11.04.1930
Efri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (857)

459. mál, embættiskostnaður sóknarpresta og aukaverk

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég býst við, að gagnrýna megi það, að þessi frv. kirkjumálan., sem hér liggja fyrir, eru lögð svo seint fram, en til þess liggja aðallega tvær ástæður. Önnur er sú, að í Þórsstrandinu töpuðust ýms gögn nefndarinnar, sem hafði að mestu lokið störfum sínum fyrir þingið, og varð því að búa þau til að nýju. Hin ástæðan er sú, að ég lagðist veikur og lá mánuð af þingtímanum, og sá því fram á það, að ekki myndi þýða að ætla sér að koma frv. fram á þessu þingi, enda eru frv. þess eðlis, að varla er hægt að búast við, að þau nái fram að ganga á einu þingi. Þau fara fram á svo miklar breyt. á núverandi fyrirkomulagi, að ósanngjarnt er að ætlast til þess, að þau verði lögtekin án þess að þjóðin hafi áður fengið tækifæri til að kynna sér og ræða nýmæli þeirra. Af þessum ástæðum þótti mér rétt að leggja frv. fram nú, og þó að þeim verði vísað til n., sem ég tel rétt, er ekki til þess ætlazt, að n. skili áliti að þessu sinni, heldur er til þess litið, að með þessu móti komast frv. inn í Þingtíðindin, og skapast þannig grundvöllur fyrir, að þau verði rædd og um þau skrifað fyrir næsta þing.

Mér þykir rétt að gefa heildaryfirlit yfir efni þessara frv. Þau eru fimm að tölu, eins og dagskráin ber með sér, og fjalla um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, bókasöfn prestakalla, kirkjugarða, kirkjur, og veiting prestakalla. Eru þau fyrst og fremst að því leyti til nýjung, að með þeim fær prestastéttin loks eftir 25 ár að koma fram með álit sitt á löggjafarhlið kirkjumálanna. Á þessu tímabili hefir engin nefnd verið skipuð, né heldur því skipulagi komið á, sem gerði prestastéttinni kleift að undirbúa slík mál að sínu leyti. Hefir þó margt breytzt hér á landi á þessum síðustu 25 árum. Fólkinu fækkað í sumum byggðum landsins, en fjölgað í öðrum. Yfirleitt má segja það, að Ísland sé nú annað land en það var fyrir aldarfjórðungi síðan. En fyrirkomulag kirkjunnar hefir staðið í stað, og prestarnir hafa nú lítið meiri laun en þeir höfðu fyrir aldarfjórðungi, þannig að þeir eru nú lægst launaða stéttin af háskólagengnum embættismönnum, og kjör þeirra versna hlutfallslega með ári hverju. Ég drep á þetta, þó að í þessum frv. felist engar launatill. og prestastéttinni hafi með þeim aðeins gefizt tækifæri til að segja þjóðinni, hvað hún álíti, að hana mest vanhagi um í hinu ytra formi í starfi hennar.

Það af þessum frv., sem hér liggur beint fyrir nú, fjallar um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra. Býst ég við því, að það muni ef til vill mæta talsverðri gagnrýni, þegar til alvörunnar kemur, þar sem hér væri um að ræða beina launahækkun fyrir prestastéttina, enda skilur kirkjumálanefndin það svo, sem þetta sé nokkurskonar launabót. Ég álít, að undir vissum kringumstæðum sé sanngirni í þessu, þó að vel megi vera, að menn vilji heldur hækka laun prestanna beint en fara þessa leið.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en legg til, að frv. verði vísað til allshn. að lokinni umr.