14.04.1930
Efri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (841)

276. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Frsm. (Jón Þorláksson):

Eins og nál. menntmn. á þskj. 498 ber með sér, hefir hún orðið sammála um afgreiðslu þessa máls og leggur til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt., sem eru bein afleiðing þess, að það hefir náðzt fullt samkomulag á milli allra aðilja, sem um málið hafa fjallað, síðan það kom fyrir þingið, um að til sé í bænum annar staður miklu heppilegri fyrir háskólann en sá staður, sem frv. gerir ráð fyrir og hingað til hefir verið fyrirhugaður.

Eins og mörgum er kunnugt, hafa komið frá húsameistara einum í bænum uppástungur um það, að gera hring af opinberum byggingum í kringum sjálfa Skólavörðuhæðina, með torgi á miðri hæðinni og e. t. v. einni byggingu á miðju torginu. Í þessum hring var m. a. ætluð allstór byggingarlóð fyrir háskólann, eftir því sem gerist um byggingarlóðir, fullur hektari að stærð, og við hliðina þar á var ætlaður staður fyrir stúdentagarð. En satt að segja eru ýmsir annmarkar á þessari hugmynd, en þó komst hún svo langt, að hún var tekin upp í till. skipulagsnefndar um skipulagsuppdrátt fyrir Reykjavík.

Það eru nú aðallega tveir annmarkar, sem eru á þessum framkvæmdum, annar sá, að sjálft þetta landsvæði er ákaflega óaðgengilegt í alla staði. Þetta eru klappir og urðir utan í gömlu malarholti, þar sem tekin hefir verið uppfylling í hafnarsvæði. Það liggur í halla, alveg gróðurlaust og jarðvegslaust, og þess vegna er miklum kostnaði bundið að gera úr því nokkuð vistlegt umhverfi utan um slíkar byggingar.

Hinn annmarkinn var sá frá húsalistarsjónarmiði, að eins og þetta var hugsað, horfðu allar þessar byggingar öfugt við hallanum. Það var hugsað til, að framhliðarnar sneru upp á móti brekkunni, sem dregur hverja byggingu niður og er því mjög öfug tilhögun. Þar við bætist, að í frv. stj. komu fram óskir um miklu rýmra landsvæði til framtíðarafnota fyrir háskólann, óskir, sem n. verður að telja réttmætar, án þess að hún vilji leggja dóm á, hvort nákvæmlega sú stærð, sem tiltekin er í frv., sé sú rétta. En þeim kröfum er ekki hægt að fullnægja á þessum stað, nema á þann hátt, að lóðin verði sundurskorin af umferðagötum og að öðru leyti talsvert ólöguleg.

Í frv. stj. er sett að skilyrði, að Reykjavíkurbær leggi þetta svæði í Skólavörðuholtinu ókeypis fram. Út af þessu sendi n. borgarstjóra Reykjavíkur frv. til umsagnar, og hann hefir gefið um það ítarlega umsögn, sem prentuð er sem fskj. með nál. Þar eru dregnir fram þeir annmarkar, sem eru á afhendingu lóðar á þessum stað. En hinsvegar benti borgarstjórinn á stað, sem öllum kemur saman um, að sé jafnaðgengilegur og vistlegur eins og hinn er óaðgengilegur og óvistlegur, og það er á svæðinu sunnan við fyrirhugaða Hringhraut, en austan við Suðurgötu og niður í Vatnsmýri. Þetta er að mestu leyti grasi gróið land, og mikið af því erfðafestulönd, sem bærinn hefir látið af hendi með þeirri kvöð, að hann geti tekið þau til sinna nota, hvenær sem hann þarf, fyrir ekki mjög hátt gjald. En sá hluti, sem byggingarnar verða reistar á, er kvaðalaus eign bæjarins, sem hann getur látið af hendi, ef þurfa þykir.

Bæði háskólaráðið, ráðh. og n. hafa fallizt á að leita samkomulags um að fá lóðina undir háskólann á þeim stað, sem borgarstjórinn hefir bent á.

Annars er það um frv. að segja, að það er náttúrlega ekki mikið, sem í því felst, annað heldur en það, að byrjað verði á undirbúningi málsins yfir höfuð. Frv. bindur ekki Alþingi um málið að neinu leyti, þar sem það aðeins kveður svo á, að það skuli reisa háskólabyggingu á árunum 1934–1940, að því tilskildu, að annaðhvort verði veitt fé í fjárl. eða að Alþingi heimili lántöku til þess. Frv. sjálft tiltekur þetta ekki endanlega, t. d. með því að heimila landsstj. lántöku í þessu skyni. Því má náttúrlega segja, að sé seilzt nokkuð langt fram í tímann, að gera ákvarðanir fyrir árabilið 1934–40, án þess að grípa fram fyrir hendurnar á þeim þingum, sem þá sitja. En n. er sammála um það samt sem áður að greiða götu frv. af þeirri ástæðu, að það felur í sér fyrirmæli um undirbúning þessarar byggingar. Og þó að ekki sé endanlega ákveðið um framkvæmd sjálfrar byggingarinnar, felst þó í því nokkuð eindregið loforð um, að byggingin verði fullgerð á þessu árabili.

Annars er n. sammála um, að þetta húsnæði, sem háskólinn hefir hér í bænum, sé engan veginn viðunandi og lítur svo á, að þetta tvíbýli þrengi og allmikið að Alþingi. Það er því öllum ljóst, að háskólabygging er ein af þeim opinberu byggingum, sem stendur hér fyrir dyrum og verður að koma til framkvæmda, eftir því sem kraftar þjóðfélagsins leyfa.