14.04.1930
Efri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (842)

276. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég þakka hv. menntmn. fyrir hennar aðgerðir og till. í þessu máli. Það stafar af burtveru minni frá þinginu, að frv. gat ekki komið fyrr fram. Því að nú er orðið nokkuð seint til að það verði líka samþ. af hv. Nd. En það eru samt þeir straumar um þetta mál, að allmargir menn í þinginu gætu sætt sig við, að þessu máli yrði lokið á Þingvöllum, ef þingi væri frestað.

Eins og hv. frsm. tók fram, hafði það verið ætlun háskólans og þeirra, sem að honum standa, að hann yrði byggður uppi við Skólavörðutorg, og þar hefir meira að segja verið grafið fyrir stúdentagarðinum.

En eftir því, sem ég hafði meira með málið að gera, því ljósara varð mér, að sú lóð, sem ég hafði álitið nægilega, mundi verða of lítil, þegar til lengdar lét. Þess vegna stakk ég upp á, að bærinn léti meira af landi, þannig að unnt væri að mæta mikilli húsaukningu á mjög löngum tíma.

Borgarstjóri Reykjavíkur hefir, eins og sést af skjölum málsins, álitið erfitt fyrir bæinn að missa svona stórt land uppi við Skólavörðu. Hinsvegar hefir hann látið líklega um að láta annað land, sem er jafnstórt því, sem um var talað, og sem bæði honum og stjórn háskólans og menntmn. hefir fundizt vera betur fallið fyrir þarfir háskólans. Ég hefi þess vegna álitið, að það væri málinu fyrir beztu að orða þetta eins og n. gerir, og reyna til lengstra laga að fá gott samkomulag um nýja lóð, og þó að einhverju væri tapað við þessa færslu, væri þó líka mikið unnið, því satt að segja er það ákaflega skemmtileg tilhugsun, ef háskólinn og skyldar menntastofnanir gætu fengið 30 dagsláttur á móti sól, rétt í jaðri bæjarins.

Ég held því, að málið horfi vel við, þar sem fara saman óskir stjórnar háskólans og góður vilji bæjarstjórnar Reykjavíkur, og talsvert miklar líkur eru fyrir góðu samkomulagi hér á Alþingi.

Það getur vel verið, að sú gagnrýni hv. 3. landsk. sé rétt, að hefði átt að heimila beina fjárveitingu í þessu frv. En mér fannst réttara að tryggja heppilega lóð og slá því föstu, að verkið yrði framkvæmt á næstu árum. Ég held, að það megi ekki dragast fram yfir 1940 að koma upp viðunandi háskólabyggingu, enda sýnir reynslan, að stórbyggingar verða ódýrari, ef þær eru byggðar á löngum tíma. Og um svona stórmál er óhugsandi, að undirbúningi þess verði lokið á styttri tíma en þremur til fjórum árum.

Ég hefi svo ekki meira um þetta að segja, en álít, að þessu máli muni verða haldið áfram hægt og hægt. Ef ekki tekst að fá það samþ. á þessu þingi, þá mun ekki við það verða skilið, fyrr en það nær samþykki. Ég tel, að góðar undirtektir hjá bæjarstjórn Reykjavíkur muni vera veruleg stoð í málinu.

Ég tel það heppilegast að fara ekki mjög geyst um fjárframlög, heldur tryggja undirbúning sem bezt, en hinsvegar að vinir háskólans sjái, að hann eigi að fá sína byggingu, eftir því sem fjárhagskraftar þjóðfélagsins leyfa.

Ég vil geta þess, að þótt svo fari, sem líklegast er, að málið dagi uppi, mundi ég vilja, í samráði við valda menn úr háskólanum, halda áfram undirbúningi viðvíkjandi þessu húsmáli.