25.01.1930
Efri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

9. mál, flugmálasjóður Íslands

Fors- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mér skildist hv. þm. Ak. spyrja fyrst um, hvort ætti að endurgreiða þann kostnað, sem leitt hefði af þessari ívilnun fyrir sjávarútveginn. Það er ekki meiningin, að eigi að endurgreiða neinn gamlan kostnað.

Svo spurði hv. þm., hvað ætti að gera, ef sjávarútvegurinn vill hafa þetta mál með höndum sjálfur. Mér finnst fyrir mitt leyti liggja beint við, að þessum flugmálasjóði yrði varið til að styrkja þá starfsemi. Hv. þm. veit, að ríkið hefir ekki rekið flugstarfsemi hingað til, heldur hefir Flugfélag Íslands fengið styrk hjá ríkinu og gert samninga við ríkið. Einnig við póststjórnina um flutning á pósti. Og til þess að það fengi styrk, sérstaklega í hitteðfyrra, til síldarleitar, var ákveðið, að það innti af hendi einhverja litla þjónustu af því tægi. Við stjórn síldareinkasölunnar var gerður slíkur samningur á árinu sem leið.

Mér skilst frv. svo rúmt, að eins og stj. getur beint þessu fé til Flugfélags Íslands, þá geti hún líka beint því til félags útgerðarmanna. Ég álít því ekkert til fyrirstöðu.