briem, og kynni þau, sem ég þá hafði af henni, sýndu mér það, að hún var í öllu tilliti ágæt kona, og ég veit, að hún stóð með sæmd og dugnaði við hlið manni sínum í lífsbaráttunni fyrr og síðar. En það má, um leið og ég nefni þetta, einnig nefna þá verðleika hennar, sem fjær liggja og líklega eru fæstum þdm. kunnir.

Það gerðist atburður merkur í sögu Íslendinga 1874, auk þjóðhátíðarinnar, sá, að vestur um haf fluttust um 300 Íslendingar til Canada. Þessi hópur átti hvergi atvinnu eða hæli þegar vestur kom og allir voru févana. Þeir komu seint sumars vestur, og vildi svo til, að þá dagaði uppi í litlum bæ, sam heitir Kinmount. Þá var landsstjóri í Canada Íslandsvinurinn alþekkti Lord Dufferin, en í hans þjónustu var þá maður að nafni John Taylor, er leysti úr vandanum. Fór hann á vit við þessa Íslendinga, sem þarna liðu skort og hvergi áttu höfði sínu að að halla, tók þá að sér, útvegaði þeim lánsfé til að lifa af og valdi þeim það hérað til landnáms, sem síðan hefir verið kallað Nýja Ísland. Með ráði Taylors fluttist hópurinn þangað og fékk leyfi Canadastjórnar til umráða þessari nýlendu. John Taylor átti tvær kjördætur. Önnur þeirra er Susie Briem. Báðar giftust þær Íslendingum; er önnur látin fyrir vestan haf ásamt Taylor, en þessi kjördóttirin lifir ein eftir hér.

Ég vil benda á það eins og verðleika þessarar öldruðu konu, að einmitt kjörfaðir hennar átti sinn mikla þátt í að bjarga þessum hópi Vestur-Íslendinga þegar mest lá við og var á meðan hann lifði bjargvættur þeirra á allan veg. Íslenzka nýlendan í Nýja Íslandi var, þegar hann og hópur hans kom þangað, óviðbúin að taka á móti landnemunum, en Taylor útvegaði hjá stjórn Canada 80 þús. dollara lán til þess að koma fótum undir nýlendubúana, og var lán þetta nokkru síðar gefið upp með öllu eftir óskum hans og tillögum.

Mér finnst, að af því að þessi maður hefir unnið nokkrum hluta íslenzku þjóðarinnar svo ómetanlega mikið gagn og reynzt henni svo frábærlega vel, — þá eigi þessi kjördóttir hans nokkurn rétt á því, að vér sýnum henni viðurkenningu. Á þann eina hátt er oss fært að endurgjalda velgerninga þessa ágæta kjörföður, því að hann getum við ekki viðurkennt, þar sem hann er nú fyrir löngu kominn undir græna torfu.

Það voru þessir verðleikar Susie Briem, sem ég vildi minnast á í sambandi við till. — Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta; ég býst við, að fleirum en mér sé þetta mál kunnugt, sem ég hefi skýrt frá, og að þeir muni þá líta líkt á þetta og ég, — að þeir muni eigi telja óviðurkvæmilegt, að hún njóti þess í nokkru, hvílíkur ágætismaður kjörfaðir hennar var og hvern stórgreiða hann vann vorri þjóð.

Þá á ég LVI. brtt. á þessu sama þskj. Ég hefi leyft mér að bera hana fram nokkuð breytta frá því, sem var við 2. umr., þegar ég tók hana aftur, af því að ég vildi ekki láta fella hana eins og hún þá lá fyrir. Ég bjóst við, að það myndi geta dregið til samkomulags við fjvn. um að bera till. fram með nokkuð öðrum eða breyttum formála. Till. þessi fer fram á, að ríkissjóður taki að sér ábyrgð á 90 þús. kr. láni til útgerðar-samvinnufélags Eskfirðinga. Eskifjörður er önnur stærsta verstöðin austanlands og svo settur, að atvinna kaupstaðarbúa er því nær eingöngu bundin við sjávarútveg. Það er landlaus staður með öllu og iðjugreinar eru þar engar stundaðar, en skipakostur, sem þeir hafa, er orðinn úreltur, skipin orðin forn og of smá. Í seinni tíð hefir sjósókn breytzt á þann veg, að sótt er miklu lengra suður og austur en áður var, enda er vertíðin miklu lengri en þegar sjósókn var hafin þar skömmu eftir aldamót með vélbátum. Nú er sótt út og suður um Papey eða jafnvel í Lónsvík. Bátarnir gömlu eru allt of litlir til slíkrar sóknar og sumir þeirra fá jafnvel ekki lengur haffærisskírteini og eru fyrir þeirra hluta sakir settir á land. Það er á þessum stað, eins og reyndar víðar á verstöðvarmölunum, að þar eru margir efnalitlir menn, sem ekki eru þess umkomnir að afla sér farkostanna til að geta haldið út á eigin spýtur. Yfirleitt eru þessir menn svo illa efnum búnir, að þeir geta aðeins með samtökum þokazt eitthvað í þessa átt, og myndi þó lítið vera, ef ekki stæði svo á, að þarna hafa 2—3 efnaðir menn gengið í þeirra félagsskap, til þess að gera þeim efnaminni mögulegt að koma fyrirtækinu á fót. — Þetta félag er stofnað af 52 búendum í Eskifjarðarhreppi. Tilgangur þeirra er, ef þeir fá þessa ábyrgð, að kaupa fjóra væna vélbáta til úthalds og sameina sig um úthaldið. Þarna er að vísu útgerð með stærri skip. Þaðan gengur einn togari og einn línuveiðari, en eins og gefur að skilja, geta ekki allir íbúar kauptúnsins fengið atvinnu við rekstur þessara skipa, því að mannfjöldi er hátt á áttunda hundrað í kauptúninu.

Ég hefi í till. þessari ekki farið lengra en það að óska eftir ábyrgð á lánsupphæð, sem næmi ¾ af kaupverði skipanna tilbúinna til fiskveiða, og ég hefi ennfremur, út af tilmælum manna úr fjvn., ákveðið eftir ósk þeirra að bera fram brtt. við till. eins og hún er á þskj. 302, sem lýtur að því að auka baktrygginguna fyrir þessu láni frá því, sem gert er ráð fyrir í till. sjálfri, nefnil. að ekki sé aðeins bundið við sjálfsskuldarábyrgð félagsmanna og Eskifjarðarhrepps, heldur einnig við ábyrgð sýslunnar. Ég tel nefnil., ef hún er fengin, að þá sé um mjög óverulega ábyrgð að ræða fyrir ríkissjóð, jafnvel aðeins ábyrgð að nafni til. Ég hefi einnig tekið upp í þessa brtt. ákvæði um það, að lánið skuli taka í lanlendri lánsstofnun, en ekki farið með það út úr landinu, eins og títt hefir verið undanfarið í svipuðum tilfellum, og reyndar reynzt misjafnlega, sérstaklega þó vegna þess, að það hefir alið sumstaðar utanlands þá trú, að ríkissjóður myndi vera háðari slíkum ábyrgðum heldur en hann er.

Ég þarf ekki um þetta að ræða frekar og ætla að gera ráð fyrir því, að hv. þdm. geti fallizt á svona till.; hún er í raun og veru langtum hóflegri heldur en hliðstæðar till., sem áður hafa legið hér fyrir og sem samþ. hafa verið. — Ég skal svo um leið og ég lýk máli mínu, afhenda forseta skriflega brtt., sem ég síðast nefndi.